Vegan maskarar // Samanburður

Vegan maskarar // Samanburður

 

Stjörnumerktar vörur fékk ég að gjöf

Ein algengasta spurning sem spurð er hvað vegan snyrtivörur varðar, eru um maskara. Ég var sjálf farin að fá slíkar spurningar og var hreinlega ekki viss hverju ég ætti að svara. Mér fannst ég ekki enn hafa fundið hinn “eina sanna” vegan maskara og ákvað því að vinda mér í það verkefni að prófa það sem í boði er á Íslandi og bera þá saman. Hér að neðan eru vissulega ekki allir vegan maskarar sem fást á Íslandi, en þetta er þó stór hluti af úrvalinu.

1. Lavera deep darkness*

Grófur bursti sem gerir að verkum að það þarf að vanda sig við ásetningu, undirrituð er mikill klaufi og því fór maskari á stóran part augnloks í leiðinni. Maskarinn er lífrænn og hentar líklegast viðkvæmum augum vel, og gefur mjög náttúrulega og létta áferð. Liturinn er frekar daufur og hentar því aðallega í náttúrulega förðun. Fæst í Hagkaup og Heilsuhúsinu.

2. Lavera Front row curl

Eins og nafnið gefur til kynna þá krullar þessi og lyftir augnhárunum vel. Hann er samt sem áður tiltölulega náttúrulegur en verður þó mjög flottur. Hentar vel dagsdaglega en undirrituð varð vör við örlítið smit. Smitið var þó svo agnarlítið að það truflaði ekki. Mun grípa mikið í þennan. Fæst í Hagkaup og Heilsuhúsinu.

3. ILIA Beauty*

Maskara greiðan er gerð úr gúmmí bursta og er einstaklega þægileg í notkun. Ég var með maskarann í brúnum lit sem heitir shadow of a doubt og kom það mér á óvart hversu litsterkur hann var. Það fæst náttúruleg en falleg umgjörð á augnhárin. Góður maskari í náttúrulega- og hversdagsförðun. Fæst á nola.is

4. Wet’n Wild mega volume

Greiðir vel, lengir ekkert gríðarlega en góð þykking rótina. Helst vel yfir daginn, ekkert smit þrátt fyrir að hafa æft með hann. Þarf að vanda sig aðeins til að hann klessi ekki augnhárin. Þessi hentar eflaust vel þeim sem eiga í vandræðum með smit en aftur á móti gæti hann verið til vandræða fyrir viðkvæm augu, en undirrituð fann fyrir smávegis eymslum í augnlokum í lok dags. Fæst á shine.is

5. Benecos natural mascara vegan volume*

Þetta er vinsælasti Benecos maskarinn og kom hann vel á óvart. Formúlan er frekar dökk og er auðvelt að byggja maskarann upp. Það þarf að fara aðeins varlega með burstann til að ekki myndist klessur, ég setti því frekar lítið í einu og endaði með mjög flott augnhár. Þykkir mest af þeim möskurum sem ég prófaði og gefur einnig lengingu. Frábær maskari fyrir áberandi augnförðun. Fæst í hinum ýmsum apótekum svo sem Lyfju og Apótekaranum, Heilsuhúsinu, og Fjarðarkaup.

6. Body shop Lash hero*

Léttur og náttúrulegur en krullar og lyftir vel. Gefur mjög fallega en náttúrulega umgjörð. Góður í hversdagsförðun. Undirrituð var vör við örlítið smit, nægilega lítið til að trufla ekki en gæti verið til vandkvæða hjá þeim sem þurfa vatnshelda maskara. The Body shop er í Smáralind, Kringlunni og á Glerártorgi.

7. Inika Long lash

Þessi maskari gerir allt sem ég vil fá út úr maskara. Formúlan er mjög svört sem gefur dramatíska augnumgjörð en auk þess lengir hann, þykkir aðeins og greiðir vel. Hentar vel til að gera fallega dökk og löng augnhár. Fæst í Lyf og heilsu Kringlunni og Glerártorgi, Hagkaup í skeifunni, Lyfju Smáratorgi, Laugavegi og Lágmúla ásamt Íslandsapóteki.

8. Gosh volume serum mascara

Greiðan er gerð úr flötum gúmmí bursta með mjög stuttum greiðum. Á annarri hliðinni er aðeins meira bil á milli “háranna” og mæli ég frekar með að nota þéttari hliðina. Formúlan er mjög þunn og á að vera í lagi að nota þennan maskara með augnháralengingum. Vegna þess hversu þunn formúlan er, þarf að fara afskaplega varlega við ásetningu og nota lítið í einu af vörunni. Það klessist mjög auðveldlega ef sett er mikið á greiðuna eða of mikið sett í rótina. Maskarinn greiðir vel en þykkir ekki og lyftir augnhárunum ekki mikið, þessi hentaði mér persónulega ekki vel. Fæst í Hagkaup og Lyf og heilsu í Kringlunni.

 

Þessi samanburður varð erfiðari en ég bjóst við! Það voru nokkrir flottir maskarar sem erfitt er að velja á milli, en þó nokkrir sem ég veit að verða síður notaðir aftur.

Dags daglega verða maskararnir Body shop lash hero, Lavera front row curl og Ilia beauty mest notaðir en mér þótti þeir allir afar fallegir og góðir.

Þegar ég er að leitast eftir meira áberandi og djarfari augnhárum, þá eru hands down Inika long lash og Benecos natural vegan volume í uppáhaldi. Ég hreinlega get ekki valið á milli því þeir gefa sitthvora augnumgjörðina – sitthvort lookið. Benecos maskarinn gefur þykk, löng og ýkt augnhár. Ég fíla það í botn. Inika long lash á hinn mátann gefur dramatísk svört og löng augnhár en þar sem þau verða ekki jafn þétt þá minna þau meira á “cat eye look” sem hentar mínum litlu, möndlulaga augum mjög vel. Svolítið eins og augnhár sem eru breiðust endana. Ég vona að þið áttið ykkur á því hvað ég meina.

Þetta reyndist virkilega skemmtilegt verkefni og ég hef sjaldan verið máluð svo marga daga í röð!

Ég vona að þessi færsla komi að góðum notum og auðveldi ykkur leitina að maskaranum sem hentar ykkur. Þið getið fylgst með mér á instagram: amandasophy

Þar til næst 🙂

Author Profile

Amanda

Amanda er vegan stelpa sem starfar sem lyfjafræðingur og elskar að borða góðan mat. Áhugamál eru eldamennska, hreyfing, heimilið, sanngjörn tíska (fyrir dýr og menn), umhverfisvernd og ýmislegt tengt lífsstíl.


Facebook Comments