Of góð vara?

Of góð vara?

Nú er ég týpan sem læt litlu hlutina fara óstjórnlega í taugarnar á mér og tuða óspart um eitthvað sem skiptir ekki máli (svona í lífinu almennt). Eitt slíkt dæmi er að þegar ég finn vörur sem eru mér að skapi, finnst mér þær undantekningarlaust hætta í framleiðslu. Þetta er gersamlega óþolandi, svo er það líka þegar þær hætta ekki í framleiðslu en það er jafn mikil vinna og að komast í grunnbúðir Everest að finna út hvar þær fást. Iðulega enda ég í Kaupfélagi Skagfirðinga eða einhvers staðar á álíka afskekktum stað klyfjuð af góssi sem ég hef leitað að lengi. 

Mig langar samt að byrja á því að hrósa Toro sem gerði t.d. þau stórfenglegu mistök að hætta að framleiða Púrrulaukssúpuna en sá svo að sér og hlustaði á reiða neytendur og komu henni í sölu aftur!

Það þekkja allir þetta með bláan ópal, Tomma og Jenna svalann, Piparpúkana (nei þessir nýju eru engan veginn það sama!) og Skólajógúrtina. En ég ákvað að taka saman smá lista yfir það sem fer í taugarnar á mér að fáist ekki lengur eða fáist ekki lengur í Bónus sem er mín alfaraleið og mér finnst að allt sem ég kaupi reglulega ætti að fást þar!

Teint Rénergie Lift frá Lancome

Þessi farði er hinn fullkomni farði, vitaskuld er hann ófáanlegur með öllu. Ég hef sleikt inn úr umbúðunum hverja einustu ögn og eyði nú lífinu í að finna eitthvað annað sambærilegt. 

Alberto Balsam – Pomegranate

Granatepla útgáfan af þessari hárnæringu (bleika týpan í miðjunni) virkar betur á hárið á mér en fínustu dýrustu vörur af hárgreiðslu stofu. Ég hef prófað allt og einhvern veginn sýndi reynslan mér að ódýrasta hárnæringin í Bónus virkaði alltaf best. Skemmst er frá því að segja að allar týpurnar af þessu fást enn, bara ekki þessi sem ég fílaði.

Batiste – Þurrsjampó

Besta þurrsjampó sem ég hef notað er svipað og hárnæringin áðurnefnda, ódýrt úr Boots upphaflega og kom svo síðar meir í helstu verslanir – Neibb of mikil snilld fyrir ljóshærða og framleiðendur hafa tekið þá fáránlegu ákvörðun að hætt að framleiða þetta fyrir eðlilegt ljóst hár og skipta yfir í þurrsjampó fyrri gult hár. Nú er hægt að fá gulan brúsa sem svipar til þessa gamla en er alls ekki að gera neitt fyrir mitt minna gula ljósa hár!

Euroshopper mýkingarefnið 

MYND EKKI TIL !

Ég nota almennt ekki mýkingarefni því mér finnst óþolandi þegar fólk er eins og gangandi ilmspjöld á götum bæjarins… eða við hliðina á þér í strætó. Aftur á móti fann ég hið fullkomna mýkingarefni sem rétt gaf svona svipað fríska lykt og mér finnst vera af þvottinum sem mamma hefur þurrkað úti á snúru (já mamma mín er mesti útiþurrkari sem ég hef kynnst enda er hægt að rota fólk með handklæðunum hennar). Sem sagt það kom rétt bara svona smáá frísklegri lykt af þvottinum sem þú fannst samt bara ef þú sniffaðir þvottinn vel. Þetta var gula Euroshopper mýkingarefnið. Það hætti að fást svo ég sætti mig við það bláa sem fékkst í einhvern tíma í viðbót. Í dag er ekki einu sinni hægt að finna mynd af þessari vöru á alnetinu.

 

Þá komum við að því sem enn er framleitt en fæst hvergi!

Pure ananassafi

Þessi drykkur er dásamlegur, bara kreistur ananas – EKKI úr þykkni. Hollari kostur en þykknissullið sem alls staðar fæst. Fyrir ekki svo löngu fengust epla, appelsínu og ananas bragðtegundirnar í helstu verslunum Bónus. Svo hættu þeir með ananassafann (vitanlega því hann var bestur) en héldu áfram með hina tvo. Ákváðu svo bara að hætta alveg með þetta. Jæja undirrituð hélt þá alltaf í sérstaka ferð í Nettó til þess að festa kaup á þessum safa, skömmu síðar gerist sama. Bara til epla og appelsínu og síðar bara finnst hann hvergi. Nú þarf ég að borga með sál minni OG keyra í Fjarðarkaup til þess að fá þennan safa, ég bý í Bústaðarhverfi!

Head and shoulders – hairfall defence

Allt í einu hurfu þessir brúsar úr hillunum í Bónus – Ég bölvaði því þegar ryksugan mín og niðurfallið í baðinu fóru að finna fyrir skortinum á þessari hárlosvörn (sem er sú besta sem ég hef fundið hingað til). EN ég er glöggur viðskiptavinur, á svipuðum tíma kom ég auga á svipaðar umbúðir sem á stóð hairfall defence en það var KARLASJAMPÓ. Þannig að ég kaupi sem sagt sama sjampóið núna nema það virðist vera einungis ætlað hárlosi karlmanna.

Rauðu saltstangirnar

Þær eru bara lang bestar og fengust alltaf í Bónus! Nú hefur Bónus ákveðið að selja bara saltstangirnar frá OLW sem eru mun minna vandaðar og molna áður en maður nær að troða þeim upp í sig. Bónus selur samt saltkringlurnar frá þessum sama framleiðanda svo ég skil ekki af hverju þessar mega ekki fást áfram. Nú þarf ég alltaf að fara í Nettó eða Hagkaup sér ferð til þess að kaupa saltstangir.

Vanillu heimilsilmurinn minn

Ég keypti alltaf þessa græju hérna á myndinni sem gefur góða lykt fyrir heimilið. Í Bónus var hægt að fá margar týpur; appelsínu, jarðarberja, berjablöndu, lavender (sem er reyndar lykt frá djöflinum að mínu mati), epla og alls konar. Núna er bara til berjablanda og lavender í boði! Reyndar fyrir slysni fann ég þessa af vanillugerðinni í Iceland glæsibæ og borgaði eflaust fimmþúsundkall fyrir eitt stk og að sjálfsögðu fæst þetta líka í Fjarðarkaup!

Corn Pops

Þetta er gamalt og pínu eins og skólajógúrtin en það er sama, þetta er ekki hætt í framleiðslu og fæst í Ameríkuhreppi síðast þegar ég tékkaði. Þetta er það allra besta morgunkorn sem ég hef smakkað og ég vil getað keypt þetta í Bónus – Myndi reyndar alveg leggja á mig ferð í Fjarðarkaup eða jafnvel Kaupfélag Skagfirðinga fyrir pakka af þessu!

Að lokum má svo nefna að það er líka óþolandi að sumt fáist bara ekki á Íslandi – ég þarf til dæmis að fara alla leið í Ameríkuna til þess að kaupa mér svitalyktareyðinn sem er sá eini sem mér þóknast og til Bretlands að kaupa mér sturtusápu! 

 

Tuðfríður kveður að sinni og ég vil alveg endilega fá að heyra frá ykkur ef þið hafið verið að lenda í svipuðu með ykkar uppáhalds vörur.

 

Author Profile

Selma

Selma er 27 ára móðir frá Húsavík. Búsett í Reykjavík ásamt syni sínum Val Frey (2017). Hún er með Ba. próf í almennum málvísindum og leggur nú frekari stund á nám í íslensku við Háskóla Íslands. Áhuginn liggur í flestu tengdu Íslandi og íslensku en einnig öllu sem viðkemur móðurhlutverkinu, heimilinu, lífsstíl, þrifum, skipulagi og svo mörgu öðru.


Facebook Comments

Share: