Umhverfisvænni jól

Umhverfisvænni jól

Þankagangur minn um daginn endaði í færslu sem heitir Þegar ritstífla leiðir til hreinskilni og fékk hún töluvert meira af jákvæðum viðbrögðum en ég bjóst við. Ég vil þakka kærlega fyrir fallegu orðin og fyrir að deila færslunni minni, það gladdi hjartað mitt innilega.

Ég nefndi í lok færslunnar að ég ætlaði að reyna að einbeita mér að því sem ég gæti gert varðandi mína eigin neysluhætti því það er jú það fyrsta sem maður ætti að byrja á.

Ég pinterestaði umhverfisvæn jól eins og ég sagðist ætla að gera en ég fylgdist einnig sérstaklega með þessari instagram síðu, þau setja skemmtilegar og fallegar myndir en eru einnig með hugmyndir daglega í story. Mig langaði því að segja frá nokkrum hugmyndum og leiðum til þess að eiga umhverfisvænni og skaðminni jól sem ég ætla að tileinka mér, og vona ég að færslan veiti ykkur innblástur.

Hugmyndir að gjöfum

Það eru ótrúlega margar leiðir sem hægt er að fara hér og verður hver og einn að velja hvað hentar sér.

  • Upplifun: Það er að verða sí vinsælla að gefa upplifun í staðin fyrir hluti, t.d. með því að bjóða einhverjum á viðburð svo sem leikhús eða bíó, út að borða, í matarboð, tónleika eða slíkt. Þetta gæti hentað þeim sem aðhyllast ruslminni (zero waste) lífsstíl vel, svo og minimalískan lífsstíl.
  • Second hand/notaðar gjafir: Mér fannst flott umræða á facebook síðu Barnaloppunnar um daginn en þar var spurt hvort fólk finnist í lagi að börnin sín eða þau fengju notaðar gjafir og þótti flestum það í góðu lagi ef varan var í góðu ásigkomulagi. Mér finnst það persónulega æðislegt, það er svo mikið til af fötum og dóti í heiminum, það þarf ekki alltaf að gefa nýtt.
  • Sannar gjafir: Hægt er að gefa sannar gjafir í gegnum UNICEF en þú færð gjafabréf fyrir vörunni sem þú keyptir, en hún fer svo á þann stað þar sem þörf er á innan starfsemi UNICEF. Hægt er að skrifa persónuleg skilaboð á gjafabréfið ef gefa á það áfram. Dæmi um slíkar gjafir sem mikil þörf er á núna um allan heim eru hlý vetrarföt, hlý teppi og vatnshreinsitöflur.
  • Gjafir tengdum góðgerðafélögum: Hægt að gefa áþreifanlegar vörur sem styrkja góðgerðafélög í leiðinni, sem dæmi eru þessir taupokar og fokk ofbeldi húfan flottar gjafir sem styrkja UN Women. Krabbameinsfélagið er með mikið úrval af flottri gjafavöru, Sólheimar eru með sætar handgerðar gjafir og 4ocean selja armbönd búin til úr rusli sem týnt er úr sjónum (sala armbandanna styrkir starf félagsins í týna rusl úr sjónum).
  • Heimagerðar gjafir: Það er ótrúlega margt hægt að búa til en heimagerðar gjafir geta verið mjög fallegar og persónulegar. Ég pinterestaði heimagerðar gjafir og koma þá upp m.a. uppskriftir af kremum, sykurskrúbbum og varasölvum sem mér finnst algjör snilld í fallegar krukkur. Ef þið eruð kunnug í sápugerð eða kertagerð þá er það virkilega sniðugt. Matvara er einnig alltaf vinsæl, til dæmis heimagert konfekt, karamellur, sultur, smákökur og svo lengi má telja. Krukka með uppskrift og þurrvörum fyrir bakkelsi er einnig gífurlega sæt hugmynd. Endilega látið hugann reika!

 

  • Umhverfisvænar gjafir: Það er töluvert úrval af flottum vörum á vefsíðum eins og hjá Vistveru, Mistur og Menu sem sem eru bæði praktískar og sætar. Þar má nefna bambustannbursta, fjölnota nestispoka, nestisbox úr áli, ýmsar handgerðar sápur, minni heimilisvörur úr náttúrulegum trefjum, falleg stálrör, ýmisskonar vatnsbrúsar, viðarleikföng og fleira. Ég myndi persónulega vera mjög glöð með lítinn „zero waste“ pakka

  • Ef staðan er sú að þig langar mjög mikið að gefa ástvini þínum eitthvað sem ekki fellur undir ofangreint, t.d. flík sem er ekki notuð, þá mæli ég mikið með að skoða fyrirtækið sem þú hyggst versla við og sjá hvort eitthvað bendir til þess að það styðji sanngjörn vinnuskilyrði fyrir starfsmenn sína í framleiðslu vörunnar. Finna má ýmsa lista á blogginu sem gefa dæmi um fatamerki sem eru sanngjörn, t.d. hér, hér, hér, hér, og  hér. Mörg þessara fyrirtækja eiga það einnig sameiginlegt að selja flíkur úr umhverfisvænni efnum.

Umhverfisvænni gjafapakkningar

Ég skoðaði sérstaklega hugmyndir varðandi gjafa innpökkun en ég ætla mér að nýta gömul dagblöð sem ég fékk t.d. úr vinnunni þar sem ég afþakka allan fjölpóst til mín. Margir endurnýta gjafa poka og aðrar gjafa umbúðir, snæri og borða sem fengist hafa í gegnum árið sem er einnig mjög sniðugt.

Mér finnst sjúklega sætt að gefa t.d. litla fjölnota poka og nota sem umbúðir utan um litla gjöf (ég nota slíkt mikið þegar ég er að versla grænmeti og ávexti en líka undir baunir og fræ eftir vigt í Matarbúri Kaju). Þessir fjölnota taupokar fást hjá Krabbameinsfélaginu eru virkilega sætir og eflaust mjög þægilegir í verslunarferðum. Ef þú ert ekki með tíu þumalfingur eins og ég og kannt að sauma væri sterkur leikur að sauma eigin poka, það er eflaust hægt að gera þá mjög sæta og persónulega. Ef þú átt afgangs gardínuefni eða annan textíl (jafnvel gamla boli) sem situr inni í skáp og safnar ryki þá er um að gera að nýta sér slíkt!

Einnig er hægt að gefa falleg viskastykki eða Tyrknesk handklæði og nota það sem umbúðir fyrir minni gjöf, ekki verra ef það er úr hör, lífrænni bómull eða öðrum náttúrulegum trefjum, eða jafnvel keypt notað/second hand. Dæmi um verslanir þar sem Tyrknesk handklæði fást er meðal annars í Dimm og Mena.

Dæmi um hvar lífræn viskastykki fást er t.d. frá Södahl í Bast í kringlunni, hjá Mena, Klaran.is, hjá Krabbameinsfélaginu og í Kokku.

Ég keypti gróf snæri til þess að binda pakkana saman og ætla ég einnig að þurrka appelsínu sneiðar og Eucalyptus greinar til þess að skreyta pakkana með. Hugmyndina að þurrkuðu appelsínu sneiðunum fékk ég hér.

Plöntumiðaður hátíðarmatur

Gífurleg matarsóun á sér stað á þessum tíma árs og vil ég því hvetja einstaklinga til þess að reyna að nýta alla afganga vel og plana innkaup sín.

Eitt af því sem hryggði mig og mér þótti verulega yfirþyrmandi þegar ég skrifaði pistilinn minn, var að hugsa til þess að á hátíð ljóss og friðar má finna dána einstaklinga á diskum flestra heimila. Með því að hafa plöntumiðaðan mat um hátíðirnar er verið að velja kærleika út í gegn, en einnig umhverfisvænni kostinn. Sýnt hefur verið að með því að vera á plöntumiðuðu fæði er kolefnislosun allt að helmingi minni en þegar neytt er dýraafurða.

Dæmi um plöntumiðaðan hátíðarmat er ýmsar tegundir af grænmetis wellington (ég bjó til pekanhnetu, sætkartöflu og sveppa wellington í fyrra), innbakað oumph, hnetusteik, rjómapasta (gæti hljómað furðulegt fyrir sumum en mér finnst það mjög hátíðlegt) en hægt er að plöntuvæða flest allt meðlæti sem við erum vön að hafa. Vegan laufabrauð má finna í t.d. Krónunni, Hagkaup og Fjarðarkaup, hér er æðisleg uppskrift af vegan sveppasósu en einnig fæst sveppasósa frá Happ í Krónunni, hægt er að veganvæða waldorf salat með t.d. blöndu Oatly sýrðum rjóma og þeyttum Soyatoo rjóma (ég gerði það í fyrra og var það mjög gott)(Soyatoo fæst í amk Krónunni og Hagkaup). Ef þú treystir þér ekki í að útbúa eigin hnetusteik þá fást þær í helstu matvörubúðum frá t.d. Gló, Móðir Jörð og Happ. Ég hef nokkrum sinnum prófað Tofurky steik (fæst í Hagkaup) og er að íhuga að prófa Gardein holiday roast í ár ef ég finn slíka (Krónan hefur auglýst að hún verði til þar fyrir hátíðirnar).

Vegan lakkrístoppar eru algjört æði, en notast er við soðið úr kjúklingabaunum (vökvinn sem kemur með baunum í dós) í staðin fyrir eggjahvítur og finnst enginn munur, ég er ekki einu sinni smá að grínast. Ég bakaði þessa toppa svo oft í fyrra og slógu þeir í gegn hjá allri fjölskyldunni.

Þetta döðlugott sló einnig í gegn í fyrra en ég mæli með að skipta út brakinu fyrir poka af vegan sykurpúðum (fást í Fjarðarkaup), þú verður ekki fyrir vonbrigðum, ég lofa.

Ég mæli með að vera með í hóp á facebook sem heitir Vegan jól – uppskriftir og ráð, þar er aragrúi af uppskriftum og töluvert af umræðu hvað hátíðarmat varðar sem nýst getur vel.

Ég vona að þessi færsla hafi nýst vel en hún kom mér klárlega í smá jólaskap. Þar til næst!

Author Profile

Amanda

Amanda er vegan stelpa sem starfar sem lyfjafræðingur og elskar að borða góðan mat. Áhugamál eru eldamennska, hreyfing, heimilið, sanngjörn tíska (fyrir dýr og menn), umhverfisvernd og ýmislegt tengt lífsstíl.


Facebook Comments