Þegar börnin fá að ráða

Þegar börnin fá að ráða

Ég á, eins og flest ykkar vita, næstum 7 ára, gullfallegann strák.

Þessi tiltekni strákur hefur alltaf verið skapstór, með mikla sýnilegar tilfinningar og hann hefur ekki alltaf getað stjórnað þeim eins og fullorðna fólkið vill – enda ekki búinn að vera til nógu lengi til að kunna það.
Ég hef oftar en einu sinni heyrt þegar honum er sagt að hætta að væla þegar hann sýnir tilfinningar sem ekki eru karlmanni sæmandi. Eins og það sé slæmt að sýna tilfinningar, eins og það geri hann að minni einstakling, eins og við búum á tíma hellisbúans og tilfinningar geri hann veikari gagnvart rándýrum. Þegar raunin er sú að tilfinnningar gera hann sterkari og getan til að sýna tilfinningar og stjórna sínum eigin tilfinningum er nauðsynleg.

Ég sá um daginn myndband þar sem Jameela Jamil var að halda fyrirlestur á The Makers Conference. Fyrirlesturinn var um eitraða karlmennsku og hvernig VIÐ gætum hjálpað sonum okkar (sem og öllum karlmönnum í lífum okkar) að brjóta þessa steríótýpu á því hvernig karlmenn “eiga” að haga sér og hvernig þeir eiga að takast á við tilfinningar sínar. Þið getið horft á myndbandið hér og ég mæli eindregið með því að þið horfið.

Ég á líka yndislega næstum 3 ára stelpu. Hún er sögð frek, og yfirgangsseggur þegar hún lætur í sér heyra – þegar hún vogar sér að taka pláss í þessum heimi, og nóg þarf þessi litla dama af plássi. En ég hef ekki einu sinni heyrt neinn segja að hún ætti ekki að sýna þessar tilfinningar – konur séu allar svona og þetta hafi hún bara frá mömmu sinni.

Strákurinn minn er hrifinn af málningardóti, skæru hári (akkúrat núna er það að hans ósk rauðbleikt, í fyrra var það grænt því hann vildi vera eins og jokerinn og þar á undan vildi hann prófa gulann – en þar sem hann er með skollitað hár þá festist guli liturinn ekkert. Núna vill hann safna hári en það breytist jafn oft og skapið hans) og fallegum, smart fötum – hann er þannig að hann myndi helst ganga í skyrtum daglega ef hann gæti.
Ég hef oftar en einu sinni heyrt þegar honum er sagt að stelpur máli sig og séu með sítt hár, hann eigi bara að vera með stutt hár og ekki að horfa í áttina að málningardóti, það sé bara fyrir kellingar og homma (þetta er bein tilvitnun í það sem einu sinni var sagt við hann). Þegar staðreyndin er sú að börn eiga að fá að að leyfa sköpunargáfunni að njóta sín á hvað hátt sem þau vilja og geta svo fremi sem það skaði ekki þau eða aðra.

Stelpan mín er með hár niður á mjóbak, gullfallegt rauðbleikt hár sem hún hatar að láta greiða, og eins mikið og ég elska fallegu lokkana hennar bíð ég eftir þeim degi sem hún vill láta klippa það – hún er bara ekki týpan sem vill láta greiða sér og dúllast í hárinu á sér. En, ég hef ekki heyrt neinn segja að hún eigi að vera með stutt hár. Konur eiga að vera með sítt hár, hárið er það sem gerir okkur að konum, já og frekjan. Er það ekki?

Elsku drengurinn minn elskar gröfur, vinnuvélar og hin ýmsu tæki. Eitt af uppáhaldinu hans er að vera í vinnubuxunum sínum, vinnuskyrtunni að veltast um í drullu og fikta í bílum með afa sínum.
En, elsku drengurinn minn er líka hræddur við tæki, hann þorir ekki á krossara, eða sleða. Af þessum tækjum þorir hann helst á fjórhjól. Það er gert grín að honum fyrir það líka, hann eigi ekkert að vera hræddur við þetta, honum eigi að finnast þetta gaman! Og honum finnst gaman, að horfa á þetta, hann elskar að fara á torfærur og sjá snjósleða spyrna. En áhuginn er bara þar. Og það er allt í lagi. Það á ekki að neyða börn til að sinna okkar áhugamálum, eða gera það sem við viljum að þau geri. Það ýtir þeim í hina áttina og með tímanum gæti það orðið til þess að þau búi yfir einhverri “resentment” í okkar garð.

Stelpan mín er brasari af guðs náð. Hún var ekki gömul þegar hún tók upp skiptilykil og fór að “hjálpa” afa sínum að gera við bílinn hans. Hún vill líka helst sitja útí sandhaug og grafa eða eitthvað álíka – hún vill helst bara vera stöðugt skítug upp fyrir haus. Þá heyrist að hún sé strákastelpa, svona séu alvöru kvenmenn, þori að vera með skítugar hendur og ekki hræddar við að brjóta neglur.

Afhverju er þetta ekki sagt við Hólmgeir þegar hann málar sig? Afhverju er það bara stelpulegt, en það er flott ef stelpa tekur upp skiptilykil?

Afhverju er yfir höfuð einhver regla á því hvað börn mega og mega ekki hafa áhuga á, leika sér að eða vera?
Þrátt fyrir sögusagnir og ásakanir um annað hef ég aldrei þrýst neinu að syni mínum eða dóttur, og alls ekki hvað varðar útlitið þeirra. Ég hef aldrei hvatt þau til að lita á sér hárið, klippa það eða safna. Ég er kannski með skært hár og göt og tattú, en það þarf ekki að vera framtíð barnana minna neitt frekar en þau vilja. Ég legg mikið uppúr því að þau ráði sínum líkama sjálf. Börn fá ekki miklu ráðið um sín eigin líf sem er skiljanlegt, en þau geta fengið að ráða þessu, eftir allt – þá er þetta bara hár, föt, málningardót eða leikföng. Mín eina ósk er að þau fái það frelsi til að prófa sig áfram, þróa sinn stíl og læra af mistökunum sínum. Og að þau fái að gera það í friði fyrir óvelkomnum athugasemdum og augnarráðum.


Author Profile

Ingibjörg Eyfjörð

Ingibjörg Eyfjörð er búsett í Mývatnssveit ásamt fjölskyldu sinni. Hún hefur óbilandi áhuga á heimilinu (nema þrifum, hún er með bráðaofnæmi fyrir þeim), förðun og öllu sem er aðeins út fyrir kassann. Skrif hennar einkennast af hreinskilni, kímnigáfu og harkalegum staðreyndum um hið daglega líf.


Facebook Comments

Share: