Velkomið í fortíðina 2019

Velkomið í fortíðina 2019

Ég hef verið að pæla mikið í nýja árinu sem era ð koma og einnig hvað það er mikið búið að ganga á hjá mér þetta árið og spáð mikið í því hvað ég vil taka með mér í nýtt ár og skilja eftir í verðandi fortíð.

Ég er komin á þannig stað í lífinu að ég er þakklát fyrir það slæma eins og ég er þakklát fyrir það góða, ég er meðvitaðari um tilfinningar mínar og hvernig ég næ að hugsa um hverja tilfinningu fyrir sig þegar hún kemur upp og stjórnað því hvernig ég bregst við, og það er ég sérstaklega þakklát fyrir að hafa náð að læra. Það sem ég lendi í á mínu ferðalagi er mér ætlað að lenda í því það er leiðin sem ég valdi og er á. Hver endastöðin er veit ég ekki en það verður bara að koma á óvart eins og allt annað í heiminum.

En þrátt fyrir þakklætið sem ég finn fyrir því slæma þá er margt sem ég vil ekki taka með mér í nýja árið, eins og:

Neikvæðni – Ég þarf ekki neikvæðni í mitt líf, það dregur úr manni alla orku sem maður hefur. Ég mun vera meðvitaðari um hvenær ég verð neikvæð og ég mun passa að leitast eftir jákvæðu fólki í líf mitt á nýju ári.

Óþolinmæði – Ég hef alltaf verið óþolinmóð og sérstaklega þegar það kemur að sjálfri mér, furðulegustu hlutir stundum. 2020 vil ég hafa meiri þolinmæði fyrir sjálfri mér og öðrum.

Sjálfshatur – Já þetta er ljótur hlutur sem ætti ekki að vera til, sem betur fer hef ég náð að stjórna þessu aðeins betur og náð að hugsa betur um sjálfa mig. Sjálfsást all the way!

Sjálfsvorkun – Ég er orðin þreytt á að vorkenna sjálfri mér um hvað lífið hefur verið erfitt undanfarið. Já það  hefur verið erfitt en það eru fleirri í þessum heimi sem eiga erfitt og veistu, það er bara partur af lífinu. Nýtt líf fæðist og annað deyr, hringrás lífsins. Auðvitað er erfitt að sætta sig við það sem gerist, við erum mennsk með allar þessar tilfinningar sem við erum með, en það sem ég er að meina er að sætta sig við hvernig lífið er, það er fallegt, ruglingslegt, sorglegt og svo mikið meira en við erum hér núna í dag, lifum í dag og ef þið hafið misst einhvern nálægt ykkur haldið fast í minninguna af manneskjunni í hjartanu ykkar og haldið áfram, ég hef fulla trú á að sálirnar ykkar hittast aftur.

Það er margt gott sem er búið að gerast líka sem ég mun taka með mér í nýja árið og halda áfram að kynna mér og tileinka mér.

Trú – Ekki Kristin trú eða önnur hefðbundin trú heldur trú á sjálfri mér, á alheiminum, jörðinni, náttúrunni, stjörnunum og lífinu. Mér finnst ég allt í einu sjá allt í öðru ljósi eins klikkað og það hljómar og fyrir ári síðan hefði ég hlegið af mér rassgatið við að heyra þetta. En 2020 fer í það að halda mér á jörðinni og kynna mér lífið betur.

Þakklæti – Þakklætið sem ég hef fundið fyrir síðustu vikur hefur gefið mér svo mikið. Ég varð léttari í skapinu við að sætta mig við hvernig hlutirnir eru og lærði þakklæti á allt annan hátt en ég hef fundið áður og núna er ég sérstaklega þakklát fyrir að fá að vera með í þessu lífi á þessari jörð á nýju ári.

Vinátta – Ég hef alltaf átt erfitt með að kynnast fólki, enda lítill klikkaður krabbi sem þykir einstaklega vænt um skelina sína. En markmiðið er að ná að kíkja aðeins út úr skelinni og ná að mynda tengsl við fólk. Þetta er eitthvað sem ég hef verið að vinna í og mun halda áfram að vinna í.

Þetta er svona það helsta sem mig langar að skilja eftir og taka með mér. Hefur þú pælt eitthvað í hvað þú vilt skilja eftir og taka með? Mæli eindregið með að virkilega pæla í því.

Mig langar líka að segja TAKK 2019 fyrir erfitt ár sem kenndi mér þó ansi margt um sjálfa mig og þið kæru lesendur, gleðilega hátið og gleðilegt nýtt ár. Sjáumst hress á nýju fallegu ári.


Facebook Comments