Rafstuðmeðferð (Electroconvulsive therapy (ECT))

Rafstuðmeðferð (Electroconvulsive therapy (ECT))

Þegar mér var fyrst boðið af geðlækninum mínum að fara í svokallaða rafstuðmeðferð fékk ég vægast sagt áfall. Maður heyrir ekkert mikið um þessa meðferð í dag og það sem flestir hafa heyrt er allt annað en gott. Fólk sér fyrir sér meðferðina eins og hún var gerð fyrir áratugum síðan, engin deyfing, groddalegir hjálmar eða pólar sem er bara stungið á hausinn á manni, og síðast en ekki síst – að hún sé þá notuð í refsiskyni eða sem einhver pynting.

Ég spurði á Instagramminu mínu hvort fólk hefði heyrt um þessa meðferð eða ekki, hvað það hefði heyrt um hana og hvað væri það fyrsta sem þau sjálf hugsuðu þegar þau heyrðu orðið “rafstuðsmeðferð”. Svörin létu ekki á sér standa. Rúmlega 300 manns svöruðu hvort þau höfðu heyrt um hana eða ekki og voru hlutföllin þó nokkuð jöfn já/nei eða 51% sögðu já og 49% sögðu nei.

Ég spurði líka hvað fólk vissi eða héldi ef það vissi um meðferðina eða hefði heyrt um hana.

“Afhommun”
“Skammtímaminnisleysi”
“Þegar allt annað bregst”
“Rafmagnsstóll”

Eru nokkur af svörunum sem ég fékk send inn. Það virðist ekki vera mikil þekking á meðferðinni eins og hún er í dag en ég vill endilega fræða. Þetta er ekki jafn hræðlegt og þetta hljómar.

Þetta er röð meðferða þar sem krampar eru framkallaðir í heilanum með því að leiða rafstraum í gegnum heila sjúklings og er þetta meðferð við alvarlegu þunglyndi, kvíða og fleiri kvillum. Það er eitthvað við þessi flog sem getur snúið við einkennum ákveðinna kvilla.

Ferlið mitt kom til vegna þess að engin lyf virðast virka, og ef þau virka eitthvað þá er það bara í skamma stund. Ég hef prófað ótrúlega mörg lyf og finn engin sem henta mér. Ég var í raun bara komin á endastöð, buguð úr þreytu þó ég sofi meira en góðu hófi gegnir flesta daga og stöðugt þjökuð af kvíða og depurð.

Ég fór inná Akureyri þriðjudaginn 11 júní en meðferðin sjálf var ekki fyrr en á miðvikudeginum. Þar sem ég bý ekki á svæðinu stóð mér til boða að leggjast inná geðdeild og þáði ég það, ég þurfti hvort sem er að fara í blóðprufur og hjartalínurit – og stundum er bara nauðsynlegt að kúpla sig smá út. Tilfinningarnar mínar voru útum allt, ég var svo kvíðin og hreinlega bara hrædd. Ekki fyrir meðferðinni sjálfri samt, ég var búin að afla mér nægra upplýsinga um hana. Bæði tala við sérfræðinga, lesa greinar á netinu og tala við manneskjur sem höfðu gengið í gegnum þetta. Ég var hrædd við þann möguleika að þetta myndi ekki virka.

Morguninn 12 júní var ég vakin klukkan 8 og færð niður á vöknun. Það var mér sagt að leggjast í eitt rúumið og læknarnir og hjúkrunarfólkið fór að athafna sig. Það voru festar blöðkur á ýmsa staði á líkamanum til að fylgjast með vöðvahreyfingum ætla ég að giska á (en veit reyndar ekki fyrir víst svo ekki hengja mig – veit bara að ég er með óþol fyrir líminu á þessu), komið fyrir brunn þar sem ég fékk verkjalyf og svæfingarlyfið í gegnum, blóðþrýstingurinn var mældur og ég fékk góm til að verja munninn. Svo er svæfingalæknir á staðnum en eftir að hann sagði að nú væri hann að gefa svefnlyfið man ég ekki neitt. Þetta var allt rétt fyrir hálf 9. Ég var vöknuð svo um 9 og farin stuttu seinna. Eftir fyrsta skiptið var ég gjörsamlega búin á því um daginn, ég lagði mig 2 og var samt sofnuð klukkan 10 um kvöldið. Mér var einnig svolítið illt í kjálkanum og með smá strengi en það er víst eðlilegt. Ég sagði þeim frá verknum í kjálkanum fyrir næstu meðferð og þau breyttu einhverju svo það hefur ekki komið fyrir aftur. Þegar ég skrifa þetta hef ég farið 5 sinnum í meðferðina en nú tekur við smá pása og ég mun að öllum líkindum byrja aftur í júlí.

Og þá er stóra spurningin. Er hún að virka?
Ég er ekki jafn þjökuð af slæmum hugsunum eins og ég er yfirleitt og eftir meðferðina þá hef ég verið almennt brosmildari og léttari yfir mér. Ég vill halda að þetta sé að virka – og þó þetta sé ekki quick fix, það að lifa með geðhvarfasýki er ævilangt verkefni, þá er þetta gott fyrsta skref og ég er spennt fyrir framhaldinu.

Mig langar líka að þakka öllu starfsfólkinu uppá spítala sem hefur hugsað um mig í gegnum þetta, þurrkað tárin mín, beðið á meðan ég fjarlægi um það bil 3 kíló af málmi úr andlitinu á mér og dregið hugann minn að öðru en nálastungum. Það er ómetanlegt að eiga svona frábæra heilbrigðisstarfsmenn.

Þangað til næst!

 

Author Profile

Ingibjörg Eyfjörð

Ingibjörg Eyfjörð er búsett í Mývatnssveit ásamt fjölskyldu sinni. Hún hefur óbilandi áhuga á heimilinu (nema þrifum, hún er með bráðaofnæmi fyrir þeim), förðun og öllu sem er aðeins út fyrir kassann. Skrif hennar einkennast af hreinskilni, kímnigáfu og harkalegum staðreyndum um hið daglega líf.


Facebook Comments

Share: