Umhverfisvænni blæðingar

Umhverfisvænni blæðingar
Vörurnar fékk ég að gjöf

Vissir þú að einn einstaklingur sem fer á blæðingar getur farið að meðaltali í gegnum 11.000 túrtappa yfir ævina?

Eins og það getur verið “skemmtilegt” að vera á blæðingum þá er ég ein af þeim sem er mjög heppin að eiga ekkert gífurlega erfitt með það. Vissulega finn ég fyrir þeim hormónabreytingum sem líkaminn fer í gegnum á þessum dögum og get ég borðað endalaust þessa daga. Ég þakka þó fyrir að þó að ég finni aðeins til þá eru verkirnir aldrei svo slæmir að ég þurfi að vera frá vinnu eða daglegum athöfnum.

Ég verð að viðurkenna að eitt af þeim atriðum sem hafa truflað mig mikið varðandi blæðingar í gegnum ævina eru fylgihlutirnir sem við notum. Í vestrænum heimi erum við afskaplega heppin að eiga nokkuð greiðan aðgang að slíkum vörum þó að umdeilt sé um skattlagningu slíkra vara og kann ég vissulega að meta það. Hins vegar byrjaði ég á blæðingum 12 ára og ég skal bara vera hreinskilin..mikið ofboðslega þótti mér bindin óþægileg og leiðinleg! Þau voru alltaf fyrir mér, gátu ekki tollað á réttum stað og voru mér til mikillar mæðu. Þegar ég varð aðeins eldri kynntist ég túrtöppum. Lífið varð strax töluvert bærilegra og ég notaði þá í þó nokkur ár en gallalausir voru þeir þó ekki.

Einn daginn rakst ég á grein sem facebook vinkona mín deildi varðandi túrtappa og hversu óumhverfisvænir þeir væru. Túrtappar og bindi eru gífurlega lengi að brotna niður í umhverfinu, sérstaklega ef það er plast utan um þá og sló það mig örlítið. Eins og ég nefndi þá getur einstaklingur sem kýs að nota túrtappa á blæðingum farið í gegnum ansi mikið magn á einni ævi. Bara í Bandaríkjunum er talið að um 12 billjón bindi og 7 billjón túrtöppum sé hent árlega. Túrtappar eru gjarnan búnir til úr rayon sem er framleitt úr viðartrefjum og ganga slíkar trefjar gjarnan í gegnum ýmis konar efnameðferð til þess að bleikja og mýkja þær, en meðal annars er notað klórgas til þess að hvítta trefjarnar og myndast við það ferli efni sem heitir dioxin. Dioxin er bæði talið eitrað umhverfinu og okkur í stórum skömmtum. Vissulega er afskaplega lítið af efninu sem smitast í túrtappana en mér finnst það ekki sérlega huggulegt þegar hugsað er til þess að slíkar vörur eru flestir að nota í nokkra daga í mánuði í mörg ár, og er frásog efna í gegnum húðina okkar nokkuð góð. Þeir túrtappar sem ekki eru búnir til úr rayon eru yfirleitt búnir til úr bómull en ég hef reglulega fjallað um það að ólífræn ræktun bómullar felur gjarnan í sér að plantan sé reglulega úðuð með skordýraeitri og plágueyði við ræktun hennar. Auk þess koma margar þessar vörur í plast umbúðum og með innsetningarstaut úr plasti sem er sérstaklega lengi að brotna niður í umhverfinu og getur brotnað niður í örplast sem hafnar stundum í maga villtra dýra.

Greinin fjallaði um þá lausn að nota bikar í staðin fyrir tappana, og fór ég fljótlega eftir það að kanna hvað væri í boði á Íslandi.

Það varð allt annað líf að skipta yfir í bikar! Ég varð vör við mun minni þurrk, pirring og óþægindi á þessum tíma mánaðarins, en einnig fannst mér ég vera betur varin og varð mun öruggari í ræktinni. Það skemmdi ekki fyrir að spara peninginn sem fór alltaf í bindin og tappana en þessar vörur eru ekkert sérstaklega ódýrar. Ég hef því notað bikar í nokkur ár núna með góðum árangri.

Það hentar þó ekki öllum að nota tíðabikar og sumum gætu jafnvel þótt bindin minna bagaleg en mér.

Mér var boðið að prófa vörur frá Modibodi en mér hefur þótt tilkoma tíðarbuxna afsakplega áhugaverð og velt því fyrir mér hvernig er að ganga í slíku.

Ég fékk að prófa vegan classic buxur með miðlungs rakadrægni frá Modibodi en ég nota þær þegar flæðið er lítið (t.d. á seinustu dögum eða í byrjun) eða ef mér finnst ég þurfa auka vörn með bikarnum. Þær eru ekkert eins og að vera með bindi í klofinu. Þvílíkur munur! Buxurnar eru gífurlega þægilegar, sniðið gott, teygjan þrengir ekki of mikið að og mér líður hreinlega ekki eins og ég sé að nota fylgihlut blæðinga. Modibodi buxurnar virka einnig sem vörn við þvagleka, t.d. þegar girndarbotninn er viðkvæmur en miðlungs rakadrægni dregur í sig 10ml eða ca 1-1/2 túrtappa og mikil rakadrægni dregur í sig 15-20ml sem er ca eins og 2 túrtappar. Aðal uppistaðan er bambus og microfiber en athugið að aðrar buxur en vegan classic innihalda einnig merino ull.

Mælt er með að skola buxurnar eftir notkun, þvoið með köldu, sleppið mýkingarefni og hengið upp til þerris.

Ásamt Modibodi buxunum fékk ég einnig að prófa Intima Lily cup compact bikar en hann er samanbrjótanlegur og geymist í þessu litla boxi. Mér finnst þetta algjör snilld, það fer mjög lítið fyrir honum og því auðvelt að hafa hann alltaf á sér og er hægt að nota hann í allt að 12 klst í einu (áður en þarf að tæma og skola). Bikarinn er úr læknisvottuðu sílikoni og er gífurlega þægilegur og mjúkur en ef þú ert að prófa bikar í fyrsta skipti getur það tekið nokkur skipti að komast upp á lagið með að nota hann og finna út hvernig þér finnst þægilegast að hafa hann. Ég mæli gífurlega með þessum bikar því hann er sá þægilegasti sem ég hef notað, það er auðvelt að brjóta hann saman fyrir innsetningu og svo mikill plús hvað það fer lítið fyrir honum.

Ég mæli mikið með að kanna hvaða fjölnota vörur eru í boði fyrir okkur í dag, en það er betra fyrir umhverfið, budduna og líkamann okkar. 12 ára ég hefði ekki verið til í bikarinn strax en mikið hefði ég verið glöð með svona buxur. Þetta er vafalaust góð byrjunarvara þó að ég mæli með þeim fyrir allan aldur! Ég mun klárlega halda áfram að nota mínar buxur með fram bikarnum eins og ég nefndi ofar og er það “no going back”.

Ég vona innilega að þið hafið haft gaman af lesningunni eða þótt hún fróðleg. Þar til næst!

 

 

 

Author Profile

Amanda

Amanda er vegan stelpa sem starfar sem lyfjafræðingur og elskar að borða góðan mat. Áhugamál eru eldamennska, hreyfing, heimilið, sanngjörn tíska (fyrir dýr og menn), umhverfisvernd og ýmislegt tengt lífsstíl.


Facebook Comments

Share: