Uppskrift – Hind og bláberjasulta að hætti mömmu

Ég sá í fréttunum í gær eða fyrradag að nú yrði hver að verða seinastur að kíkja í berjamó. Veturinn nálgast óðfluga og þegar næturfrostið mætir skemmast berin.
Ég er svo heppin að eiga eina svona ofurmömmu. Hún hefur alltaf verið þvílíkt dugleg að baka, elda og föndra og er bara þó ég segi sjálf frá frekar mögnuð í því öllu (sem er ef þú spyrð mig bara frekar ósanngjarnt þar sem ég t.d er arfa slakur bakari og tekst að brenna 90% af því sem ég elda, Tryggvi er vitni. Þetta er skelfilegt).

Mig langar að deila með ykkur uppskrift að gúmmelaðinu sem hún er búin að vera að gera núna. Hún hefur sem sagt verið að fara í berjamó og tína bláber til að gera hind- og bláberjasultu (ég held akkúrat að þegar ég klára að skrifa þessa færslu ætli hún að rífa mig og börnin með sér í berjamó, en það er allt í lagi. Hólmgeir verður bara berjablár í framan, Hulda María Hólm sefur bara og ég get étið á mig gat af krækiberjum).

instasquare_201692144720875.jpg

Það sem þú þarft til að gera þessa hind- og bláberjasultu er;
– Krukkur, mamma pantaði sínar úr The Pier (fást hér)
– 1,5kg af bláberjum
– 1kg af hindberjum (þar sem mamma á ekki ennþá hindberjarunna þurfti hún að kaupa frosin hindber)
– 1,8kg af sykri
– 3 bréf af bláu melatíni (Það fer eftir því hversu stíft þú vilt hafa þetta, mamma vildi gera svona hlaup/sultu svo hún notaði 1 bréf á kíló, ef þú vilt hafa þetta meira eins og sultu myndirðu nota bara hálft bréf á kíló)

Svona gerirðu sultuna;
Setur berin og sykurinn í pott og sýður þau í ca 15 mínútur (þar til sykurinn er bráðnaður)
Setur melatín í skál og fyrir hvert bréf af melatíni blandaði hún 2 skeiðum af sykri.
Því er stráð yfir pottinn og hrært saman við.
Öllu er svo leyft að sjóða í 5-10 mínútur í viðbót og hellt svo beint á krukkur.

Þetta er ekkert smá auðvelt að gera og tekur bara um hálftíma. Þessa sultu væri svo tilvalið að nota til dæmis með pönnukökum eða vöfflum á einhverjum dýrðar sunnudegi! Fyrir utan það náttúrulega hvað það er hollt og gott fyrir alla fjölskylduna að eiga smá samverustund í berjamó 🙂

Þangað til næst!

undirskrift

 

Author Profile

Ingibjörg Eyfjörð

Ingibjörg Eyfjörð er búsett í Mývatnssveit ásamt fjölskyldu sinni. Hún hefur óbilandi áhuga á heimilinu (nema þrifum, hún er með bráðaofnæmi fyrir þeim), förðun og öllu sem er aðeins út fyrir kassann. Skrif hennar einkennast af hreinskilni, kímnigáfu og harkalegum staðreyndum um hið daglega líf.


Facebook Comments

Share:

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *