Sniðugt í plastlausum lífsstíl

Sniðugt í plastlausum lífsstíl

Nú er september gengin í garð og þar með átakið Plastlaus september. Tilgangur átaksins er að vekja athygli á plastinu í nærumhverfi okkar, í verslunum og á heimilinu og fá einstaklinga til þess að prófa sig áfram í að minnka þá notkun. Mér finnst þetta frábært framtak þar sem maður áttar sig oft ekki á því hversu mikið er notað af einnota vörum. Ég áttaði mig sjálf ekki á því fyrr en ég byrjaði að flokka ruslið mitt í plast, ál, gler og pappa. Það er rosalegt hversu mikið af einnota vörum læðast á heimili eftir jafnvel eina ferð í matvöruverslun.

Í júní skrifaði ég færslu sem heitir Nokkur lítil skref fyrir umhverfið þar sem ég ræði nokkrar leiðir sem hægt er að tileinka sér til þess að vera umhverfisvænni. Þar tók ég fram nokkra punkta hvernig hægt er að minnka plast notkun.

Í tilefni af Plastlausum september vildi ég sýna ykkur nokkrar vörur sem auðvelda okkur umhverfisvænni lífsstíl, koma í staðin fyrir einnota plastvörur eða í staðin fyrir búsáhöld úr plasti. Ég er að sjálfsögðu ekki að segja að eigi að henda öllu úr plasti sem til er á heimilinu en ef þið skilduð vera í leit að staðgengli, kíkið þá við (og endurvinnið það gamla).

Í eldhúsinu leynist mikið af plasti. Mitt helsta ráð er að sjálfsögðu að íhuga öll innkaup vel og skoða hvort hægt sé að versla annað eins í betri umbúðum eða umbúðalaust.

Mér finnst svona litlir pokar algjör snilld að taka með í matvöruverslun undir ávexti og grænmeti sem finnst umbúðarlaust.

Ég skipti plast uppþvottaburstanum mínum út fyrir viðarbursta þegar hann var úr sér genginn. Ég er virkilega ánægð með hann og finnst hann töluvert betri en gamla útgáfan.

Þessir lífrænu bambusdiskar eru sniðugur kostur þegar þörf er á “einnota” vöru en þá er þó hægt að nota oftar og þeir mega fara í moltugerð. Einnig er hægt að fá skaffal úr sama hráefni.

Ég er farin að vera meðvitaðri um það úr hverju eldhúsáhöldin mín eru búin til og forðast að kaupa plast áhöld. Hjá mistur.is er m.a. hægt að fá eplaskera og þessi sniðugu íspinnamót úr ryðfríu stáli.

Í baðherberginu má einnig finna mikið af plast vörum og er mitt baðherbergi alls ekki orðið alveg laust við það. Hins vegar hef ég tileinkað mér nokkrar leiðir til þess að minnka plastið og má þar nefna að nota svitalyktareyði sem kemur í glerkrukku. Vissulega er hægt að brugga slíkt heima hjá sér með matarsóda og kókosolíu en ég er með viðkvæma húð og líkar vel að geta keypt mildari týpur í gleri. Sniðugt er að nota fjölnota rakvél með útskiptanlegum blöðum í stað einnota rakvélar eða rakvél úr plasti. Vinsældir sápustykkja hafa aukist nýverið og eru ýmsar tegundir til af sápum til líkams-, andlits- eða hárþvottar en þau taka mun minna pláss en allir plast brúsarnir.

Flest tannlæknasamtök mæla með því að skipt er um tannbursta á 3-4 mánaða fresti. Það getur því munað miklu um að velja tannbursta úr náttúrulegum efnum eins og bambus.

Mín uppáhalds ráð eru oftast um það hvernig hægt er að minnka sóun sína þegar maður er á ferðinni, t.d. bara á leið í skóla/vinnu, á ferðalagi eða á rölti um miðbæinn. Ég er gjörn á skyndiákvarðanir, sérstaklega ef ég er svöng svo það er alltaf gott að vera undirbúin (ein mikilvægasta ástæða þess að ég reyni að elda nesti sem oftast). Bambus málið mitt hefur reynst mér vel þegar ég ákveð að taka með mér kaffi í vinnuna eða stoppa á kaffihúsi, þessir nestis pokar eru algjör snilld undir ávexti, niðurskorið grænmeti, brauð, hnetur eða annað smálegt. Ég nota þá í sama tilgangi og ég myndi t.d. nota zip lock poka. Ég fer ekki langt án vatnsflösku, sérstaklega ekki í vinnuna. Þetta dregur virkilega úr því að ég kaupi mér tilbúna drykki auk þess sem mér líður almennt betur þegar ég er dugleg að drekka vatn. Fjölnota poka er gott að eiga bæði í bílnum, heima og helst í töskunni því það er svo þægilegt að hafa þá ef hoppað er út í búð. Ég reyni að hafa þá á sem flestum stöðum því annars er ég gjörn á að gleyma þeim og þar af leiðandi vagga ég stundum út úr búð með fangið fullt af vörum. Talið er að íslendingar hendi um 70 milljón plastpokum á hverju ári, það munar því miklu um að reyna að sleppa þeim. Mér finnst gott að eiga fjölnota rör heima og í töskunni en einhverra hluta vegna finnst mér mikið betra að drekka suma drykki með röri, t.d. smoothies. Hins vegar vil ég ekki að þau endi í umhverfinu mínu svo ég nota fjölnota rör. Það er t.d. hægt að fá rör úr ryðfríu stáli eða úr bambus.

Endilega kíkið á mistur.is og skoðið úrvalið en með kóðanum “plastlaus september” fáið þið 10% afslátt sem gildir til og með 13.september.

Færslan er unnin í samstarfi við mistur.

Þið getið fylgst með mér á instagram: amandasophy

Author Profile

Amanda

Amanda er vegan stelpa sem starfar sem lyfjafræðingur og elskar að borða góðan mat. Áhugamál eru eldamennska, hreyfing, heimilið, sanngjörn tíska (fyrir dýr og menn), umhverfisvernd og ýmislegt tengt lífsstíl.


Facebook Comments