Velkomið haust!

Velkomið haust!

Árstíð kósýheita er hafin

Ég er almennt ekki hrifin af haustinu því það er ekkert nema undanfari vetrar og hann er ekki háttskrifaður hjá mér sá.

Það er samt eitthvað við haustið sem er huggulegt, ég fór yfir það og hér eru nokkur atriði, sem ég get ekki neitað að ylja mér eitthvað.

 

  • Það fer að dimma á kvöldin og tími kertaljósa rennur upp EN það er enn bjart á morgnana og því  enginn skaði skeður með myrkrinu!

  • Skólinn byrjar, rútínan hefst. Það er eitthvað sem fyllir mann eldmóði á þessum tíma árs. Brakandi nýjar stílabækur, ný skóladagbók, barnið í spánýjum pollagalla og maður er tilbúinn að massa þennan vetur!
  • Það kólnar úti en þú færð ekki hjartsláttartruflanir þó þú hættir þér út úr húsi. Það er líka pínu smart og næs að skreyta sig með hlýjum trefli og draga fram dr. Martens skóna, þykku sokkana og koma sandölunum inn í skáp. 
  • Leikskólataskan er nýþrifin, troðfullt hólf af bleyjum, ný og saman brotin aukaföt á barnið í hólfinu á leikskólanum. Öll föt eru vel merkt, allt sem er of lítið hefur verið tekið úr umferð. Allt er vel yfir farið og skipulagt og barnið er dottið í þessa líka brakandi fínu rútínu. 
  • Þó farið sé að kólna eru líka fínir sólardagar þess á milli og það er enn full ástæða til að grilla það sem á að vera í kvöldmatinn.
  • Allt námsefni útprentað og klárt, líkamsræktarkortið orðið virkt, hugmyndir af góðum boostum og hollum krukkugrautum fljúga um hugann. 

Öll excel skjöl klár, uppsett og auð.. tilbúin til útfyllingar á skipulagi vetrarins. Það er eitthvað við þetta móment (sem haustið er) áður en veturinn kemur og slær okkur utan undir með öskrandi skammdegi og hundslappadrífu. Þangað til við staulumst inn með börnin í sandblautum kuldagallanum, í blautum lopaklæðnaði, sjálf með grýlukerti í stað táa og gersamlega frosin inn að beini. Þar til við sleppum fjandans líkamsræktinni því það var hvort eð er eiginlega ófært þangað niður eftir á sumardekkjunum. Þar til við kveikjum á Hvolpasveitinni meðan við hendum júrósjopperpítsunni í ofninn. Þar til við huggum okkur við að ef við bara náum prófunum, sé ekkert að óttast..

Þar til allt skipulag er fokið fjandans til og þú manst ekki einu sinni hvernig dagbókin sem þú keyptir í haust var á litinn og furðar þig á því hvers vegna þú kaupir eiginlega dagbók ár eftir ár, því það endar alltaf eins.

Það er eitthvað við þetta móment – áður…

á meðan við höldum (enn) að í ár munum við massa þennan vetur! 

Author Profile

Selma

Selma er 27 ára móðir frá Húsavík. Búsett í Reykjavík ásamt syni sínum Val Frey (2017). Hún er með Ba. próf í almennum málvísindum og leggur nú frekari stund á nám í íslensku við Háskóla Íslands. Áhuginn liggur í flestu tengdu Íslandi og íslensku en einnig öllu sem viðkemur móðurhlutverkinu, heimilinu, lífsstíl, þrifum, skipulagi og svo mörgu öðru.


Facebook Comments

Share: