Tenerife

IMG_20170309_225421_320

Eins og einhverjir snappchatt (oskubuska.is) fylgjendur okkar tóku eftir þá skelltum við fjölskyldan, foreldrar mínir og tengdaforeldar okkur í smá frí til Tenerife núna í byrjun mars (yngsti bróðir hans Halldórs kom reyndar líka og var með okkur í viku). Það er svo yndislegt að komast aðeins í burtu, í sólina og góða afslöppun. Við þrjú fórum til Tenerife líka í fyrra og vorum við smá óheppin þá því við fengum öll leiðindar pest og lágum í nokkra daga, þannig að við krossuðum putta í ár og vonuðum að það sama yrði ekki upp á teningnum og það gekk eftir. Fannar lék á alls oddi og var hin hressasti sem og við foreldrarnir og ömmur og afar.

Í fyrra tókum við pakkaferð hjá ferðaskrifstofu og vorum á Amerísku ströndinni. Við vorum ekki alveg nógu ánægð með þá staðsetningu og vildum helst vera í íbúð núna svo að Fannar hefði gott pláss til að leika sér og gæti sofið í svefnherberginu meðan við myndum geta horft á mynd eða þátt þegar hann væri sofnaður. Það var smá óþægilegt í fyrra að vera bara inni á litlu herbergi með pjakk sem hreyfir sig mikið. Þannig að í ár ákváðum við að prufa eitthvað annað. Við fórum á eigin vegum og ákváðum að Costa Adeje væri málið, en það er rólegur og fjölskylduvænn staður. Hótelið sem við bókuðum var notalegt íbúðahótel með tveimur sundlaugum (önnur upphituð) og vaðlaug.

 

Ferðalagið:

Ég verð að segja að ég var vægast sagt mjög stessuð fyrir fluginu. Fannar er orkumikill snáði sem finnst leiðinlegast í heimi að vera kjurr, þið vitið – maður þarf að skoða allt og spá í öllu þegar maður er bara rétt að verða eins og hálfs árs. Við keyptum auka sæti fyrir hann og ég verð að segja að það eru peningar sem ég sé ekki eftir, þvílíkur lúxus að geta haft hann á milli okkar og ekki þurfa að halda á honum í tæplega 6 klst. flugi.

Í fyrra fengum við ráð frá lækni að gefa honum stíl fyrir flug þar sem að börn eiga það til að fá verki í eyru sem og vindverki þegar vélarnar taka á loft og lenda. Við gerðum það sama í ár og flugtak og lending var ekkert mál. Hann var aðeins smá hræddur við hljóðin þegar vélin lenti en annars ekkert mál.

Flugið sjálft var líka ótrúlega auðvelt (svona miðað við að hann er bara tæplega eins og hálfs), jújú hann var alveg á ferðinni og vildi hnoðast, en við vorum með ótrúlega mikið dót, liti, blöð og bækur fyrir hann en svo hafði mamma líka keypt handa honum litlar gröfur sem hún gaf honum þegar smá var liðið á flugið og það hjálpaði til að fá eitthvað nýtt og spennandi. Afþreyingarkerfið í vélinni hjálpaði líka mikið. Við flugum með Icelandair og fékk hann heyrnartól, límmiðabók og spil frá þeim þegar við komum í vélina og honum fannst alveg svakalegt sport að fá að stinga heyrnartólunum í samband og taka úr allt flugið.

Hann borðaði voðalega lítið allt flugið en ég hafði tekið með fullt af skvísum, snarli, mjólk og vatn. En hálf skvísa og smá brauð var það eina sem hann vildi fá. Ég var samt fegin því að hafa tekið nóg með handa honum því ég vildi alls ekki lenda í því að svengd væri að trufla hann í fluginu.

Vélin fór í loftið kl 9:30 og Fannar er oftast að sofna um kl 11 og hann hélt bara sinni rútínu, sofnaði aðeins fyrr og svaf alveg í góðar 2 klst. Hefði alveg verið til í að hann hefði sofið aðeins meira í þetta skiptið en tveir tímar var samt alveg frábært.

Heimferðin var aðeins erfiðari. Flugið var kl 15:40 og hann hafði bara náð að sofa í 10 mínútur á leiðinni út á flugvöll og var kominn á yfirsnúning vegna þreytu þegar við loks fórum í loftið. Við héldum að hann myndi sofna strax og hann gæti en neeeeiii, það liðu tæplega 2 klst. af fluginu, hann á yfirsnúning, iðandi og spriklandi (samt ótrúlega glaður og kátur) þar til hann loksins sofnaði. Við vorum farin að vorkenna honum, en hann var svo þreyttur greyið en bara náði sér ekki niður í svefn. Hann svaf svo vært á milli okkar í rúmar 2 klst. eða allt þar til að nokkrar konur ákváðu að halda smá partý á ganginum við sætin okkar með tilheyrandi masi og hlátrarsköllum. Verð að viðurkenna að við Halldór urðum nett pirruð á því þar sem hann hefði líklegast sofið í klst. í viðbót ef hann hefði ekki vaknað við þetta. En lítið hægt að gera við því. Hann var eins og ljós restina af fluginu, en amman hafði pakkað niður smá ritzkexi sem hann fékk að maula á og var mjög sáttur við það sem og dótið sem hún hafði keypt handa honum.

20170308_103304 20170308_132304 Snapchat-397254629

Hótelið:

Hótelið sem við vorum á heitir Sunset Harbour Club og er staðsett alveg við ströndina á Costa Adeje. Hótelið er mjög fallegt íbúðarhótel og vorum við mjög ánægð með alla aðstöðuna og þjónustuna. Við fengum herbergi á jarðhæð sem var mjög þægilegt fyrir okkur þar sem að maður þurfti þá ekki að hafa áhyggjur af því að Fannar gæti verið að príla á handriðinu á svölunum (honum finnst endalaust gaman að príla á hlutum). Herbergið var með eldhúsi, baðherbergi, stofu, svefnherbergi og smá verönd sem snéri út að sundlauginni. Herbergið var einnig rúmgott og búið öllum þeim tækjum sem maður mögulega þurfti í íbúð. Á hótelinu var bæði þvottaþjónusta sem og þvottaherbergi, en ég setti einu sinni í þvottavélina meðan við vorum úti. Það var frekar dýrt (5 evrur) en samt mjög gott að geta sett í eina vél þegar maður er með lítinn gorm (sem elskar spagetti bolognese, hehe). Það eina neikvæða sem ég get í raun sagt um hótelið er það að það var ekki frítt wifi og kostaði dagurinn fáránlega mikið. Við notuðum þá bara 4G sambandið á símanum en við vorum með ferðapakkann frá Nova sem er algjör snilld þegar maður er að ferðast svona.

20170319_190332

Leiga á kerru og bílstól:

Ég eiginlega verð að nefna eitt. Við fundum í fyrra síðu sem heitir Hire 4 Baby Tenerife, en á henni getur maður leigt ýmsar barnavörur s.s. kerrur, bílstóla, rúm, jumparoo og margt fleira. Við leigðum hjá þeim í fyrra Baby Jogger City Elite kerru og okkur fannst þjónustan þar vera til fyrirmyndar. Þannig að í ár leigðum við aftur samskonar kerru sem og Maxi Cosi Pearl bílstól með base. Í fyrra hittu þau okkur með kerruna á hótelinu og stóðst allt sem um var samið, sem og núna, en í ár þá biðu þau eftir okkur út á flugvelli með kerruna og stólinn. Ég mæli svo 100% prósent með þessu fyrirtæki, allt stóðst, kerrurnar og stóllinn hreint og vel með farið og auðvelt að ná á þau ef maður þarf að breyta (ákváðum núna að fara aðeins fyrr út á flugvöll en við nefndum við þau í upphafi og ég hringdi ca 2 klst. áður og spurðu hvort þau gætu komið fyrr og það var ekkert mál og maðurinn beið eftir okkur þegar við mættum). Við borguðum 80 evrur fyrir kerruna, bílstól og base í tvær vikur og okkur fannst það klárlega þess virði.

20170321_125108 Snapchat-1963267802

Fríið:

Við nutum tímans í algjörri afslöppun þessar tvær vikur sem við vorum úti. Við erum ekki mikið fyrir að liggja á bekkjunum og sóla okkur heldur viljum við vera á röltinu og löbbuðum við mjög mikið á hverjum degi. Appið í símanum og smartúrið tóku saman að við höfðum labbað að meðaltali 12 km á dag! Persónulega finnst mér það fáránlega vel gert, en maður er ekki vanur að labba svona mikið hérna heima, það er alveg víst 😉

20170319_093722

Fyrstu þrjá dagana var ansi heitt en allir mælar sem við sáum sýndu ýmist 38-42°C hita, sem mér finnst vera of heitt. Maður varla náði að gera neitt því öll orka var úr manni, já úr Íslendingunum sem líður bara voða vel ef það eru 15°C hérna heima. En á degi fjögur lagaðist hitinn aðeins og var restina af ferðinni í kringum 20-25°C sem var voðalega notalegt. Einn daginn ringdi smá en það varði bara í einhvern klukkutíma og maður gat alveg verið úti þrátt fyrir að það væri smá rigning.

20170309_150358

Við ákváðum að taka einn dag og heimsækja höfuðborgina Santa Cruz og fara í smá verslunarleiðangur þar. Ég hafði séð að Primark er í mollinu þar og ég bara varð að komast þangað. Ég verslaði alveg slatta þar á okkur fjölskylduna fyrir svo lítinn pening að það er eiginlega ótrúlegt, klárlega þess virði að keyra þangað til að komast í Primark.

Siam mollið sem er stutt frá Amerísku ströndinni, Costa Adeje og Los Christanos er líka frábært og ég kíkti tvisvar sinnum í það. Það kostar bara rétt um 5 evrur að fara þangað í leigubíl (önnur leiðin) og er rosalega gott moll. Í því molli er t.d. H&M, H&M home, Zara, Zara Home, Mango og margar fleiri. Einnig er útval af góðum veitingastöðum sem og skemmtilegt leiksvæði fyrir börn.

Við fórum líka í Jungle Park dýragarðinn. Við fórum frekar seint að deginum til í garðinn og sé ég smá eftir því. Það var lítið um að vera og allt walk trough var lokað og sýningarnar búnar. Við vorum búin að ákveða að fara eftir lúrinn hans Fannars en hann sofnaði svo seint að kl var að verða 15 þegar við komumst loks í garðinn. Mæli frekar með því að fara fyrir hádegi eða um hádegisbil. Jungle Park er mjög flottur garður með fullt af allskonar dýrategundum, en ég á sjálf alltaf rosalega erfitt með að fara í svona garða og sjá dýrin lokuð inni.

Masca dalurinn og bónorðið:

Halldór var búinn að ákveða að hann vildi fara inn í ótrúlega fallegan dal sem heitir Masca og taka mömmu, pabba og tengdó með. Við lögðum af stað þangað að morgni 18. mars, en leiðin þangað er mjög seinfær því maður þarf að þræða þvílíkan fjallaveg og keyrir maður ekki mikið hraðar en á 20km/klst. Viðurkenni það alveg að þegar við vorum á leiðinni þá leist mér ekkert voða vel á veginn því það var svo hrikalega bratt niður við vegkantinn, en við komumst þetta og ég sé sko ekki eftir því. Þvílíka náttúrufegurðin. Við ætluðum að stoppa á ákveðnum veitingastað en hann var einmitt lokaður þegar við komum þannig að á endanum fengum við okkur bara kaffi og kaktusköku (já það var spes kaka) á kaffiteríu sem var þarna efst í þorpinu. Það var ógleymanleg stund. Þegar við erum að setjast niður segist Halldór þurfa á klósettið og hnippir í bróður sinn (ég tók ekki eftir því reyndar því). Stuttu seinna kemur bróðir hans fram með símann hans Halldórs og í honum er lag í spilun. Við öll verðum frekar skrýtin á svipinn og veltum greinilega öll fyrir okkur afhverju Halldór vilji spila eitthvað lag. Ég tek ekki alveg strax eftir því að þetta er lagið okkar (í öðrum flutningi sem ég hafði ekki heyrt áður) sem spilar þarna í símanum. Þegar ég heyri fyrstu línuna og átta mig á hvaða lag þetta er sé ég Halldór koma fram með hringabox í hendinni, hann labbar til mín, fer á skeljarnar og spyr mig hvort ég vilji giftast sér. Ég fór að háskæla og svaraði auðvitað já og fekk fallega hringi á fingurinn. Yndisleg og falleg stund – finnst ég svo heppin að hafa haft alla hjá mér og að þau hafi fengið að upplifa þessa stund með okkur <3

1489845031804

Allt fríð var yndislegt og við þurftum svo á þessu að halda að komast aðeins út, slappa af og njóta. Hefði eiginlega bara viljað vera aðeins lengur. Tenerife er frábær staður (og þá sértsaklega Costa Adeje) fyrir fjölskyldur og fólk sem vill vera á aðeins rólegri stað en margir fara á.
Fljótlega set ég svo saman færslu um það sem er möst að hafa, gera, skoða þegar maður er með lítið kríli með sér, þannig að fylgist með 🙂   

 

HildurHlín

Author Profile

Hildur Hlín

Hildur Hlín er 35 ára móðir í Reykjanesbæ. Hún er margmiðlunarhönnuður og naglafræðingur og hefur brennandi áhuga á hönnun, handverki, nöglum, tísku og lífsstíl sem og móðurhlutverkinu og öllu sem því tengist. Hún á einn dekurmola, hann Fannar Mána sem er fæddur í október 2015.


Facebook Comments

Share:

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *