Utanlandsferð með lítið kríli – Góð ráð!

Eins og einhverjir vita þá fórum við fjölskyldan í smá frí til Tenerife í byrjun mars, en þetta var í annað skiptið sem við ferðuðumst með Fannar milli landa. Ég var ótrúlega vel undirbúin fyrir þessa ferð þar sem að ég var í góðri æfingu frá því í fyrra og vissi nokkurnvegin hvað best væri að hafa meðferðist fyrir hann, bæði til að hafa úti sem og í fluginu sjálfu.

Mig langar til að deila nokkrum góðum ráðum og lista yfir hvað gott er að huga að og hafa með þegar maður ferðast með lítið barn milli landa (og þá líka sérstaklega sólarlanda)

 

Nokkur tips fyrir flugið:

– Reyna að halda barninu vakandi þar til í eða eftir flugtak svo það geti sofið í góðan tíma í vélinni.

– Bjóða barninu að drekka í flugtaki og lendingu en það minnkar áhættuna á hellu (snuð reynast líka vel)

– Gefa barninu stíl rétt fyrir flug. Fékk þessi ráð hjá barnalækni í fyrra, en hann sagði að oft væru þetta ekki hellur sem pirra börn í flugtaki og lendingu heldur vindverkir og virkar stílinn á það.

– Vera með nýtt dót sem barnið getur dundað sér með í vélinni.

– Taka nóg að mat, drykk og nasli.

– Gera ráð fyrir að það sé ekki afþreyingarkerfi í flugvélinni og taka með spjaldtölvu með barnaefni/öppum (ef barnið er vant því)

– Vera með aukaföt á barnið og þig ef barnið skyldi kasta upp eða hella niður.

20170308_103304

Matar og drykkgjar tips:

– Skvísur og nasl (sérstaklega ef barnið er matvant og vill bara ákveðinn mat) – Ég tók slatta með en hefði mögulega átt að taka með meira því að það var ekki mikið til af skvísum í súpermörkuðunum þar sem ég var og þegar ég sá þær þá voru þær alveg rándýrar (helmingi dýrari en hér heima)

– Saltkex/Saltstangir, gott er að bjóða barninu saltkex eða saltstangir endrum og eins þar sem að saltið bindur vatnið í líkamanum og kemur í veg fyrir að barnið þorni.

– Cheerios – Gula cheeriosið fæst ekki á Spáni þannig að það er gott að hafa vel af því meðferðis.

– Þurrmjólk/stoðmjólk, ef barnið fær þannig mjólk þá myndi ég klárlega taka nóg með. Fannar drekkur orðið bara nýmjólk hérna heima þannig að ég var ekkert að burðast með það út og keypti bara eitthvað sem svipaði til hennar úti.

 

Listi yfir hvað gott er að hafa meðferðis:

Fatnaður:

– Samfellur, nóg af þeim – ég notaði þær lang mest. Gott að hafa bæði með ermalausar/stutterma og langerma.

– Sólhattur – Ég mæli með að hafa með sólhatt sem er hnýttur undir hökuna og nær vel niður hálsinn og skýlir þ.a.l. höfðinu og hálsinum vel.

– Sokkbuxur, gott að nota þær á kvöldin

– Stuttbuxur

– Náttföt, gott að hafa þau með. Við notuðum náttgallann bara eina nótt, annars svaf hann bara í samfellu og með teppi.

– Sandala – var með góða Ecco sandala sem voru hálf lokarði í tána og bara æðislegir fyrir lítinn stubb. Ég hefði viljað vera með sundskó, en ég fann enga þannig í hans stærð úti.

– Gollu eða létta yfirhöfn til að nota á kvöldin, ég notaði samt golluna bara einu sinni á tveggja vikna tímabili.

– Sundföt með sólarvörn, mér finnst heilgallar algjör snilld en ég fann engan nógu góðan á Fannar þannig að ég keypti bara langerma sundpeysu og nýttist hún mjög vel.

– Sokka – notaði þá ekki mikið

20170319_093722

Aukahlutir:

– Snuddur

– Snudduband er alveg nauðsyn fannst mér, en þá losnaði maður við að vera alltaf að þrífa snuddurnar

– Tannbursta

– Tannkrem

– Greiðu/hárbursta

– Hitamæli

– Naglaklippur

– Bossakrem eða græðandi krem

– Algjör nauðsyn að hafa stíla, saltlausn, nefsugu o.þ.h. meðferðis. Í fyrra uðrum við öll veik þegar við vorum úti og Fannar fékk 39 stiga hita, þá komu stílarnir sér vel.

– Sólarvörn – sniðugt er að vera búin að prufa vöruna á barninu áður en þið farið út því það þola ekki öll börn allar sólarvarnir. Ég mæli með Proderm eða Eucerin – þær henta okkur allavegana vel.

– Stútkönnu, pela eða önnur drykkjarglös sem barnið er vant. Það er mjög mikilvægt fyrir börn að drekka vel þegar þau eru í hita og vorum við alltaf með brúsa og stútkönnu fyrir Fannar í kerrunni, en hann drakk alveg tvöfalt ef ekki þrefalt meira úti en hann gerir hér heima.

20170321_125108

Annað:

– Gott er að hafa teppi með, ég var bæði með bómullar og prjónað teppi og var með bómullarteppið í kerrunni og hitt notaði ég á nóttunni fyrir hann.

– Bangsa eða kúrudýr sem barnið er vant að hafa með, ég tók Nínu (kanínuna hans Fannars) með í handfarangur svo hann gæti sofið með hana í vélinni.

– Smekk með ermum, fannst voða gott að hafa þannig með þegar maður fór út að borða á veitingastaði

– Bleiur – allavegana fyrir fyrstu dagana.

– Blautþurrkur – ég tók Waterwipes með því ég þoli ekki blautþurrkur sem eru með kremi í og ilmefnum.

– Smá þvottaefni – gott er að geta skolað út skítugum samfellum í vaskinum og hengt til þerris í sólinni.

– Kúta, við keyptum reyndar bara góðan kút úti. Við notuðum hann ekki mikið, en samt gott að hafa hann.

– Kerru eða burðarpoka til að hafa á flugvellinum. Við eigum Quinny Zapp kerru sem er einstaklega þægileg á ferðalögum þar sem að maður getur haft hana með í handfarangri. Við leigðum svo aðra stærri kerru úti (Quinny var bara notuð á flugvellinum 😉 )

Snapchat-1963267802

Mæli með á Tenerife:

– Ég mæli svo 100% með að leigja kerru og aðrar barnavörur í gegnum Hire 4 Baby Tenerife. Við fundum þessa síðu í fyrra, en á henni getur maður leigt ýmsar barnavörur s.s. kerrur, bílstóla, rúm, jumparoo og margt fleira. Við leigðum hjá þeim í fyrra Baby Jogger City Elite kerru og okkur fannst þjónustan þar vera til fyrirmyndar. Þannig að í ár leigðum við aftur samskonar kerru sem og Maxi Cosi Pearl bílstól með base. Í fyrra hittu þau okkur með kerruna á hótelinu og stóðst allt sem um var samið, sem og núna, en í ár þá biðu þau eftir okkur út á flugvelli með kerruna og stólinn.

– Jungle park er rosalega flottur dýragarður. Við fórum einn daginn þangað, en fórum frekar seint til að deginum þar sem að Fannar vaknaði seint úr lúrnum sínum. Mæli með að reyna að fara fyrir hádegið svo maður geti náð öllum sýningunum o.þ.h.

– Costa Adeje, er frábært staður fyrir fjölskyldufólk. Mér fannst vera talsvert hreinna og mun rólegra þar heldur en á Amerísku ströndinni.

– Vera á íbúðarhóteli, ekkert smá þægilegt að vera með eldhús og auka herbergi þegar maður er með einn lítinn gorm.

Vonandi hjálpar þetta ykkur eitthvað þegar þið eruð að plana ferðalagið ykkar <3

Góða ferð!

HildurHlín

Author Profile

Hildur Hlín

Hildur Hlín er 35 ára móðir í Reykjanesbæ. Hún er margmiðlunarhönnuður og naglafræðingur og hefur brennandi áhuga á hönnun, handverki, nöglum, tísku og lífsstíl sem og móðurhlutverkinu og öllu sem því tengist. Hún á einn dekurmola, hann Fannar Mána sem er fæddur í október 2015.


Facebook Comments

Share:

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *