Uppáhalds ungbarnavörurnar

Uppáhalds ungbarnavörurnar

Ég ákvað að taka saman topp tíu lista (já ég er hrifin af Top 10) yfir mína uppáhalds hluti þegar kemur að nýfæddum krílum, vona að verðandi mæður og nýbakaðar geti haft gaman að.

 

 

Ungbarnahreiður – Þegar krílin eru svona ponsulítil þá sofna þau hvar sem er hvenær sem er. Þá er gott að geta lagt þau frá sér á öruggan stað. Meðan þau hreyfa sig lítið sem ekkert er voða gott að geta smellt þeim bara í ungbarnahreiðrið. Einnig má setja ungbarnahreiðrið ofan í vögguna eða rimlarúmið en fyrst um sinn virðist unginn litli alveg týnast í rúminu. Ég notaði mitt hreiður óspart en mig langar að mæla með Ungbarnahreiðrum frá Kúrulúr en mér finnst þau virkilega vönduð, stílhrein og falleg.

Kerra.jpg

 

Góð og einföld kerra – Ég gafst fljótlega upp á því að vera að drösla flennistóra barnavagninum í skottið á bílnum ef ég ætlaði að skreppa í Kringluna. Þar sem ég gerði þau mistök að vera með allt of þungan barnabílstól (mæli með að hugsa út í þyngd við kaup á þeim!) sem ég forðast í lengstu lög að drösla um, þá fannst mér snilldarlausn að fjárfesta í einni léttri kerru sem er einfalt að smella sundur og saman, einnig vildi ég ekki hafa hana mjög fyrirferðarmikla. Silver Cross Reflex varð fyrir valinu.

Screen Shot 2017-10-03 at 21.13.05

Fatamerkimiðar – Mínir eru frá Navnelapper en ég mæli með því að panta sér þessa bara strax í lok meðgöngunnar þegar farið er í hvers kyns fatamöndl. Ég mæli einnig með því að ef vandamenn flykkjast að með fatakassa til láns að þú merkir allt strax. Þegar fötin eru hætt að passa og þú ætlar að skila hverjum og einum sínum flíkum þá getur orðið heljarinnar höfuðverkur að muna hver lánaði þér hvað. Framvegis ef þú svo lánar föt af þínu barni áfram getur þú verið viss um að allt skili sér til baka ef þú ert með allt þitt merkt.

Screen Shot 2017-10-03 at 00.17.40

Babybreeza – Þar sem ég gerðist ekki svo lánsöm að geta haft son minn á brjósti þurfti ég að standa í pelastússi. Ég ætla ekki að segja að maður komist ekki af án þessarar vélar en pelastússið verður bara svo mikið einfaldara. Þetta virkar bara svolítið eins og kaffivél en þú setur vatn og duft í til þess gerð hólf og voila, vélin bara bunar þessu í pelann við rétt hitastig. Seinna meir er svo hægt að nota hana einnig til þess að blanda graut. Allar nánari upplýsingar um græjuna má finna hér.

Klemmuórói – Þessi fer með okkur hvert sem er. Hann flakkar ýmist milli vöggunnar, bílstólsins, vagnsins nú eða bara sem aukaleikmunur á leikteppið. Bleiki bangsinn getur flautað og í þeim bláa skrjáfar (sem kemur sér vel á biðstofum og í röðinni á pósthúsinu þegar barnið fer að ókyrrast). Spiladósin spilar svo lag og hringurinn á henni er vinsælt nagdót hjá syni mínum líka. Þessi tiltekni órói fæst í Fífunni en þar eru klemmuóróar í miklu úrvali.

Leikteppi – Þessi eru alltaf klassísk og vinsæl en þarna eiga merkilegar snúningsuppgötvanir sér stað ásamt spörkum og handahreyfingum. Leikteppi sem þessi má finna öllum stærðum, litum og gerðum hjá Húsgagnaheimilinu í Grafarvogi.

Skiptitaskan – Þessi taska er æði og er af Ali Express og fylgir mér flesta daga. Ef ég væri týpan sem gengi um með tösku dags daglega kæmist ég eflaust af með bleyjur og pela í töskunni. En ég er aldrei með tösku og þess vegna fylgir þessi mér flesta daga, tala nú ekki um þegar við höfum ferðast um, þá finnst mér ég ekki geta verið án hennar. Ef þú ert að velta fyrir þér hvað sé best að hafa í skiptitöskunni mæli ég með því að þú kíkir á færsluna hennar Ásdísar um skiptitöskuna hér.

Ömmustóll

Ömmustóllinn – Ég er nú “bara” með þennan klassíska ömmustól sem er eins og þeir sem notaðir voru þegar ég var lítil. Hann titrar ekki né syngur og er ekki með neinum hringlum og hristum á en hann er rosa góður og dúar vel, sonur minn var ekki nema 3 mánaða þegar hann var búinn að fatta hvernig hann gæti sparkað með öðrum fætinum út í loftið og þannig ruggað sér sjálfur. Þessi er mikið notaður á heimilinu, ýmist þegar við foreldrarnir erum að bardúsa eitthvað en líka meðan við borðum eða eldum og þá fær litli maður að vera með í stólnum sínum.

Barnapíutæki

Barnapíutæki – Þetta finnst mér mjög nauðsynlegt en sonur minn sefur úti í vagni og þar fyrir utan þá bý ég í húsi á 3 hæðum og ekki möguleiki að ég heyri orgin í honum af þeirri þriðju niður á þá fyrstu. Tækið mitt heitir Neonite og fæst í Fífu en það er mjög næmt, segir mér hvert hitastigið er. Hægt er að stilla foreldraeininguna á titring og rafhlaðan endist vel. Það fylgir því einnig hálsband og er hægt að hafa það hangandi um hálsinn (sem er ægilegt sport að fá að gera þegar maður er 5 ára stóri bróðir).

Brjóstapúði

Brjóstagjafarpúði – Doomo púðinn úr Fífu finnst mér langbestur í viðkomu en áklæðið er dúnmjúkt og fyllingin er þétt og hann er ekki of linur. Þessi bjargaði mér á meðgöngunni en ég mæli hiklaust með því að festa kaup á einum svona ef þú ert farin að ókyrrast í rúminu á nóttunni en það er mjög gott fyrir bakið (ef þú ert með grindargliðnun) að sofa með þennan milli fótanna. Minn er af stærri gerðinni en mér fannst hann full stór og held ég myndi mæla frekar með þeirri minni.

 

Þangað til næst <3

selmaa

Author Profile

Selma

Selma er 27 ára móðir frá Húsavík. Búsett í Reykjavík ásamt syni sínum Val Frey (2017). Hún er með Ba. próf í almennum málvísindum og leggur nú frekari stund á nám í íslensku við Háskóla Íslands. Áhuginn liggur í flestu tengdu Íslandi og íslensku en einnig öllu sem viðkemur móðurhlutverkinu, heimilinu, lífsstíl, þrifum, skipulagi og svo mörgu öðru.


Facebook Comments