Sjálfbærar hárvörur: Davines

Sjálfbærar hárvörur: Davines

Davines var stofnað árið 1983 í Ítalíu sem fjölskyldufyrirtæki en í dag eru hárvörur þeirra seldar í yfir 75 löndum.

Davines hefur staðið að uppbyggingu skóga í Madagascar, lágmarkað umfangs plasts í öllum umbúðum og komið af stað ýmsum samfélagslegum verkefnum. Þegar hugsað er til umhverfisverndar og sjálfbærni finnst mér ekki nóg að hugsa einungis út í umbúðirnar sem fylgja vörunni, en einnig að því hvernig fyrirtækið starfar.

Davines er skráð sem svokallað B-corp en slík fyrirtæki hafa það að markmiði að vera notuð til góðs í samfélaginu. B-corp er vottun sem fyrirtæki öðlast og viðheldur með því að standast ákveðið mat á umhverfis- og samfélagslegum áhrifum þeirra. Hér er meðal annars talað um samfélagslega ábyrgð t.d. með því að tryggja að hráefni í vörur séu fengnar eða ræktaðar með sanngjörnum og umhverfisvænum hætti, standast ákveðna staðla hvað umhverfisvernd varðar og að sýna gagnsæi varðandi það hvar fyrirtækið stendur í slíkum málum.

Davines notar endurnýjanlega orku svo sem sólar-, vind- eða vatnsorku á skrifstofum þeirra og við dreifingu á plöntunum sem notaðar eru í vörurnar. Davines hóf að starfa með Lifegate fyrir nokkrum árum og hefur tekið þátt í “zero impact” verkefni þeirra síðan þá. Verkefnið gengur út á það að fyrirtækið (Lifegate) reiknar út kolefnislosun fyrirtækja og samtaka. Fyrirtækin hafa þá tækifæri til þess að kolefnisjafna áhrif sín með því að stuðla að skógræktun í Ítalíu, Madagascar eða Costa Rica.

Eitt af aðal markmiðum Davines er sjálfbærni. Þar af leiðandi eru nánast allar vörur þeirra grænkera vænar. Allar Davines hárgreiðslustofur eru með lista yfir þær vörur sem innihalda dýraafurðir fyrir grænkera væn viðskipti.

Þær Davines vörur sem eru EKKI grænkera vænar (vegan) eru:

  • Naturaltech Restructuring Miracle, Naturaltech Hair Building Pak og Essential Haircare VOLU/hair mist af því þær vörur innihalda keratín

  • Naturaltech Nourishing Royal Jelly Superactive, af því hún inniheldur royal jelly;

  • More Inside This is a Strong Dry Wax and More Inside This is a Strong Molding Clay af því þær vörur innihalda býflugna vax

Ég hef sjálf frábæra reynslu af Davines hárvörunum en ég er með mjög þykkt og liðað hár sem vill gjarnan vera úfið og standa út í loftið eins og tröllastytturnar góðu ef hárið er ekki meðhöndlað rétt. Á táningsaldri var óstýrlátt hár orðinn hluti af mér og lærði ég fljótt að hárteygjan væri besti vinur minn.

Einn daginn fékk ég nóg af hárinu mínu sem var extra þurrt, úfið og leiðinlegt eftir hárlitun sem þurrkaði það enn frekar upp en áður. Ég hafði heyrt gott af Davines hárvörunum og vissi að þær væru grænkeravænar svo ég skundaði á næstu Davines hárgreiðslustofu og verslaði nokkrar vörur úr Love Smooth línunni og hármaska úr Nou Nou línunni (þið getið séð sölustaði hér). 

Fram að þessu hafði ég aldrei rekist á hárvörur sem ég var virkilega ánægð með og fannst leiða til sjáanlegra breytinga á hárinu mínu. Ég held að þið skiljið ekki hvað ég var ánægð að finna þessar hárvörur! Ég fór að elska að vera með hárið slegið og að leyfa liðunum að njóta sín frekar en að smella öllu hárinu í snúð eða slétta það endalaust.

Ég viðurkenni að ég er enginn sérfræðingur þegar kemur að hugsa um hárið á mér en þarna fannst mér ég hafa rekist á eitthvað mikilvægt fyrir rútínuna mína. Eins og staðan er í dag er ég að prófa vörur úr Love Curl línunni sem ég fékk að gjöf frá heildsölunni bpro, til þess að styrkja enn frekar mína náttúrulega liði og halda niðri úfnu tröllskessunni. Ég er ekki týpan sem nennir að nostra rosalega lengi við hárið á mér og vil ég helst bara fara í sturtu og leyfa svo hárinu að þorna að sjálfu sér (kannski ekki skrítið að ég var alltaf úfin). Núna þvæ ég hárið með Love Curl shampó og næringu, þurrka hárið á mér léttilega með handklæði og nudda smávegis af Love curl cream í endana meðan hárið er enn rakt. Svo leyfi ég því að þorna svona! Liðirnir eru fallegri og mótaðri og hárið verður ekki jafn óstýrlátt og úfið. Mér skilst að það fáist jafnvel enn betri árangur með því að þurrka hárið með hárþurrku og dreifara en ég er mjög sátt með mína rútínu! 

Love Curl línan inniheldur meðal annars möndlur frá Slow Food Presidia býli, er rík af próteinum, B vítamíni, E vítamíni, ómettuðum fitum, magnesíum, járni og fleiri góðum efnum sem hafa áhrif á teygjanleika hársins og lyftingu. Auk þess eru vörurnar laus við súlföt og paraben. 

Hluti af vöruúrvalinu er í plast umbúðum en hlutfall plasts í umbúðunum var minnkað verulega, án þess þó að rýra gæði vörunnar og umbúða, og sparaðist þannig mikið magn af plasti sem annars hefði verið notað. Eitt lykil atriðum þeirra þegar valin eru efni í umbúðirnar eru efnin séu endurvinnanleg. Einnig vil ég nefna að henda ekki Davines umbúðunum ykkar ef þið klárið úr þeim þar sem Davines tekur reglulega þátt í Umhverfisvænum mörkuðum og eru þar með áfyllinga bar fyrir vinsælustu vörur sínar. Þangað er hægt að mæta með eigið ílát sem Davines hárvara er vigtuð ofan í. 

Ég sem neytandi reyni að velja vöru út frá sanngirni, sjálfbærni og umhverfi mínu auk þess sem það þarf að henta mínum grænkera lífsstíl, og nota ég Davines vörur með góðri samvisku.

Author Profile

Amanda

Amanda er vegan stelpa sem starfar sem lyfjafræðingur og elskar að borða góðan mat. Áhugamál eru eldamennska, hreyfing, heimilið, sanngjörn tíska (fyrir dýr og menn), umhverfisvernd og ýmislegt tengt lífsstíl.


Facebook Comments