Veiran okkar

Veiran okkar

Ég hef alltaf alist upp við að hafa dýr á heimilinu, oftast voru það hundar en það voru einstaka sinnum kettir líka og einu sinni meiraðsegja 2 hamstrar (það endaði ekki fallega, 0/10 mæli ekki með). Það er eitthvað svo hlýlegt  og heimilislegt að hafa ferfætling á heimilinu, heyra litlu fæturnar þeirra skottast um allt hús, einhver sem er alltaf glaður þegar þú kemur heim,  einhvern sem elskar þig skilyrðislaust og öskrar ekki á þig ólíkt börnunum þínum (eða allavegana mínum, en það eiga ekki allir jafn hávær börn og ég, þeirra náttúrulega tónhæð er líklega á sama bili og andsetinn köttur)

Þegar ég svo flutti að heiman þá fannst mér eitthvað vanta inná heimilið, ég reyndar held núna að mér hafi bara vantað part af mér sem ég fann svo síðar meir í börnunum mínum. En ég prófaði að eiga hund, ketti og naggrísi (again, 0/10 mæli ekki með, sver þetta eru litlar risaeðlur) en það endist aldrei, ég var hreinlega ekki tilbúin að takast á við þessa ábyrgð. Yfirleitt enduðu dýrin heima hjá mömmu og hún greyið neydd til að hugsa um þau, sem hún auðvitað gerði af alúð. Þegar við Tryggvi fluttum svo í Mývatnssveit og þurftum að losa okkur við kisurnar okkar þá hét ég því að ég myndi aldrei eiga gæludýr aftur. Þó við værum nú komin í þetta fína einbýlishús sem við áttum sjálf þá vildi ég ekki leggja það á mig að eiga fleiri dýr, bæði mín vegna – og dýranna vegna.

En lífið á það til að vera óútreiknanlegt. Eins og margir sáu á instagram og like síðunni minni bættist við nýr fjölskyldumeðlimur á heimilið í maí síðastliðinn – öllum að óvörum, en það var hún Veira okkar. Veira er tæplega 4 ára gömul Chihuahua tík og hún stal hjörtum okkar allra um leið. Hún hét reyndar ekki Veira þegar við fengum hana en hún tók nafninu strax og ber það nú með prýði og hlýðir öllu – ég er bara ekki týpan sem getur átt “Dúllu”.

Í fyrsta skipti á ég hund sem lítur á mig sem eiganda sinn, í fyrsta skipti á ég hund sem ég get ekki ímyndað mér lífið án. Hún fer með okkur útum allt, jah eða næstum útum allt. Hún fer ekki til foreldra minna því það eru 4 stórir hundar þar og Veiran mín ofmetur stærð sína aðeins en hún hatar aðra hunda og er ekki hrædd við að sýna það.  Við þurfum aðeins að vinna í því en það kemur allt með kalda vatninu.

Ég á loksins dýr sem er besta vinkona mín. Hún eltir mig inní svefnherbergi á næturnar og kúrir sig uppvið magann á mér þar til ég sofna, hún vill helst vera eins nálægt mér og hún mögulega getur og meiraðsegja þó hún þoli ekki börnin mín – þá sækir hún samt í að kúra hjá þeim. Hún er góðhjörtuð og ég finn fyrir ólýsanlegri tengingu við hana sem mér þykir svo vænt um og það sem meir er, ég fékk draum minn uppfylltan. Börnin mín alast upp með fallegum litlum ferfætling og læra enn meira að umgangast hunda.

Fjölskyldan mín er núna fullkomin.
Þar til næst!

ES – bleiki liturinn í henni er litanæring sem heitir Arctic Fox. Arctic fox er vegan litanæring sem inniheldur engin skaðleg efni og þvæst úr. Þið getið lesið um hana á www.arcticfoxhaircolor.com 

Author Profile

Ingibjörg Eyfjörð

Ingibjörg Eyfjörð er búsett í Mývatnssveit ásamt fjölskyldu sinni. Hún hefur óbilandi áhuga á heimilinu (nema þrifum, hún er með bráðaofnæmi fyrir þeim), förðun og öllu sem er aðeins út fyrir kassann. Skrif hennar einkennast af hreinskilni, kímnigáfu og harkalegum staðreyndum um hið daglega líf.


Facebook Comments

Share: