Síðustu vikur

Síðustu vikur

Ég vildi setja inn eina stutta og persónulega færslu þar sem ég tilkynni í leiðinni að ég er hægt og rólega að byrja aftur að blogga almennilega eftir langa pásu. Margir  sem þekkja til vita að ég var ólétt og átti von á mér í janúar. Ég var alls ekki jafn dugleg að blogga á meðgöngunni eins og ég bjóst við, en ég var oft alveg ótrúlega þreytt. Líf mitt snerist því mikið um að nærast vel, hvílast, reyna að stunda reglulega hreyfingu ásamt félagslífi og að reyna að halda mér í vinnu sem lengst.

Dóttir okkar Bigga fæddist 12.janúar þegar ég var komin sléttar 39 vikur á leið (fæðingarsaga kemur síðar), og var ég svoleiðis fegin að þurfa ekki að bíða lengur, enda orðin ansi spennt að hitta frumburðinn. Hún gengur undir gælunafninu Baun (stundum sætabaun eða ástarbaun) en nafnið hennar verður tilkynnt í nafnaveislu bráðlega.

Síðustu vikur hafa farið í að tengjast Bauninni okkar, jafna sig eftir fæðingu, vinna í að koma brjóstagjöfinni á gott ról (sem ég viðurkenni að hefur verið ansi krefjandi og er því ekki lokið enn) ásamt ótal mörgum kúrum og knúsum.

Við skelltum okkur í æðislega ungbarnamyndatöku þegar Baunin var 2 vikna gömul (eftir á að hyggja hefði verið sniðugt að fara aðeins fyrr) og erum við ótrúlega sátt með þessar fallegu myndir (myndir eftir Memory Boulevard photography).

Upp til hópa fannst mér ég vera ágætlega undirbúin fyrir fæðinguna og dagana á eftir, en ég mun einnig skrifa aðra færslu fljótlega tengt því. Ég held að það sem hafi mest komið mér á óvart var hversu erfið brjóstagjöfin getur verið (þó ég hafi heyrt það margt oft) og hversu mikið það getur tekið á andlega að koma henni í gott stand.

Við erum í skýjunum með Baunina okkar og getið þið getið þið fylgst með okkur í story á instagram. Ég ætla samt að vara ykkur við og taka fram að þar er  ég mest megni að setja inn barnamyndir og myndbönd þessa dagana, ásamt því sem ég er að borða (þegar ég er ekki að sofa, taka til eða sinna henni er ég að háma í mig til að nærast nógu vel fyrir brjóstagjöfina) en hundarnir okkar lýta einnig reglulega við.

Yoda var í fyrstu svolítið hræddur við hana, en er núna afskaplega forvitinn og er jafnvel farinn að leggjast niður við hliðiná henni á leikteppið

 

Þarna var hún nýkomin heim af spítalanum og svona agalega sátt með það

 

Ég gjörsamlega bráðna daglega yfir þessari draumadís

 

Meira var það ekki að sinni, þar til næst!

Author Profile

Amanda

Amanda er vegan stelpa sem starfar sem lyfjafræðingur og elskar að borða góðan mat. Áhugamál eru eldamennska, hreyfing, heimilið, sanngjörn tíska (fyrir dýr og menn), umhverfisvernd og ýmislegt tengt lífsstíl.


Facebook Comments

Share: