Orkukúlur // uppskriftir

Orkukúlur // uppskriftir

Orkukúlur eru kúlur sem samanstanda yfirleitt mest megnis af fræjum og hnetum í grunninn, en hægt er að gera gríðarlega margar útfærslur.

Mér þykir yndislegt að eiga slíkt til í ísskápnum til að grípa í yfir vikuna þegar hungrið kallar á, en þær eru frábærar sem millimál. Orkukúlur eru einnig góður kostur til að narta í þegar þessi svakalega þörf fyrir sætu eða nasl á kvöldin skellur yfir mann. Ég veit ekki um ykkur en ég hef ósjaldan lent í rökræðum um sjálfan mig um af hverju það er ekki skynsamlegt að fara á Brynjuís og fá sér bragðaref með öllu í miðri viku (ég bý kjánalega nálægt Brynjuís..of nálægt).

Don’t get me wrong, ég vil engar öfgar og passa að fara milliveginn hvað mataræði varðar, en það liggur við að í mér búi tveir persónuleikar. Annar persónuleikinn veit svo sannarlega hvað er hollt og gott fyrir mig, og líkama mínum líður einkar vel þegar ég hlýði þeim fyrirmælum. Hinn persónuleikinn gæti étið allt..allt..allt (eða næstum). Það er einstaklega auðvelt að plata mig. Ef ís auglýsing poppar upp í bíó..getið hvert mig langar að fara. Dominos auglýsti vegan ost í seinustu viku. Halló, hver var mætt á fyrsta degi? *Réttir upp hendi*.

Allavega..við vorum að tala um orkukúlur!

Þær eru orkuríkar, eins og nafnið gefur til kynna. 1-2 kúlur duga því sem millimál eftir því hversu stórar þær eru og hvað er í þeim. En orkuríkt er ekki sama og óhollt. Flestar eru þær einnig næringarríkar, og eru hnetur og fræ frábær uppspretta hollrar fitu.

Hér fylgja nokkrar uppskriftir að nokkrum dásamlegum orkukúlum.

Brownie bite orkukúlur

Þessar bragðast eins og nammi, í alvöru.

– ½ bolli af möndlum – ristaðar í 10 mín við 150°C.

– 1 kúffullur bolli af ferskum döðlum – fjarlægið steininn

– ¼ bolli möndlusmjör

– ¼ bolli möluð hörfræ

– 3 mtsk hreint kakó

– 1 tsk vanillu dropar

– salt klípa

Í guðanna bænum, fylgist vel með möndlunum meðan þær eru í ofninum. Ég hef brennt ófáar möndlur og hnetur  í gegnum tíðina. Ristaðar möndlur og döðlur eru hakkaðar saman í matvinnsluvél þar til deigkenndri áferð er náð, möndlurnar mega samt vera nokkuð grófsaxaðar. Restin af hráefnum er bætt við og blandað vel saman. Rúllað er í kúlur og geymt í kæli. Úr uppskriftinni fást u.þ.b. 9-12 kúlur.

 

Lime- og kókos orkukúlur

– ½ bolli möndlur með hýði

– 1 bolli ferskar döðlur

– ¼ bolli pekan hnetur

1/3 bolli rifinn kókos

– smá auka kókos til að velta kúlunum upp úr

– rifinn börkur af 1 lime

– safi úr 2 lime

– salt klípa

Byrjið á að hakka niður möndlurnar í matvinnsluvél. Restina af hráefninu er bætt við og öllu blandað saman þar til áferðin verður deigkennd. Myndið úr deiginu kúlur, veltið upp úr kókos og geymið í kæli.

 

Gulrótaköku orkukúlur

– 1 bolli kasjúhnetur

– ¾ bolli hafrar

– ½ bolli ferskar döðlur

– ½ bolli eplamauk án viðbætts sykurs (frá t.d. Himneskt )

– 35 g prótein duft (ég nota vanillu Vega prótein)

– ½ tsk kanill

– ¼ tsk múskat

– 1 rifin gulrót

– ½ bolli saxaðar pekan hnetur

1/3 bolli fínrifinn kókos

Kasjúhnetum, höfrum, döðlum, eplamauki, prótein dufti og kryddum (kanill og múskat) er blandað saman í matvinnsluvél. Pekan hnetum og rifinni gulrót er bætt við. Það tekur smá vinnu að blanda deigið saman, gott er að nota sleif annað slagið til að ná því niður veggina á matvinnsluvélinni. Útbúið kúlur úr deiginu og rúllið því upp úr kókosmjöli.

Geymið í kæli í a.m.k. 30 mín. svo að kúlurnar haldist vel saman.

 

 

Endilega látið mig vita hvað ykkur finnst ef þið prófið þessar uppskriftir!

Þar til næst.

 

Author Profile

Amanda

Amanda er vegan stelpa sem starfar sem lyfjafræðingur og elskar að borða góðan mat. Áhugamál eru eldamennska, hreyfing, heimilið, sanngjörn tíska (fyrir dýr og menn), umhverfisvernd og ýmislegt tengt lífsstíl.


Facebook Comments