Plastlaus september

Plastlaus september

Ég vildi örsnöggt minna á árvekniátakið Plastlaus september er að hefjast að nýju, þriðja árið í röð. Töluverðar breytingar hafa orðið í bæði plast neyslu íslendinga og það úrval sem í boði er af staðgenglum og áfyllingarvöru (hér má finna lista yfir verslanir með áfyllingarvöru sem hægt er að styðjast við). Við höldum auðvitað galvösk áfram enda geta allir sett sér ný markmið eða bætt á sig litlum auka skrefum, hvort sem um ræðir byrjanda eða einhvern lengra kominn.

Dæmi um nokkur einföld skref sem hægt er að prófa sig áfram með – mynd frá plastlausum september

Ég hef skrifað ýmsar færslur um hvernig má minnka plastnotkun, umbúðanotkun, kolefnisspor okkar og fleira. Hér er færsla um áfyllanlegar förðunvarvörur, uppskrift af heimagerðri tómatsósu fyrir einstaklinga sem eru sólgnir í pottrétti og pasta (sek!), færsla um örplast í fötum og hvað er til ráða, innblástur að ruslminni lífsstíl, umhverfisvænni blæðingar og að lokum færsla um nokkur lítil skref fyrir umhverfið.

Eftir að ég varð ófrísk hef ég ekki verið jafn dugleg að elda, matarlystin og orkan hefur verið mjög misjöfn og hefur verið erfitt að koma mér aftur í gírinn. Ég ætla því að nýta Plastlausa september í það að setja mér markmið að vera extra dugleg að elda og baka sjálf.

Árvekniátakið verður sett með opnunarhátíð (sjá viðburð) þann 1.september kl. 12-16 í Ráðhúsi Reykjavíkur en þar verður glæsilegur plastlaus markaður, kynningarbásar og fræðsluerindi.

Ég er ótrúlega spennt fyrir viðburðinum og átakinu, munið bara að enginn er fullkominn en það geta allir gert eitthvað! Vonandi sé ég ykkur hress á sunnudaginn í Ráðhúsi Reykjavíkur.

 

Fylgið mér á instagram til að sjá hvaða aðferðir ég nýti mér til þess að minnka plast- og umbúðanotkun mína, og hvernig mér gengur að standa við markmiðið mitt!

 

 

Author Profile

Amanda

Amanda er vegan stelpa sem starfar sem lyfjafræðingur og elskar að borða góðan mat. Áhugamál eru eldamennska, hreyfing, heimilið, sanngjörn tíska (fyrir dýr og menn), umhverfisvernd og ýmislegt tengt lífsstíl.


Facebook Comments