Sunnudagsspjallið – VanlifeVikings

Sunnudagsspjallið – VanlifeVikings

Hjónin Ruth og Auðunn ákváðu fyrir um ári síðan að minnka verulega við sig, þau losuðu sig við flestar veraldlegar eigur og héldu af stað á vit ævintýranna í heimasmíðuðum húsbíl!

Þau Ruth og Auðunn hafa verið saman í að verða 20 ár þó þau segist sjálf alls ekki upplifa sig sem svo gömul!

Af hverju völduð þið þennan lífsstíl?

Við vorum orðin rosalega þreytt á lífsgæðakapphlaupinu á Íslandi, löngum og dimmum vetrarmánuðum og okkur langaði að njóta lífsins á meðan við höfum heilsu til. 

Hver er fallegasti staðurinn sem þið hafið heimsótt?

Dolomites fjallasvæðið í Norður-Ítalíu er dásamlega fallegt svæði. Við vorum þar í nokkra daga síðasta haust og féllum alveg fyrir því en vorum á sumardekkjum þá og það var farið að frysta á nóttunni svo við þurftum að halda niður að ströndinni. Við getum ekki beðið eftir að snúa aftur þangað einn daginn.

 

En hver er uppáhalds staðurinn ykkar?

Í rauninni hvar sem eru fjöll, vötn, falleg náttúra og milt veður. Ef við þurfum að velja einn stað er það Dolomites.

En hver er leiðinlegasti staðurinn?

Verkstæði! Það þýðir að bæði heimilið okkar og fararskjóti eru óaðgengileg á sama tíma.

Hafið þið einhver áform um að koma heim?

Við erum heima hjá okkur !

En hvað varðar að fara aftur til Íslands þá er það alveg í langtímaplönum að skreppa þangað tímabundið, vinna og safna pening. En við erum ekki viss um að við komum til með að setjast þar að til frambúðar.

Hver er helsti kosturinn við þennan lífsstíl?

Tvímælalaust frelsið sem fylgir lífsstílnum, að vera engum háður, nándin við náttúruna, fólkið sem við kynnumst og að geta elt góða veðrið. 

En mesti gallinn?

Ókosturinn við að búa í húsbíl er að ef hann bilar, þá er ekki gaman.

Ruth og Auðunn voru í Norður-Frakklandi þegar Öskubuska heyrði í þeim. Þau voru á leið með Vesturströnd landsins að skoða Pyrenees fjallgarðinn áður en þau héldu á fund við fjölskyldumeðlimi í frönsku rivierunni.

Þau segjast hvorugt sakna þess að búa í húsi þó þau myndu kannski gera það yfir háveturinn á Íslandi. Þau sakna þess ekki heldur að búa á Íslandi þó þau vissulega sakni fjölskyldu og vina sem þau halda þó sambandi við í gegn um síma og netið.

Eitthvað að lokum?

Lífið er núna, gerðu meira af því sem færir þér hamingju á meðan þú getur. Við lofum að þú sérð ekki eftir því!

Við í Öskubusku getum ekki mælt með öðru en að finna þau hjónin udir @vanlifevikings á Instagram, fylgjast með ferðalagi þeirra og sjá hvernig allt hófst (í highlights) !

 

 

Author Profile

Selma

Selma er 27 ára móðir frá Húsavík. Búsett í Reykjavík ásamt syni sínum Val Frey (2017). Hún er með Ba. próf í almennum málvísindum og leggur nú frekari stund á nám í íslensku við Háskóla Íslands. Áhuginn liggur í flestu tengdu Íslandi og íslensku en einnig öllu sem viðkemur móðurhlutverkinu, heimilinu, lífsstíl, þrifum, skipulagi og svo mörgu öðru.


Facebook Comments

Share: