Sólin mín, tunglið og allar stjörnur himinsins.

Sólin mín, tunglið og allar stjörnur himinsins.

Ég hef ekki skrifað um þig lengi. Ég hef reyndar ekki skrifað um neitt lengi, ég held að ástæðan sé sú að ég er örmagna og ég hef varla tíma til að setjast niður – hvað þá hella sálinni minni í orð.

Satt að segja hef ég verið reið útí móðurhlutverkið. Ég hef verið reið útí tilbreytingarleysið og vanann sem lífið okkar er orðið. Síðasta árið hefur verið erfitt fyrir mig, svefnvana barn – og elsku þú. Þú ert eins og þrumur og eldingar og öldurnar sem brotna á klettinum og búa til djúp ör í bergið. Og ég er eins og bergið, með djúp ör sem ég þarf að hlúa að. En ég mæti alltaf afgangi. Þið komið alltaf fyrst.

Þú ert að verða 5 ára. Barnalyktin er horfin, þú ert með allar tennurnar þínar og þú gnístir þeim saman meðan þú myndar setningar sem ég vill ekki hafa eftir þér. Þér líður illa og ég veit ekki hvað ég á að gera í því. Ég hef aldrei verið jafn hjálparlaus, jafn gagnslaus og þegar kemur að þessu tímabili í okkar lífi.

Ég syrgi fyrstu ár lífs þíns þegar við svifum bæði í guðdómlegu þekkingarleysi, það var allt einhvern veginn svo auðvelt. Ég man að orðin komu svo auðveldlega þá, allt var svo hrátt og nýtt.

Ég þarf að koma þessu út, og ég þarf að þú vitir – ég elska þig og systur þína meira en hægt er að segja í orðum. Ástin sem ég gef þér núna er svo öðruvísi, svo frábrugðin ástinni sem ég gaf þér þegar þú varst lítill. Ekki á slæmann hátt, við höfum bæði vaxið og þroskast svo mikið síðan þá.

Núið er krefjandi, fullt af nýjum áskorunum. Sumum þeirra tek ég fagnandi, öðrum ekki svo mikið, ég stend mig að því að segja “andskotinn, hvað nú?” oftar og oftar.

Við rífumst og ég sé mig, krabba. Svo tilfinningaríkur og þú kannt ekki á allar þessar tilfinningar, þú ert bara tæplega 5 ára. Þú ættir ekki að kunna á þær. Við erum svo lík með þetta og ég get sagt þér að þú munt örugglega ekki kunna neitt meira á þær þegar þú ert 25 ára. Þær brjótast bara fram eins og stífla hafi brostið, og þú getur ekki stoppað þær.

Ég nýt augnabliksins svo lítið, ég missi af því í óðagoti dagsins og áður en ég veit af er það horfið og þú ert sofandi undir sænginni þinni.

“Mamma ég get gert þetta sjálfur”
“Mamma ég þarf ekki hjálp”
Mamma ég þarf þig ekki

Eins oft og ég óska þess að þú myndir bara sitja kyrr, hafa hljóð – ég er í stöðugri þversögn við sjálfan mig. Ég get ekki haldið þér jafn nálægt og ég gat einu sinni. Og þar með brestur hver ég er, ég er ekki viss um að ég viti hver ég er.

Þessi aldur er erfiður. Ég held reyndar að þetta sé alltaf svona erfitt, það bara breytist hvað af þessu er erfitt.

Ég er stöðugt að reyna að finna töfra í deginum okkar. En bestu töfrarnir eru litlu andartökin þar sem ég fæ að þurrka tárin þín eða litlu samtölin sem við eigum þegar ég er að breiða yfir þig, og það er það sem heldur mér saman.

Þú, og systir þín verðið alltaf akkerið sem heldur mér niðri á jörðinni.
Sólin mín, tunglið og allar stjörnur himinsins.

Ingibjörg.jpg

Author Profile

Ingibjörg Eyfjörð

Ingibjörg Eyfjörð er búsett í Mývatnssveit ásamt fjölskyldu sinni. Hún hefur óbilandi áhuga á heimilinu (nema þrifum, hún er með bráðaofnæmi fyrir þeim), förðun og öllu sem er aðeins út fyrir kassann. Skrif hennar einkennast af hreinskilni, kímnigáfu og harkalegum staðreyndum um hið daglega líf.


Facebook Comments

Share: