Uppáhalds uppskriftirnar

Uppáhalds uppskriftirnar

Oftast er maturinn minn einhversskonar samhendingur af því sem til er í ísskápnum og ég plana sjaldan fram í tíman hvað ég ætli að elda. Ég veit hinsvegar ca. hvað passar saman og reyni oftast að eiga ákveðin hráefni til. Þegar ég elda mér mat miða ég við að ég sé með baunir, tofu eða soyakjöt sem aðal prótein uppsprettu, svo quinoa, sæta kartöflu, hrísgrjón eða pasta sem aðal kolvetna uppsprettu og á endanum auka grænmeti með. Mér finnst voðalega gott að búa til kássur eða að hafa sósu og nota ýmist við brúna sósu, pestó, pastasósu, heimagerða tómatsósu, hummus, hnetusmjörssósu, vegan rjóma-ostasósu eða bara lime safa (lime safi, hvítlaukur og baunir eru himnesk þrenna!).

Myndin að ofan sýnir einn af mínum týpísku samhendingum sem inniheldur nýrnabaunir og hvítlauk sem fengu að malla í smávegis heimagerðri tómatsósu en spínati var bætt við í lokinn þar til örlítið visnað og þetta borið fram með blöndu af quinoa- og hýðisgrjónum (gott trikk ef þið eruð æst í hrísgrjón eins og ég en viljið gera það aðeins næringarríkara).

Stundum langar mig þó aðeins að plana mig fram í tímann, langar í eitthvað sérstakt eða finnst ég vera hugmyndasnauð (hver kannast ekki við að eiga “ekkert” til í ísskápnum, en á samt ýmislegt til?). Ég ákvað að setja saman lista yfir uppskriftir sem eru í uppáhaldi hjá mér, en þegar mig langar að fara eftir slíkri verður ein af þessum oft fyrir valinu. Flestar hef ég prófað þó nokkrum sinnum og finnst þær aldrei klikka.

Ath. myndirnar tilheyra þeim uppskriftahöfundi sem linkað er á hverju sinni.

Hnetusmjörsnúðlur

Ég er verulega hrifin af hnetusmjörssósunni í þessari núðlu uppskrift frá Veganistum, en það er misjafnt hvaða grænmeti ég nota í réttinn hverju sinni. Hann er einnig góður með soyakjöti eða baunum (t.d. kjúklinga baunum eða edamame). Ég var að elda réttinn um daginn þar sem ég notaði edamame baunir í staðin fyrir tofu (þetta var svona “klára úr frystinum” dagur) og notaði ég 1 mtsk af Tahini á móti 3 mtsk af hnetusmjöri til að fá smá auka járn og kalk í sósuna. Það kom ótrúlega vel út!

Pestó kjúklingabaunir

Pestó kjúklingabaunir klikka ekki, mér finnst rétturinn alltaf góður og sérstaklega til að deila með mér. Ég hef farið með þennan rétt í nokkur pálínuboð og hann slær alltaf í gegn, svo er bara ótrúlega einfalt að græja hann.

Hafraklattar

Þetta er ekki beint réttur sem ég myndi græja mér í hádegis- eða kvöldmat, en ég verð að hafa uppskriftina með afþví ég hef leitað svo ótrúlega oft í hana. Það er snilld að eiga svona klatta í millimál, sérstaklega ef dagarnir eru langir og lítinn tími til að næra sig.

Vegan grýta

Veganistur hafa gert marga góða rétti, þær eru algjörir snillingar og skoða ég því oft síðuna þeirra þegar mig vantar innblástur. Þessa grýtu geri ég reglulega en hún er svo ótrúlega góð, og það er svo þægilegt að láta allt malla saman í einum potti (kartöflumús með er líka mjööög gott).

Quinoa- og svartbauna chilli

Annar fljótlegur og þægilegur réttur sem getur mallað saman í einum potti/stórri pönnu. Quinoa- og svartbauna chilli er gott með quacamole, oatly sýrðum rjóma og salati!

Grænn djús

Ég fæ mér nú ekki safa í staðin fyrir heita máltíð en þessi græni djús hjá FitbySigrun er ótrúlega ferskur og góður, svo ég geri hann reglulega. Ég er líka ekki frá því að hann hjálpi mér að halda bjúg í skefjum þegar þannig stendur á.

Karrý hrísgrjón

Mér finnst snilld að útbúa svona karrý hrísgrjón með kjúklingabaunum, og hafa svo auka tofu með til hliðar. Rúsínurnar gefa réttinum skemmtilegt bragð, ekki afskrifa þær strax!

Mac and “cheese”

Ótrúlegt en satt, þá hafði ég aldrei prófað makkarónur í ostasósu áður en ég varð vegan. Ég fékk áhuga á réttinum þegar ég var að leita hugmynda á pinterest, og hef ég prófað nokkrar útgáfur síðan þá. Þessi uppskrift er í mesta uppáhaldinu hjá mér.

Papriku- og furuhnetu hummus

Grilluð paprika og ristaðar furuhnetur eru svo ótrúlega gott combo í hummus, ég mæli virkilega með að prófa þennan hummus frá Sunnu hjá justsomeveganstuff.

Linsubaunasúpa

Ég hálfmauka súpuna, nota oftast það grænmeti sem til er (mæli samt klárlega með grænkáli!) og set ég yfirleitt líka hálfa dós af kókosmjólk út í. Mér finnst mjög gott að hafa hana svolíti þykka, eiginlega meira eins og dahl og bera hana fram með hrísgrjónum og fersku salati.

Fljótleg blómkálssúpa

Ég fékk nett súpu æði á meðgöngunni, ég var sjaldan fyrir það að fá mér súpur en núna eru þær í miklu uppáhaldi, sérstaklega tómatssúpur (ég tók næstum grátkast þegar Rabbarbarinn hætti) og blómkálssúpur. Uppskriftin hennar Lindu Ben er ótrúlega fljótleg og góð.

Prótein vöfflur

Ég geri þessar prótein vöfflur kannski ekkert sérstaklega oft (aðalega afþví ég er oft svo svöng á morgnana að ég nenni ekki að bíða og fæ mér hafragraut), en finnst samt mjög gott að nýta mér þessa uppskrift þegar ég er í þannig stuði þar sem hún er bæði holl og mjög góð.

 Mér finnst ótrúlega gott að taka smá rispu af og til og skoða uppskriftir eða fara yfir þær sem hafa reynst mér vel þegar ég er orðin leið á því að elda það sama. Vonandi gaf þetta blogg einhverjum innblástur og mögulega hugmynd um hvað eigi að hafa í hádegis/kvöldmatinn. Þið getið fylgst með mínum samhendingi á instagram en ég set það sem ég borða reglulega í story. Þar til næst!

Author Profile

Amanda

Amanda er vegan stelpa sem starfar sem lyfjafræðingur og elskar að borða góðan mat. Áhugamál eru eldamennska, hreyfing, heimilið, sanngjörn tíska (fyrir dýr og menn), umhverfisvernd og ýmislegt tengt lífsstíl.


Facebook Comments

Share: