THE DECADE CHALLENGE

THE DECADE CHALLENGE

Ég hef séð þó nokkuð marga birta svokallaðar “decade challenge” myndir. Snýst það um að birta mynd af sér þegar áratugurinn byrjaði, og svo núna þegar hann er að klárast. Þessi áratugur var og verður allaf einn sá mikilivægasti í mínu lífi svo mig langaði til að deila með ykkur nokkrum orðum um hann. Eftir allt saman þá byrjaði ég þennann áratug rétt tæplega 19 ára gömul og var að stíga mín fyrstu skref í lífinu sjálfráða, takandi ákvarðanir sem myndu marka restina af mínu lífi.

Þegar ég horfi yfir síðustu 10 ár sé ég ekki sjálfan mig. Ég hef áður lýst þessari tilfinningu, mér líði eins og þetta sé saga sem einhver er búinn að segja mér 100 sinnum og ég kann hana utan að. Ég tengi ekki við þessa brotnu, týndu ungu konu sem ég var þegar áratugurinn byrjaði, og ég sé hana ekki í sjálfri mér lengur en ég finn til með henni. Ég vildi óska þess að ég gæti tekið utan um hana og hlúð að henni á hennar verstu tímum. Á tímunum þegar hún hélt að það skildi hana enginn og það gæti enginn hjálpað henni. Þegar henni leið eins og hún væri ein í heiminum – þó hún væri umkringd fólki.

Á slaginu miðnætti þann 31 desember 2009 var ég ofurölvi, að taka smók af jónu með einhverjum sem ég man ekki einu sinni nafnið á, í partýi með fólki sem ég þekkti varla. Ég var sannfærð um að það skipti engu máli hvað ég gerði lífið mitt gæti varla orðið verra. Ég var föst í því hugarfari að ég gæti gert hvað sem er og komið hvernig sem er fram við fólkið í mínu lífi því ég væri hvort sem er ekki að fara að lifa nógu lengi til að taka afleiðingunum, og þetta hugarfar einkenndi of stórann part af þessum áratug.

Það er skrýtið að eyða megninu af ævi sinni að vilja ekki lifa lengur og gera ráð fyrir því að þú munir deyja fyrir einhverja X dagsetningu. Þegar þessi dagsetning rennur svo upp veit maður ekkert hvað maður á að gera eða hvernig maður á að haga sér því jú, maður gerði ekki ráð fyrir að vera ennþá á lífi. Ég hélt alltaf að ég væri ein um þessa tilfinningu – en hef svo komist að því að mjög margir á mínum aldri upplifa það sama.

Þessi áratugur braut mig á fleiri vegu en ég get lýst. Hann traðkaði á tímabilum ofan á mér á skítugum skónum og öskraði á mig að ég væri ógeðsleg, skítug, gagnslaus og mest af öllu – geðveik. Hann sannfærði mig næstum því um að ég myndi aldrei gera neitt við lífið mitt eða verða neitt meira en þessi brotna, týnda unga kona.

En þessi áratugur gaf mér svo miklu meira en hann braut.

Hann gaf mér bæði börnin mín sem eru það sem ég er stoltust af í þessum heimi.
Hann gaf mér manninn minn og hjónabandið mitt.
Hann gaf mér betra samband við foreldra mína, eitthvað sem ég hélt ég hefði skemmt of mikið til að hægt væri að laga það.
Hann gaf mér þak yfir höfuðið og bestu vinkonu í formi lítils fjórfætlings.

Þessi áratugur gaf mér styrkinn til að leita mér loks hjálpar og fá svör við því afhverju hausinn á mér virkar eins og hann gerir.
Þessi áratugur og allt sem honum fylgdi gaf mér sköpunargleðina sem drífur mig áfram.
Þessi áratugur gaf mér sjálfstraustið til að vera ég sjálf, sama hvað öðrum finnst.
Þessi áratugur tók af mér viljann til að lifa trekk í trekk – og gaf mér hann svo aftur sterkari en nokkurntímann fyrr.

Á slaginu miðnætti þann 31 desember 2019 mun ég bjóða 2020 velkomið í örmum fjölskyldunnar minnar (mínus 1 sem eyðir áramótunum með föðurfjölskyldunni). Ég mun kveðja þennann áratug þakklát fyrir það sem ég áorkaði og fyrir það sem ég upplifði.

Skál fyrir nýju ári, nýjum áratug og enn fleiri og betri minningum.


Author Profile

Ingibjörg Eyfjörð

Ingibjörg Eyfjörð er búsett í Mývatnssveit ásamt fjölskyldu sinni. Hún hefur óbilandi áhuga á heimilinu (nema þrifum, hún er með bráðaofnæmi fyrir þeim), förðun og öllu sem er aðeins út fyrir kassann. Skrif hennar einkennast af hreinskilni, kímnigáfu og harkalegum staðreyndum um hið daglega líf.


Facebook Comments

Share: