Örplast úr fötum

Örplast úr fötum

Plast mengun og plast sem endar í sjónum er heitt umræðuefni í dag enda algjör þörf á því. Ef staðan heldur áfram eins og hún er í dag er talið árið 2050 verði meira plast í sjónum en fiskur. Þetta eru sláandi upplýsingar sem hvatti mig meðal annars töluvert til þess að gera betur.

Helstu ráð sem gefin eru til þess að sporna við plast mengun eru meðal annars að nota fjölnota vörur í staðin fyrir einnota, reyna að versla inn matvöru sem eru í pappa- eða gler umbúðum eða jafnvel vörur sem hægt er að versla í eigin ílát og skipta út hversdagsvörum úr plasti fyrir náttúrulegar trefjar þegar þær eru úr sér gengnar (t.d bambus tannbursta í stað plast tannbursta).

Eitt af eiginleikum plasts er að með tímanum getur það brotnað niður í smærri einingar og orðið að svokölluðu örplasti en þvermál örplasts mælist í míkrómetrum, svo smátt er það. Sjávarlífverur eiga í hættu á að borða örplast sem finnst í hafinu og leiðir það upp fæðukeðjuna. Lítil rannsókn sem framkvæmd var af Umhverfisstofnun í Austurríki leiddi í ljós að í saursýnum allra þátttakenda fannst örplast. Plast fannst í yfir 70% fýla og í 40-55% af kræklingi samkvæmt rannsóknum sem Umhverfis-stofnun hér á landi lét gera á síðasta ári.

Niðurstöður rannsókna á vatnssýnum sem safnað var úr vatnsveitu í Reykjavík árið 2018 leiddu í ljós að örplast má finna í neysluvatni hér á landi. Í sýnunum fundust að meðaltali 0,2-0,4 plastagnir í hverjum lítra af vatni en engin viðmiðunarmörk eða reglugerðir eru til um örplast í neysluvatni.

Ljóst er að plast neysla samfélagsins þarf að minnka töluvert. Einn af leiðandi uppsprettum örplasts er þó iðnaður sem þarf að tala meira um. Það er tískuiðnaðurinn. Eins og ég hef nefnt í öðrum tísku- eða fatatengdum bloggum þá eru plast efni eins og polýester, nylon og akrýl vinsæl í tískuiðnaðinum enda ódýr í framleiðslu. Þessi efni ásamt fleiri svipuðum plastefnum eru talin vera í um 60% af öllum fötum í heiminum. Það er ansi mikið af plast flíkum.

Ég hef áður fjallað um ofneyslu sem skapast í kringum tískuiðnaðinn þar sem ógrynni af fötum er hent ár hvert og enda þau gjarnan í urðun eða á haugum. Jafnvel þegar einstaklingar vilja vel og gefa flíkurnar til góðgerðastofnana þá er magnið svo mikið í dag að þau hafa ekki undan. Rauði Krossinn á Íslandi þurfti sérstaklega að auglýsa eftir fleiri sjálfboðaliðum við að flokka föt eftir seinustu jól, svo mikið var gefið eftir jólahreingerningarnar (mig grunar að Marie Kondo þættirnir á Netflix hafi einnig haft áhrif) en Íslendingar gefa að meðaltali um 3000 tonn af fötum á ári til Rauða Krossins. Eitthvað af flíkunum er selt hérlendis en restin send erlendis.

Mengunin sem skapast í kringum flíkur úr plastefnum einskorðast þó ekki við það að þau séu ekki lífbrjótanleg og eru að yfirfylla heiminn. Slíkar flíkur losa nefnilega örplast í hvert sinn sem við þvoum þau og getur hluti af því örplasti endað í sjónum.

Ég hef rætt áður um mengun sem stafar af tískuiðnaðinum og eru helstu úrræði fyrst og fremst að:

    1.  Kaupa minna

    2.  Fara betur með það sem við eigum, gera við þegar þarf og leyfa fötunum að endast

    3. Versla notað frekar en nýtt en þar með dregur þú úr kolefnaspori flíkurinnar og úr þeim líkum að hún endi í urðun.

    4. Ef kaupa á nýja flík að íhuga þá hvaðan hún kemur og úr hverju hún er. Er flíkin úr náttúrulegum trefjum? Er fyrirtækið á bak við flíkina að gera eitthvað til þess að vinnsluferli þeirra séu umhverfisvænni? Þurfti að nota skordýraeitur við ræktun trefjanna sem notaðar eru í flíkurnar (hér liggur munurinn að velja t.d. lífræna bómull í staðin fyrir hefðbundna).

Að versla minna af fötum og að versla flíkur úr náttúrulegum trefjum draga úr því vandamáli sem örplast er. Ef við viljum nýta betur þau föt sem þegar eru til í heiminum, og auðvitað nýta okkar eigin föt betur, þá komumst við þó ekki hjá því að eiga eitthvað af fötum úr plastefnum. Þegar ég skima yfir fataskápinn minn þá sé ég strax að ég á þó nokkuð af slíkum flíkum, þó að hlutfallið hafi farið minnkandi með árunum.

Þegar notuð föt eru versluð þá er ekki alltaf augljóst úr hvernig efni flíkin er heldur..ég er ein af þeim sem klippti alltaf miðann af flíkunum með þvotta leiðbeiningunum og öllu. Ég bókstaflega þoli ekki þessa miða en ætla að gera mitt besta að taka þá ekki af, því að ef ég skildi vilja koma flíkinni áfram einn daginn, þá getur það hjálpað að geta séð úr hverju flíkin er. Ég viðurkenni að ef ég finn notaða flík sem mér virkilega líkar og ég tel að passi í fataskápinn minn, þá kaupi ég hana þó hún innihaldi plastefni, hún endar þó ekki í urðun.

Einnig dáist ég af fyrirtækjum sem búa til flíkur úr endurunnu plasti, en þar með gefa þau plastinu nýtt líf og halda endurvinnslu uppi. Endurvinnsla snýst nefnilega einnig um framboð og eftirspurn. Ef enginn er tilbúin til þess að kaupa plastið eða afurðina sem á að endurvinna, þá er plastið einfaldlega ekki endurunnið (slíkt er vandamál víða í heiminum þar sem mikill skortur er á góðri endurvinnslu). Alternative apparel er dæmi um fyrirtæki sem framleiðir flíkur úr endurunnum efnum, meðal annars endurunnu polyester. Slík fyrirtæki er ég til í að versla við þegar við á og eru flíkurnar þeirra mjög vandaðar.

Þetta leysir samt sem áður ekki það vandamál sem örplast er.

Þó að við kaupum flíkurnar notaðar, notum það sem við eigum, eða verslum flíkur úr endurunnum plastefnum þá losnar samt örplast í skólpið okkar við hvern þvott. Neytendur þurfa auðvitað að taka þátt í lausninni en neyslan er einungis hluti af því. Enn í dag bjóða þvottavélar ekki upp á nægilega góðar síur til þess að grípa örplastið áður en það rennur í skólpið. Mikið er rætt um að slíkt er eitthvað sem þurfi að gerast, en hvað skal gera þangað til?

Vöruna fékk ég að gjöf

Ég hafði séð GUPPPY FRIEND pokana af og til á netinu og spáð svolítið í þeim en aldrei komið mér í það að panta slíkann. Þegar ég sá að Mistur var farinn að selja þessa vöru var ég ekki lengi að kanna hvort ég mætti fá að prófa hann en ég hef verið í samstarfi við Mistur. Pokinn er afar mjúkur og mun stærri en ég bjóst við, en mælt er með að fylla hann aðeins til hálfs fyrir hvern þvott. Framleiðendur pokans segja hann ná um 99% af því örplasti sem losnar úr flíkum í þvotti auk þess sem hann er úr sterku og endingargóðu efni. Agnirnar safnast saman í pokanum og er trefjunum þá safnað saman og fargað.

Það getur tekið nokkra þvotta áður en sjáanlegt magn finnst í pokanum en trefjarnar safnast saman á bakvið rennilásinn.

Ég er búin að prófa mig aðeins áfram með pokann og er afskaplega ánægð með hann en hann verndar einnig flíkurnar svo þær endist lengur. Þegar pokinn hefur runnið sitt skeið er svo hægt að senda hann aftur til framleiðanda þar sem þeir búa til nýja GUPPY FRIEND poka úr þeim gömlu. Þetta er með betri leiðum til þess að vernda hafið fyrir örplasti þar til helstu þvottavéla framleiðendur bjóða upp á síur sem grípa plast agnir í sínar vélar, og er ég því afskaplega ánægð með pokann minn.

Author Profile

Amanda

Amanda er vegan stelpa sem starfar sem lyfjafræðingur og elskar að borða góðan mat. Áhugamál eru eldamennska, hreyfing, heimilið, sanngjörn tíska (fyrir dýr og menn), umhverfisvernd og ýmislegt tengt lífsstíl.


Facebook Comments

Share: