Óskalistinn minn // Sanngjörn tíska nr. 2

Óskalistinn minn // Sanngjörn tíska nr. 2

              

DISCOVER BOTIQUE kimono (HÉR)            LANGERCHEN coat (HÉR

       TRADLANDS oxford shirt (HÉR)             EVERLANE long sleeve crop (HÉR)                       

Hér kemur óskalisti minn númer tvö þar sem ég vel einungis vörur sem eru framleiddar með sanngirni að leiðarljósi. Mér þykir mikilvægt að halda áfram að setja inn slíka óskalista af og til þar sem ég veit að það getur vaxið manni í augum að finna flíkur þar sem stuðlað er að gagnsæi og upplýsingum komið áfram til neytenda.

Með því að halda áfram að setja inn þessa óskalista getið þið kynnst þeim vörumerkjum sem eru í boði og vonandi fundið eitthvað sem hentar ykkar smekk og lífsstíl.

Hér getið þið séð fyrri óskalista minn en þar fór ég einnig í smávegis umræðu um galla tískunnar og sérstaklega “fast fashion” tískumerki. Það er ógjörningur að komast fram hjá slíkum verslunum á vappi um t.d. Smáralind og Kringluna en síðan ég skrifaði þessa grein hefur hugarfar mitt breyst töluvert.

Vissulega skoða ég enn flíkur í slíkum verslunum og hef gaman af, en í stað þess að kaupa um leið og ég sé eitthvað sem mér lýst á þá íhuga ég kaupin vandlega. Ég skoða ávalt miðann í flíkinni til að sjá úr hverju hún er búin til. Það er vani sem ég hef komið mér upp þar sem ég er hætt að versla flíkur sem innihalda dýraafurðir. Því kanna ég ávalt hvort flíkin innihaldi leður, feld, ull eða silki. Áður fyrr var það þó eina sem ég leitaði að en í dag hugsa ég einnig um hvort flíkin sé búin til úr hreinu polyester (plastefni sem brotnar illa niður í umhverfinu) eða t.d. bómull, hamp eða öðrum jurtatrefjum.

Ég sé ekki lengur flík á viðráðanlegu verði á herðatrénu, sem ég gæti jú litið ósköp vel í og kæmi sér vel fyrir partýið í kvöld sem dæmi. Ég sé fyrir mér einstaklinginn sem bjó flíkina til, og hugsa með mér í hvers kyns aðstæðum sú manneskja þurfti að vinna.

Mér þykir auðveldara og auðveldara með tímanum að koma í veg fyrir skyndikaup sem mér þykir mikið afrek af minni hálfu.

Í grein minni um nokkur lítil skref fyrir umhverfið ræði ég um kosti þess að versla notað og er það klárlega eitthvað sem ég vil koma mér upp á lagið með, en mér þykir enn gaman að skoða fallegar flíkur á netinu frá viðurkenndum aðilum sem er annt um umhverfið og starfsmenn sína.

Það er von mín að þessir óskalistar hjálpi fleirum sem vilja versla á sanngjarnan hátt.

 

 

Discover botique lotus kimono

Þessi gullfallegi Kimono skartar lótusblóminu og er úr efni sem heitir Rayon Satín. Rayon satín er oftast unnið úr bómull eða öðrum jurtatrefjum en venjulegt satín er oftast unnið úr silki. Þessi kimono inniheldur því ekki dýraafurðir. Ég sé fyrir mér að auðvelt sé að klæða hann á hversdagslega máta við gallabuxur og strigaskó, eða klæða hann upp með hælum og/eða kjól. Flíkurnar eru unnar í verksmiðju í Bali þar sem passað er upp á sanngjarnt umhverfi og aðstæður fyrir starfsfólkið og er Bali innblástur línunnar. Flíkurnar eru því úr léttum efnum og í þægilegum sniðum. Þrátt fyrir að margt þarna henti betur í sólarlöndum en á litla kalda Íslandi þá væri auðvelt að klæða þennan kimono í okkar veðráttu.

Með kóðanum “Summertime” fáið þið 10% afslátt hjá Discover botique.*

*Ég tek ekki ábyrgð á að afsláttarkóðar séu enn í gildi.

 

Tradlands oxford shirt

Ég er mikið fyrir skyrtur en finnst það heldur snúið að finna skyrtur sem henta mínum vexti. Oft þarf ég að kaupa þær frekar stórar svo að þær passi vel yfir breiðar axlirnar, brjóstin og mjaðmirnar. Útkoman er því oftast nær skyrtukjóll frekar en skyrta því ef ég er svo heppin að finna eina sem passar á breiðu svæðin en er samt aðsniðin, þá verður hún of víð í mittið. Ef ég hins vegar finn skyrtu sem passar fínt yfir mittið þá get ég get ég ekki hneppt almennilega yfir brjóstin (hver kannast við “the boob gap”?). Svo ég enda yfirleitt á að kaupa skyrtur í XL í stað medium svo að þær séu bara víðar alls staðar.

Tradlands gerir skyrtur sem eiga að vera tímalausar, þægilegar og fyrst og fremst: passa!

Notast er við náttúrulegar trefjar og endurunnin efni þegar hægt er auk þess sem mikil vinna er lagt í hvert einasta smáatriði flíkurinnar, svo að hún endist sem best enda trúir þetta fyrirtæki á mikilvægi hægrar tísku (e. slow fashion).

Langerchen coat

Mig hefur lengi langað í kápu eða síðan jakka í “trench coat” stílnum. Þessi kápa er hins vegar einnig regnkápa sem hentar svo sannarlega vel á Íslandi. Innri byrði kápunnar er úr lífrænni bómull. Ytri byrði er lífræn bómull í bland við vatnshelt efni. Kápan er GOTS vottuð.

Langerchen framleiðir vörur sínar í Shanghai í verksmiðju þar sem starfsmenn fá sanngjörn laun og  gott starfsumhverfi en auk þess leggur Langerchen út á það að framleiða umhverfisvænni flíkur (e. sustainable).

Everlane long sleeve crop

Klassísk peysa úr 100% bómull sem passar við flest allt. Ég er hrifnust af því að nota svona peysur við gallabuxur og strigaskó, og setja smávegis af peysunni í gallabuxurnar í mittið (til þess að undirstrika mittið). Hægt er að skoða verksmiðjuna fyrir hverja einustu flík á síðunni, en eftir að þú smellir á flík sérðu flipa neðarlega hægra megin sem stendur “Made in – see the factory”. Everlane gefur sig út fyrir að framleiða gæðamiklar flíkur sem endast, á sanngjarnan og gagnsæjan hátt.

Ég vil ljúka þessum pistli með mynd sem ég setti á instagram síðu mína um daginn. Hér má sjá nokkrar flíkur sem ég hef verslað mér síðustu mánuði frá sanngjörnum vörumerkjum en auk þess innihalda flíkurnar engar dýraafurðir. Ég er dugleg að sýna frá flíkum og “outfit hugmyndum” á instagram en klæðist enn að sjálfsögðu mörgum “fast fashion” merkjum þar sem það er ekki beint umhverfisvænt að fara að skipta öllu út, heldur íhuga ég  öll frekari kaup vandlega.

Skór: Matt&Natt (keyptir í Org en fást einnig hér)

Úr: Votch (hér)

Peysa: Armedangels (keypt í Org en fæst einnig hér)

Belti: Wills vegan shoes (hér)

Hlýrabolur: Essentials for Zula (hér)

Hálsmen: Wholesome Culture (hér)

     Þar til næst!

Author Profile

Amanda

Amanda er vegan stelpa sem starfar sem lyfjafræðingur og elskar að borða góðan mat. Áhugamál eru eldamennska, hreyfing, heimilið, sanngjörn tíska (fyrir dýr og menn), umhverfisvernd og ýmislegt tengt lífsstíl.


Facebook Comments