Óskalistinn minn // Sanngjörn tíska

Óskalistinn minn // Sanngjörn tíska

 

KROCKET KIDS jumpsuit (HÉR)                REFORMATION Collins dress (HÉR)
JANN’N JUNE ziczac blouse (HÉR)                  GOOD GUYS Ella black veg. leather boots (HÉR)

Ég hef mikinn áhuga á tísku, fatnaði og tjáningarfrelsinu sem fylgir því. Tilfinningin þegar þú finnur æðislega flík eða samsetningu sem lætur þér líða eins og drottningunni sem þú ert…yndisleg! Ég hef alltaf elskað að skoða flíkur, máta, versla, og plana hvað mig langar að eignast í framtíðinni.

Einn daginn rakst ég á heimildarmynd sem heitir Sweatshop: a deadly fashion. Þrjú ungmenni sem voru vinsæl í bloggheiminum á Norðurlöndunum á þessum tíma, voru fengin til að skoða, taka þátt, og fá reynslu af því hvernig skilyrðin eru í svokölluðum “sweatshops”. Þið getið skoðað stytta útgáfu úr heimildarmyndinni hér. Einnig hefur mikið verið mælt með heimildarmyndinni: The true cost. Ég hef ekki séð hana sjálf en ætla að vinda mér í það hið fyrsta.

Sweatshops er orðatiltæki yfir vinnustað eða verksmiðju þar sem aðstæður starfsfólks eru mjög lélegar. Oft er um erfiðisvinnu að ræða, jafnvel hættulega, heilsuspillandi, og launin mjög lág.

Síðan þá hef ég leitt hugan að þessu málefni reglulega, en ekki þótt upplýsingar um þennan iðnað vera sérstaklega aðgengilegar. Hver býr til fötin mín? Hvaða skilyrði starfa þau einstaklingar við? Mörg eiturefni eru notuð til að bleikja, lita og vinna fatnað, og eru einstaklingarnir sem starfa í verksmiðjunum útsettir fyrir þessum eiturefnum. Eru þau í viðeigandi hlífðarbúnaði? Fá þau mannsæmandi laun miðað við efnahag þess svæðis? Hvar get ég verslað þar sem gætt er betur að slíkum málum?

Í hreinskilni sagt hefur verið auðveldast að leiða hugan frá þessu málefni því kommon, ég var að sjá svo flottan kjól í “setjið nafn verslunar”. Hann er á frekar góðu verði og hann er til núna.

Undanfarið hef ég þó verið að pressa meira á mig að gera betur, og afla mér upplýsinga. Það eru til vefsíður og öpp sem reyna eftir bestu getu að gefa vörumerkjum einkunnir eftir því hversu sanngjörn þau eru, en einnig er oft tekið inn í myndina hvort vörumerkin séu að gera eitthvað til að gera umhverfið okkar að betri stað. Hér og hér er dæmi um slíkar síður. Einnig hef ég sótt app í símann sem heitir Good on you.

Fatnaður eyðist ekki upp í náttúrunni, ónotuð og óendurunnin föt eiga því það til að safnast upp. Ég veit ekki hversu oft ég hef misst mig á útsölu eða í ódýrri búð erlendis, og keypt eitthvað sem ég var svo ekkert agalega hrifin af eða eyðilagðist í þvotti, sniðið fór mér ekki vel o.s.frv. Ég gef vissulega öll mín föt sem ég er hætt að nota til Rauða Krossins, en ég get samt ekki neitað því að ég fæ sting í hjartað yfir því hversu fullkominn “fast fashion” neytandi ég hef verið.

Fast fashion er orðatiltæki yfir tískuvörumerki þar sem framleitt eru nýjar fatalínur (eða fylgihlutir) mjög reglulega svo að vörurnar séu alltaf eftir nýjustu tísku, vörurnar eru oftar en ekki í ódýrari kanntinum (ekki alltaf samt!) og flíkum er skipt mjög reglulega út. Fast fashion vörumerki eru allsráðandi í dag enda vinsældir þeirra gífurlegar og eru slík vörumerki helst tengd við sweatshops.

Sannleikurinn er sá að neytendurnir segja mikið til um hvaða stefnu tískuvöruhúsin taka og almenna stefnan þessa dagana er nýtt, hratt og ódýrt. Það kannast flestir við að eiga fullan fataskáp en finnast þau samt ekki eiga neitt. Þegar ég fann viðvarandi fyrir slíkri tilfinningu, að fataskápurinn minn þyrfti “yfirhalningu”, þá var leitað á vefsíðurnar að ódýrum, nýjum flíkum.

En hvar skal þá verslað? Ég ætla að segja eins og er, ég þurfti alveg að hafa fyrir því að finna hinar ýmsu verslanir þar sem stuðlað er að gagnsæi og sanngjörnu starfsumhverfi. Mjög margt höfðaði ekki til mín eða míns persónulega fatasmekks. En eftir mikla leit þá hef ég fundið þó nokkuð af flottum vörumerkjum sem ég hygg versla við í framtíðinni og mun reglulega birta óskalista frá slíkum verslunum á blogginu.

Í fyrstu átti þetta blogg einungis að vera um þennan óskalista. Ég ætlaði bara að skrifa örstutta kynningu á mínum hugleiðingum um tískuna, en þetta varð lengra en ég ætlaði. Samt er margt sem ég á eftir að koma niður á blað, t.d. hvað fólk á að gera ef það hefur ekki efni á dýrum flíkum. Eru dýrar flíkur alltaf betri? (hint: nefnilega ekki). Ég mun klárlega skrifa framhalds blogg þar sem ég held áfram með mínar hugleiðingar og hvað ég hef lesið mér til um. En nú að óskalistanum!

Krocket kids jumpsuit

Þessi samfestingur lýtur út fyrir að vera einum of þægilegur, bæði væri hægt að klæða hann upp með hælum og blazer eða niður með strigaskóm og pleður jakka.

Krocket kids gera mikið upp úr því að sýna gagnsæi, að það sé ekki falið hver saumi fötin. Á vefsíðu þeirra er starfsfólk þeirra kynnt og þau gefa sig út fyrir að bjóða fólki starf úr lægri stéttum á sanngjörnum launum.

Reformation Collins dress

Ég elska wrap kjóla og þessi er gífurlega fallegur. Reformation er vinsælt merki erlendis enda eru kjólarnir þeirra einfaldlega gullfallegir. Þeir gera mikið úr því að nota endurunnin efni og flokkast undir “sustainable” tískumerki. Á vefsíðu þeirra er hægt að lesa til um hvaða efni þau nota í flíkurnar og hvernig þau eru að leggja sitt að mörkum fyrir umhverfið.

JANN’N JUNE ziczac blouse

Þessi blússa er svo klassísk og falleg, ég elska litinn og sniðið. Stærðin mín er ekki til eins og er, en ég bíð þá bara róleg.

Vörumerkið er frá Hamborg en flíkurnar eru framleiddar í verksmiðju í Póllandi sem ein fjölskylda á, og gefur merkið sig út á að vera sanngjarn framleiðandi. Þau eru með GOTS vottun sem er vottun fyrir lífræn hráefni í fatagerð og þurfa fyrirtækin að standast ákveðna punkta til að hljóta slíka vottun.

Good Guys Ella boots

Ég er mikið fyrir skó eða stígvél sem ná ekki hærra en að ökkla og eru flatir eða með litlum hæl. Þessir lýta út fyrir að vera mjög þægilegir en mér finnst þeir mjög töff og klassískir, ættu að passa við allt. Good guys er vegan skómerkið sem gefur sig út fyrir gæði en vörurnar eru framleiddar í Portúgal í góðu og sanngjörnu starfsumhverfi.

Flestar vörurnar sem ég hef fundið hafa verið á erlendum vefsíðum, en mér þykir þetta ekki hafa verið svo áberandi hér á landi, a.m.k lítið auglýst.

Þó má nefna vefsíðuna ethic.is og verslunina Org-Reykjavík í Kringlunni (facebook) en þær verslanir selja einungis vörumerki sem stuðla að sanngjörnum viðskiptum.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra í bili, ég var frekar stressuð að bera þetta málefni á borð þar sem hluti af mér vill ekki troða neinum um tær, en á sama tíma finnst mér þetta klárlega vera málefni sem þarf að ræða meira. Þið megið búast við fleiri svona óskalistum þar sem ég vil gjarnan segja frá merkjum sem leggja sitt að mörkum, auk þess sem mér finnst gaman að setja saman fallegar flíkur (og láta mig dreyma um þær). Einnig er ég ekki að segja að ég ætli mér að vera fullkomin, en ég mun klárlega vanda val mitt betur á flíkum í framtíðinni, enda eins og orðatiltækið segir: quality over quantity.

Þar til næst!

Author Profile

Amanda

Amanda er vegan stelpa sem starfar sem lyfjafræðingur og elskar að borða góðan mat. Áhugamál eru eldamennska, hreyfing, heimilið, sanngjörn tíska (fyrir dýr og menn), umhverfisvernd og ýmislegt tengt lífsstíl.


Facebook Comments