Top 10 fyrir skipulagða

Top 10 fyrir skipulagða

Ég er gríðarlega hrifin af hvers kyns skipulagi og langaði að telja upp top tíu mikilvægustu hlutina að mínu mati þegar kemur að skipulagi, hlutirnir eru ekki í neinni sérstakri röð hvað varðar mikilvægi.

 

Dagbók – Þetta er eitthvað sem mér finnst gríðarlega mikilvæg að hafa í töskunni og algerlega ómögulegt að vera án ef maður er í námi. Á vefsíðu Personal Planner getur þú hannað þína eigin dagbók frá A-Ö, skapað þína eigin forsíðu, raðað upp öllum dálkum og haft bókina nákvæmlega eins og þig langar að hafa hana.

 

Minnismidar

Minnismiðar – Alltaf gott að hafa þessa við hendina og geta gripið í þá hvenær sem er, ef þú ert týpan sem vinnur á skrifstofu þá er þetta algerlega nauðsynlegt til þess að geta punktað hjá sér hitt og þetta til minnis, sem sumt fer svo í dagbókina eða vistast í eitthvert skjalið í tölvunni.

 

Screen Shot 2017-09-25 at 21.26.38

 

Planner Pro – Þetta app nota ég gríðarlega mikið. Ég var lengi að finna hið rétta form á dagatals-appi. Mér finnst t.d. gríðarlega mikilvægt að þegar ég horfi yfir mánuðinn þá byrji vikan á mánudegi en ekki sunnudegi. Appið er einfalt í notkun, þú hefur yfirsýn yfir allan mánuðinn og hver viðburður er skráður með litakóða. Sem dæmi táknar grænn hjá mér tíma hjá lækni, gult er frídagur, appelsínugulur táknar fundi o.s.frv. Síðan einfaldlega smellir þú á hvern dag fyrir sig og sérð þá nákvæmlega hvað er um að vera þann daginn.

 

Segull

Skipulagsegull – Þessir seglar fPrentsmiður.is eru alger snilld. Þarna geta allir heimilismenn séð helstu viðburði fjölskyldunnar og einnig matseðil vikunnar hægra megin. Seglarnir koma í öllum stærðum og gerðum en að sjálfsögðu hangir einn hér á ísskápnum á mínu heimili. Ég valdi mér þennan segul í stærð A4. 

One Note

One Note – Þetta forrit er partur af Office fjölskyldunni og ég vissi ekki af því fyrr en á þessu ári. Þetta er alger snilld en þarna getur þú flokkað niður allt þitt skipulag og stjörnumerkt það sem er mikilvægt, sett inn tékklista og ótrúlega margt fleira. Ég notaði þetta þegar ég skipulagði allt í kringum skírnina hjá syni mínum, þarna skrifa ég öll bloggin mín upp og geymi, ég nota þetta sem ‘to do’ lista fyrir það sem þarf að gera. Það er hægt að vista inn heil blogg, greinar og fréttir þarna inn beint af netinu og svo ótrúlega margt annað. Ég mæli með örstuttu kennslumyndbandi á Youtube fyrir þá sem vilja læra á og nýta sér þetta forrit.

 

Plast kassar

Plast kassar – Þessir eru mjög góðir þegar kemur að því að pakka niður barnafötum og gömlu dóti sem á heima í geymslunni. Kassarnir endast vel og raðast mun betur en pappakassar og auðvelt að ganga beint að því sem maður leitar að í geymslunni.

 

Körfur og kassar

 

Körfur og kassar – Ég er með körfur og kassa út um allt heima hjá mér, í flestum skúffum og skápum heimilisins má finna kassa eða körfur. Undir útifötin í forstofuskápnum, undir sokka og nærföt í fataskápnum, fyrir leikföngin í barnaherberginu, undir hreinsiefnin í þvottahúsinu og svona mætti lengi telja.

Nestisbox

Plastbox – Þessi eru til í tugatali á mörgum heimilum en þau henta vel undir nesti, matarafganga sem á að geyma og hitt og þetta í eldhúsinu. Einnig nota ég þau til að geyma smáa hluti í ofan í skúffum.

 

Ziplock pokar

 

Rennilásapokar – Flestir skipulagsglaðir einstaklingar eru hrifnir af þessum dásamlegu pokum sem koma í öllum stærðum og gerðum. Þessir henta vel í ísskápinn undir afganginn af rifna ostinum eða skinkunni eða öðrum hlutum sem koma í “óenduropnanlegum” umbúðum. Að auki henta þeir sérlega vel í ferðalagið. Á löngum ferðalögum er gott að geta teygt sig aftur í og rétt þreyttu litlu fólki ávexti, saltstangir eða Seríjos í poka. Svo er gott að setja hárvörur, krem og þess háttar í rennilásapoka á ferðalaginu.

 

Krítarlímmiðar

Krítarlímmiðar – Síðast en alls ekki síst þarf að nefna merkimiðana til þess að merkja öll boxin, plastkassana og körfurnar þegar búið er að skipuleggja hirslur heimilisins. Krítarlímmiðarnir frá Twins.is eru sérlega fallegir og auðvelda þér leitina í skápunum þegar öll boxin líta eins út.

 

Mig langar að heyra í ykkur skipulagða fólkinu, er eitthvað sem þið mynduð vilja bæta við þennan lista?
Endilega kommentið hér fyrir neðan ef það er eitthvað möst sem ég er að gleyma! ????????

 

Author Profile

Selma

Selma er 27 ára móðir frá Húsavík. Búsett í Reykjavík ásamt syni sínum Val Frey (2017). Hún er með Ba. próf í almennum málvísindum og leggur nú frekari stund á nám í íslensku við Háskóla Íslands. Áhuginn liggur í flestu tengdu Íslandi og íslensku en einnig öllu sem viðkemur móðurhlutverkinu, heimilinu, lífsstíl, þrifum, skipulagi og svo mörgu öðru.


Facebook Comments