Sjúk ást

Sjúk ást

Sjúk ást er átak sem er í gangi á vegum Stígamóta og er tilgangur þess að vekja athygli á einkennum heilbrigðra, óheilbrigða og ofbeldisfullra sambanda milli ungmenna. Átakið byrjar þann 5 febrúar en þá fer heimasíðan í loftið, www.sjukast.is, en svo á þetta að ná hámarki í kringum 14. febrúar.  Á morgun standa Stígamót fyrir kynningarfund um átakið en hér má lesa um viðburðinn.

Mig langaði til að fara pínulítið út fyrir þægindarrammann, ögra sjálfri mér. Ég hef sjálf þurft að leita til Stígamóta og langar að gera allt sem ég get til að vekja athygli á þeirra mikilvæga starfi.

26231761_724120297787286_6508370290994542222_n

Meðfylgjandi er textinn úr myndbandi sem ég bjó til (með hjálp yndislegrar vinkonu, Hulda milljón sinnum takk. Án þín væri þetta ekki orðið að veruleika.) Myndbandið sjálft sjáið þið á facebook síðu Öskubusku hér.

 

Þegar ég var 15 hélt ég að ástin væri eins og vel skrifuð bíómynd. Þú yrðir ástfangin og upp frá því væri ástin það sem héldi þér á floti. Hún væri yfirgnæfandi falleg og allt við hana væri fullkomið, rétt, ólýsanlega gott. Mér myndi hætta að finnast ég týnd í ólgusjó lífsins – á kafi með enga björgun í sjónmáli.

Þegar ég var orðin tvítug var ég búin að kynnast því að þetta var ekki alltaf svona einfalt. Mér fannst ég svikin, blekkt. Ekkert við ástina var fallegt. Ástin var stöðugur efi um mína eigin geðheilsu og míns virði sem manneskju. Ástin var stöðugur hnútur í maganum og að setja sjálfan mig í annað sæti – alltaf.

Ég var svo viss um að það sem við áttum væri ást, rómantísk saga eins og Rómeo og Júlía, en sagan þeirra var ekkert falleg. Við höfðum gengið í gegnum helvíti saman og gott betur en það en nú þegar ég sit og hugsa til baka sé ég að helvítið sem við gengum í gegnum var í grunninn bara eitt – við saman.

En nú veit ég betur. Núna veit ég að ástin er ekki sjúk. Ástin er stundum erfið en hún er alltaf heiðarleg og umfram allt lyftir ástin þér upp. Hún lætur þig vilja vera betri, ekki fyrir einhvern annann, heldur fyrir sjálfan þig. Því þú átt það skilið.

Því ég á það skilið.

Ingibjörg.jpg

Author Profile

Ingibjörg Eyfjörð

Ingibjörg Eyfjörð er búsett í Mývatnssveit ásamt fjölskyldu sinni. Hún hefur óbilandi áhuga á heimilinu (nema þrifum, hún er með bráðaofnæmi fyrir þeim), förðun og öllu sem er aðeins út fyrir kassann. Skrif hennar einkennast af hreinskilni, kímnigáfu og harkalegum staðreyndum um hið daglega líf.


Facebook Comments

Share: