Það sem ég hefði viljað vita um brjóstagjöf áður en ég varð mamma.

Það sem ég hefði viljað vita um brjóstagjöf áður en ég varð mamma.

Það eru allskyns spurningar sem brenna á manni þegar maður kemst að því að maður er að verða mamma. Mínar helstu hugrenningar voru til dæmis: “Hversu vont er það virkilega að eignast barn?” “Mun ég geta skipt á kúkableyju án þess að kúgast?” og “Hvernig tilfinning er það að mjólka og vera með barn á brjósti?” Þetta eru vissulega spurningar sem enginn getur svarað nema maður sjálfur því jú, allar upplifum við þetta mismunandi. Hinsvegar hefði verið gott að fá að heyra RAUNVERULEGAR reynslusögur frá þeim sem höfðu gengið í gegn um þetta áður.

 

Þann 8.ágúst 2016 klukkan átján mínútur yfir átta að kvöldi til fæddi ég strákinn minn, eftir 32 klukkutíma með hríðar þar af 20 tíma með mikla og vonda verki. Alla meðgönguna var það hálf óraunverulegt að ég væri að fá barn í hendurnar á endanum og ég taldi sjálfri mér trú um að þetta myndi allt breytast þegar hann kæmi í heiminn. Ég myndi fá hann í hendurnar og strax líða eins og móður, vita nákvæmlega hvað ég ætti að gera, hvernig ég ætti að athafna mig og aðlaga líf mitt að þessu litla kríli. Það hins vegar er ekki mín upplifun. Þegar ég fékk hann í fangið þá vissi ég ekkert! Ég kunni ekki að setja hann rétt á brjóstið og ég var ekki komin með neina mjólk. Ég kunni ekki að klæða hann og ég kunni ekki að skipta  um bleyju. Ég hafði aldrei haldið á svona glænýju barni og ég gat alltaf skilað þeim börnum sem voru í kring um mig ef ég réði ekki við aðstæður. Ekki í þetta skipti. Ekki misskilja mig ég myndi ALDREI vilja skila barninu mínu en það sem ég er að reyna að segja er að þarna var þetta loksins orðið raunverulegt.

17792431_10209351880299586_1397649742_n

Þegar við svo loksins fengum að fara á sængurkvennadeild og ætluðum að hvíla okkur þá fengum við heimsókn frá ljósmóður. Sú sem kom og átti að hjálpa mér með brjóstagjöfina var eins og vondi kallinn í teiknimynd. Ég var að reyna að gefa barninu mínu brjóst í annað skipti á ævinni og hafði ekki hugmynd hvað ég var að gera, hann var ekki að taka brjóstið almennilega og eftir því sem ég var búin að heyra þá átti barnið bara að festa sig á geirvörtuna um leið og það kæmi út og þetta myndi allt gerast að sjálfu sér. Nei aldeilis ekki! En aftur að ljósmóðurinni. Hún kemur og rífur í brjóstið á mér og treður því upp í barnið og segir “svona gerir þú þetta og barnið VERÐUR að sjúga rétt og vera fast á til að fá mjólk.” Ég reyndi kurteisislega að spurja hvort ég væri komin með eitthverja mjólk því ég hafði ekki orðið var við að brjóstin stækkuðu eða neitt einkenni sem ég hafði fengið að heyra og bað um leiðbeiningar hvernig ætti að leggja hann rétt á. Þá var mér bara sagt að láta barnið sjúga og sjúga og þá kæmi mjólkin. Jú vissulega reyndist það rétt en ekki fyrr en rúmlega þremur mánuðum seinna. Ég reyndi ALLT þegar kom að brjóstagjöf. Ég var stanslaust að leggja hann á og barnið mitt gerði ekkert nema sofa og ég man það að það höfðu allir á orði um að hann væri svo svakalega rólegur og svæfi bara þegar fólk var í heimsókn. Það sem ég vissi ekki var að ég var að svelta barnið mitt. Ljósmóðirin kom heim eftir 4 daga heima og ég sagði henni frá sárunum á geirvörtunum og að ég héldi að barnið væri ekki að fá nóg. Nei nei, þetta á að vera svona og ég átti bara að vera dugleg að bera á mig og ennþá duglegri að leggja barnið á brjóst.Eftir mánuð af  blóðugum sárum, endalausum grátköstum (hjá mér) og ég gjörsamlega búin á því andlega fer ég með Mána í skoðun. Þá er mér sagt að hann sé allt of léttur og að hann sé bara alls ekki að fá nóg að drekka. Ég sýndi hjúkkunni í ungbarnaeftirlitinu að ég hefði mjólkað mig útaf mér var svo skelfilega illt í geirvörtunum að ég gréti bara í hvert skipti sem ég leggði barnið á og það eina sem kom í pelann voru blóðugir 10ml! 10ML!! og þarna var ég búin að tala oft við ljósmóður sem sagði að þetta væri allt eðlilegt og ég sjálf ákvað að mjólka mig til að athuga hvort það væri eitthvað að koma þarna út. Þessi sem skoðaði Mána minn í mánaðarskoðun sagði mér að gefa honum ábót, byrja smátt og auka svo. Þvílíkur léttir sem það var! Þið trúið ekki hversu búin á því ég var andlega, 11 kílóum léttari en ég var áður en ég átti, hvítari en hvítt og með bauga niður á brjóst. Þvílík vanlíðan sem fylgdi þessum fyrsta mánuði. Þetta fór þó allt batnandi eftir þetta og mjólkin kom almennilega þegar máni var 3ja mánaða gamall, ég er enn með hann á brjósti í dag 8 mánaða.

17440318_10209250426563306_1629084687_n

Það sem ég er að reyna að koma frá mér með þessum skrifum er einfaldlega að það gengur ekki alltaf allt eins og í sögu og það er bara ALLT Í GÓÐU. Fólk má alveg tala meira um það sem gengur ekki upp, hvort sem það er eitthvað í uppeldinu, fæðingunni, brjóstagjöf eða hverju sem er. Ef ég hefði til dæmis lesið svona reynslusögu þegar ég var ófrísk og síðan upplifað þetta sjálf þá hefði ég ekki skammast mín svona svakalega. Skömmin sem fylgdi því að geta ekki gefið barninu mínu að drekka var svakaleg. Fólk spurði líka þegar ég var að gefa honum ábót hvort ég væri STRAX hætt með hann á brjósti og allskonar spurningar sem voru alls ekki að hjálpa sjálfstrausti nýrrar móður. Lífið er ekki alltaf dans á rósum og það er allt í lagi að biðja um hjálp. Ég vildi óska þess að ég hefði leitað mér hjálpar.

Þangað til næst! Ást og friður!

 

Facebook Comments

Share: