“En þú ert bara 25 ára”

 

bara25

Ég hlýt að hafa byrjað að skrifa þessa færslu upp í tölvunni minni svona 10 sinnum og lesið yfir hana svona 700 sinnum. Í hvert einsta skipti með einhverri þvílíkri útskýringu á ákvörðun minni, en í öll skiptin strokaði ég það út, mér fannst útskýringarnar aldrei nógu góðar. Mér fannst mín rök fyrir því hvað ég gerði aldrei nógu góð. Talandi um að hafa enga trú á sjálfri sér.

 

En, ég þarf ekki að útskýra þetta fyrir neinum, ég þarf ekki að koma með afsakanir til að réttlæta það afhverju ég tók þessa ákvörðun. Eða jú, þar sem að heilbrigðiskerfið okkar gengur út frá því að fullorðnar konur séu ekki færar um að taka ákvarðanir um sinn líkama og sitt líf útaf því að “þær gætu viljað þetta seinna meir” þá þurfti ég að úskýra mitt mál og mína ákvörðun fyrir ljósmóður og lækni. Sem ég gerði. Auðvitað tók ég hana ekki af léttúð og þó þetta sé mín ákvörðun að taka talaði ég samt við manninn minn og ráðfærði mig við hann, og þar sem hann er yndislegur og mögulega ein skilningsríkasta manneskja sem ég veit um studdi hann mig af öllu hjarta og skildi mínar ástæður (þú ert svo kúl Tryggvi, lovjú!).

Sannleikurinn er sá að ég heiti Ingibjörg Eyfjörð, ég er 25 ára gömul fullkomlega heilbrigð (svona nokkurnveginn allavegana) kona. Og við fæðingu yngra barnsins míns lét ég taka mig úr sambandi.

Ástæðurnar skipta engu, hvernig meðgöngurnar eða fæðingarnar voru skiptir engu. Það eina sem skiptir máli er að þetta var mín ákvörðun og það að ég tók hana burt séð frá því hvað aðrir hugsuðu eða sögðu. Það breytir því samt ekki að í þessi fáu skipti sem þessi ákvörðun hefur borið á góma finn ég fyrir fordómum, hneikslun jafnvel, og þá aðallega frá eldri kynslóðunum. Afhverju ætti fullkomlega heilbrigð 25 ára kona að láta taka sig úr sambandi? Ég er ennþá svo ung, ég gæti viljað fleiri börn í guðana bænum!

Þó ég sé ung, kornung alveg  – þá langar mig ekki í fleiri börn. Mig langaði til að byrja með aldrei í börn og líkaði aldrei við börn. Ég var aldrei látin passa eða umgangast börn meira en ég nauðsynlega þurfti. Það hefur vissulega breyst, ó guð hvað það hefur breyst. Ég elska börnin mín af meiri kraft en ég vissi að væri til í heiminum. Það er ekkert sem ég myndi ekki gera fyrir þau og þeirra hamingju, og barnauppeldi og allt barnatengt er búið að taka yfir lífið mitt. En það er ekki þar með sagt að mér þurfi að langa í fleiri börn, ég á tvö gullfalleg og yndisleg börn og það er nóg fyrir mig og mína fjölskyldu.

Sannleikurinn er sá, að ég heiti Ingibjörg Eyfjörð. Ég er 25 ára heilbrigð og ólýsanlega hamingjusöm kona og við fæðingu yngra barnsins míns lét ég taka mig úr sambandi.

Og hvað með það?
Þangað til næst!

ingibjorg

 

Author Profile

Ingibjörg Eyfjörð

Ingibjörg Eyfjörð er búsett í Mývatnssveit ásamt fjölskyldu sinni. Hún hefur óbilandi áhuga á heimilinu (nema þrifum, hún er með bráðaofnæmi fyrir þeim), förðun og öllu sem er aðeins út fyrir kassann. Skrif hennar einkennast af hreinskilni, kímnigáfu og harkalegum staðreyndum um hið daglega líf.


Facebook Comments

Share:

2 Comments

  1. Sóley
    November 3, 2016 / 3:07 pm

    Ég er 28 ára og er nýlega búin að eignast mitt 3ja barn og langar ekki baun að eignast fleiri. Ef ég hef nefnt að láta taka mig úr sambandi þá er það yfirleitt alltaf þetta “en þú ert svo ung og gætir langað í fleiri seinna”. Nema reyndar minn frábæri kvensjúkdómalæknir sem sagði það vera raunhæfan möguleika ef ég vildi. Er enn óákveðin en læt ekki eitthvað lið út í bæ segja mér hvað ég get og get ekki gert 🙂

  2. Anna Kristín
    November 4, 2016 / 10:33 pm

    Frábær pistill ???? Hvað er fólk alltaf að skipta sér af barna “menningu” annarra! Það eru ekki allir eins og vilja börn, og það er bara ekkert að því.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *