Nokkur lítil skref fyrir umhverfið

Nokkur lítil skref fyrir umhverfið

*Færslan er ekki kostuð á neinn hátt*

Það er þó nokkuð síðan ég fór að huga að því hvað ég gæti gert til að bæta umhverfið – eða í sannleika sagt: skemma það minna. Ég hóf nokkur lítil skref sem urðu fleiri með tímanum en eftir að ég fór að kynna mér tískuiðnaðinn og umhverfisáhrif hans (sjá blogg hér) fór ég að íhuga alla þætti mun betur.

Mig langaði því að kynna fyrir ykkur nokkur lítil skref sem hægt er að tileinka sér til að minnka slæm áhrif okkar á umhverfið, sumt af þessu er ég nú þegar að gera, sumt er í vinnslu og sumu langar mig að bæta við í rútínuna mína. Munið bara að enginn þarf að vera fullkominn og allir geta lagt sitt af mörkum.

Minnka plastnotkun

Það er ansi margt hægt að gera til þess að minnka plastnotkun en plast er orðið gríðarlega mikið vandamál í heiminum. Sumt plast er hægt að endurvinna en sumt ekki, og tekur það gríðarlega langan tíma að brotna niður í umhverfinu. Sem dæmi er talið að plastpokar sem við kaupum undir vörurnar okkar út í búð séu 10-1000 ár að brotna niður í umhverfinu (fer líklegast eftir tegund plasts og aðstæðum). Plastflöskur eru enn lengur að brotna niður. Það er einnig orðið þekkt vandamál að plastið rati í sjóinn okkar þar sem það veldur spjöllum á dýralífi.

Fjölnota pokar

Þetta er ansi þekkt ráð og er gaman að sjá hversu margir eru farnir að nýta sér það. Ég á þó nokkuð af fjölnota pokum því já, stundum gleymir maður að taka þá með í búðina og hafa því nokkrir ratað heim í kjölfarið. Það er líka allt í lagi að hann gleymist stundum, haltu áfram að reyna því þetta kemur með vananum. Mér finnst það haldast í hendur að ef ég er fyrir fram búin að ákveða að fara í búðina (geri aðal innkaupin einu sinni í viku) þá man ég frekar eftir því að fara með poka. Einnig geymi ég einn poka í bílnum fyrir skyndikaup. Stundum gerist það að ég skrepp í búð að kaupa smávegis og gleymi að taka poka en þá reyni ég að fremsta megni að sleppa þessum litlu glæru plastpokum. Ef þú sérð einhvern kjána staulast úr Krónunni með fangið fullt af vörum þá var það mögulega ég, sem gleymdi poka.

Nota viðarefni/plöntuefni í staðin fyrir plast

Í dag er úrvalið að aukast af umhverfisvænni útgáfum af hlutum sem við notum í okkar daglega lífi. Má þar nefna að hægt er að versla viðarbursta í uppvaskið (t.d. á mena.is og í Söstrene grene) í staðin fyrir plastburstann sem allir kannast við. Flestir burstarnir eru einnig þannig gerðir að hægt er að taka hausinn af þegar hann er orðinn þreyttur og kaupa á hann nýjan svo skaftið nýtist áfram.

Bambus tannbursta er núna hægt að fá í ýmsum verslunum og nýverið t.d. í apótekum. Flest tannlæknasamtök mæla með því að tannburstanum sé skipt út á 3-4 mánaða fresti, spáið í því hversu mikið plast fer í ruslið fyrir hvern einstakling sem fylgir þessari reglu.

 

Vörur sem fást á mena.is

Önnur ráð

  • Sápustykki í staðin fyrir sápu í pumpur og brúsa. Mjög auðvelt er að skipta sápupumpunni út fyrir sápustykki en nú eru fyrirtæki eins og Grænviska, vistvera.is og mena.is farin að selja shampó og hárnæringu í stykkjaformi svo þú sleppir við plastbrúsann. Einnig eru þessar síður farnar að selja umhverfisvæn þvottaefni eins og t.d. sápuhnetur (e. Soap nuts).
  • Kaupa óplastað grænmeti. Ég reyni eftir fremsta megni að velja frekar óplastað grænmeti í verslunum en það getur þó verið erfitt. Lágvöruverslanir hafa ekki verið að standa sig í þessu og er mikið af grænmetinu sem ég nota í plasti (Bónus og Krónan, þið megið taka þetta til ykkar). Til eru verslanir sem minna á bændamarkað (e. Farmers market) þar sem hægt er að fá mikið af óplöstuðu grænmeti svo sem Rabbar barinn (sem staðsettur er á Hlemmi og nú nýlega á Granda mathöll), Bændur í bænum á Grensásvegi og Frú Laugu. Einnig er hægt að finna meira úrval af plastlausu grænmeti í aðeins dýrari matvöruverslunum svo sem Nettó, Hagkaup, Víði og Fjarðarkaup og mun ég reyna að versla frekar grænmeti þaðan. Ég skora þó eindregið á lágvöruverslanir að leggja sitt af mörkum.
  • Afþakkið plaströr á skemmtistöðum og veitingastöðum (margir staðir eru þó farnir að skipta plaströrunum út fyrir pappa), notið fjölnota heima hjá ykkur eða jafnvel takið þau með ef rör er nauðsyn. Fjölnota stálrör fást í ýmsum verslunum svo sem Kokku, Vistveru og Verkfæralagernum.
  • Mætið með ykkar eigin box undir take-away mat, t.d. á Gló, Saffran eða Serrano þar sem maturinn fer hvort sem er í box (ég hef enn ekki prófað þetta skref en ég ætla að gera það, ég lofa!).
  • Takið með ykkur fjölnota bolla á kaffihúsið ef þið ætlið að taka hann með (Kaffitár gefur t.d. afslátt ef þú mætir með eigin bolla/mál). Einnig mæli ég með að vera alltaf með fjölnota vatnsbrúsa á þér fyrir vatn, ég er með einn heima og einn í vinnunni.
  • Minnka tyggjó notkun. Það rann á mig tvær grímur þegar ég áttaði mig á þessu. Tyggigúmmí er auðvitað unnið úr plasti sem brotnar ekki niður í umhverfinu. Ég nota tyggigúmmí mikið þar sem ég þoli ekki eftirbragðið sem kemur í munninn eftir að hafa borðað. Erlendis hafa nokkrar tegundir verið framleiddar sem eiga að vera umhverfisvænni en ég hef ekki séð að slíkt sé til hér á landi. Ég ætla því að fara í það ferli að venja mig á að nota mintur í staðin.
  • Eyrnapinnar án plasts. Hægt er að fá eyrnapinna með viðarpinna í stað plasts á graenviska.is (hér) og fleiri stöðum. Litlu skrefin krakkar!
  • Nota fjölnota taubleyjur í staðin fyrir plastbleyjur. Ok, ég er ekki mamma þannig ég get lítið tjáð mig um þennan lið en ég dáist af fólki sem notar taubleyjur og jafnvel þó þú notir þær bara heima en ert með plastbleyjur í skiptitöskunni, þá breytir það miklu

Lífrænn og fjölnota bómull

Bómullarplantan er gífurlega mikið notuð í dag en helstu kostir þess er að efnið er niðurbrjótanlegt og endurvinnanlegt. Það er þónokkur vinna sem fer í að rækta bómullarplöntuna og telur WWF (World Wildlife Fund) að það fari um 20.000 L af vatni í að rækta 1kg af bómull. Einnig er í flestum tilfellum notað skordýraeitur á plönturnar sem er bæði skaðlegt umhverfinu og starfsfólkinu. Með því að velja lífrænan bómull í fatnaði er sneitt fram hjá skordýraeitrinu og oftast felur það í sér sanngjarnari vinnubrögð fyrir starfsfólkið.

 

Ýmsar leiðir eru til þess að minnka bómullarnotkun en ég er í því ferli að fara að skipta út einnota bómullarskífum fyrir fjölnota. Slíkt fæst m.a. í Lín design, mena.is og graenviska.is en einnig hef ég séð einstaklinga sem sauma eða hekla bómullarskífur og selja á Facebook. Ég var að versla mér litla netpoka í Rúmfatalagernum undir skífurnar en mælt er með að þvo þær í þvottavél í slíkum pokum. Ef þið rekist á verslanir sem selja flíkur úr endurunnum bómull þá er það líka stór kostur en ég sá eitthvað um það á netinu þegar ég var í leit að verslunum sem stuðla að sanngjörnum viðskiptum.

 

Versla notuð föt

Þetta er ráð sem er svo fullkomlega rökrétt. Ónotaðar flíkur um allan heim eru að fylla upp svæði þar sem rusli er kastað (e. Landfills) en mikið af fatnaði brotnar ekki niður í náttúrunni (margt er t.d. búið til úr plastefnum eins og polyester). Með því að versla notuð föt þá ertu að gefa flík annað líf, aukið notagildi og heldur því lengur frá því að enda í ruslahaug einhvers staðar í náttúrunni. Annar kostur við að versla slíka vöru er að þú ert ekki að kosta ósanngjörn viðskipti þar sem búið er að útbúa og kaupa vöruna einu sinni, í staðin fyrir að kaupa t.d. nýja vöru sem er mögulega ekki að stuðla að sanngirni og öryggi starfsmanna sinna. Einnig má nefna að þó að ég kaupi ekki dýraafurðir þá eru auðvitað margir sem vilja leður og feld fram yfir annað og myndi það gera heilmikið að versla þá frekar slíkt notað, þar sem ekki þarf þá að flá ný dýr fyrir pelsinn né er verið að auka eftirspurn vörunnar. Auk þess ef þú verslar við t.d. Rauða krossinn ertu í leiðinni að styrkja gott málefni. Rauði krossinn þiggur allan textíl, hvort sem það er fatnaður, rúmföt eða tuskur.

Ég viðurkenni fúslega að ég hef ekki verið að stunda þetta skref í langan tíma. Ímynd mín af „second hand“ verslunum er svolítið þannig að þú labbar inn í illa lyktandi verslun þar sem erfitt er að finna nokkuð. Eitt sinn labbaði ég inn í Rauða Kross verslun og við mér blasti refahaus sem var áfastur við pels. Mér finnst dýrafeldur í fatnaði eða öðru meira en lítið óþægilegt, en hausinn með, nei nei nei. Þetta jaðrar við fóbíu hjá mér, ég er mjög hrædd við þetta og hljóp ég út öskrandi (halló drama queen!). Mögulega eitt af vandræðalegustu mómentum lífs míns en svona er ég bara.

Ég ætla samt sem áður að taka mig á og gefa þessum búðum annan séns (auðvitað má einnig nefna fleiri verslanir eins og Spútnik) en hægt er að lýta á þetta sem hálfgerða fjársjóðsleit. Þú finnur ekki alltaf það sem þú leitar að en hversu gefandi hlýtur það að vera þegar þú finnur réttu flíkina. Mig langar í fallega og góða kápu í dökkum lit fyrir haustið, og ætla að gera það að verkefni mínu að reyna að versla hana notaða.

Ef þú ert alls ekki fyrir svona búðir þá skaltu ekki örvænta. Facebook kemur til bjargar en ég notaði fatasölusíður á Facebook mikið þegar ég var blankur námsmaður. Ég byrjaði að æfa mikið á þeim tíma sem ég var í háskóla og vantaði alveg íþróttaföt. Það var ekki séns að ég tímdi að versla slíkt á fullu verði og varð ég mér úti um margt sniðugt á sölusíðum Facebook.

Fyrir barnafjölskyldur má nefna Barnaloppuna sem opnaði í skeifunni nýlega. Þar er hægt að leigja bás og selja notuð barnaföt, leikföng, kerrur og fleira. Mér finnst þetta algjör snilld þar sem þetta hvetur fólk til að gera eitthvað við gömlu fötin sem liggja ónotuð í skúffu, og aðrir geta gert góð kaup á umhverfisvænan hátt. Þetta myndi klárlega hvetja mig áfram til þess að kaupa vandaðar flíkur úr umhverfisvænni efnum, vitandi að auðvelt er að selja flíkurnar áfram þegar barnið passar ekki lengur í þau, eða jú versla slíkar flíkur notaðar.

Ég vil einnig vekja athygli á nýrri second hand verslun sem heitir Wasteland Reykajvík en ég fagna alltaf aukningu í second hand flóruna.

 

 

Veljið flíkurnar vel

Ef þú ert alls ekki á því að kaupa notuð föt, eða vilt kaupa þér eitthvað nýtt, þá er það minnsta mál. Ef þú verslar minna nýtt en velur í stað þess flíkurnar af kostgæfni, flíkur sem þú ert virkilega ánægð/ur með og telur að muni henta í langan tíma, þá er það frábært! Enn betra er ef þú finnur flíkur sem eru úr endurunnum efnum, lífrænum bómul eða undan fyrirtæki sem er einnig að gera sitt til þess að minnka kolefnisspor sín á einhvern hátt. Þetta vinnur allt saman (ýmis slík merki fást á ethic.is og í Org-Reykjavík).

 

Minnka neyslu á kjöti og dýraafurðum

Okei, ég var búin að ákveða að þegar ég byrjaði að blogga á Öskubusku myndi ég ekki vera með beinan aktivisma varðandi þetta málefni enda mjög blandað blogg. Það er þó margsinnis búið að sýna fram á hversu óumhverfisvænn eldisdýraiðnaðurinn er og því væri kjánalegt af mér að sleppa þessu á listanum til að forðast gagnrýni. Meðal annars má nefna að mun meira af gróðurlandi fer undir kornræktun í fóður fyrir eldissdýr en ef við myndum einfaldlega nýta afurðirnar sjálf, auk þess sem mikil orka og vatn fer í eldisræktunina. Einnig mengar eldisdýraiðnaðurinn meira en allar samgöngur heims samanlagt. Mér finnst það segja töluvert.

Ég ekki að segja að þú þurfir að gerast vegan á einni nóttu enda heitir listinn nokkur lítil skref. Það er t.d. hægt að byrja með „Meat free Monday“ hefð á heimilinu, eða byrja að skipta út einni máltíð á dag (t.d. millimáli) fyrir grænni útgáfu. Ég geri ráð fyrir því að setja inn blogg með hugmyndum af millimálum seinna.

 

Flokka rusl

Ég er með flokkunarfötur í stórri skúffu í eldhúsinu mínu sem ég keypti í IKEA (þær heita Variera) en það er hægt að fá ýmar stærðir til að raða saman að vild. Ég flokka því plast og pappa frá öðru rusli. Einnig erum við með svona tunnu frá IKEA inni í eldhúsinu undir plastflöskur og áldósir sem fara að sjálfsögðu í endurvinnslu.
Þegar maður fer að flokka ruslið svona finnur maður enn betur hversu mikið plast er keypt inn á heimilið og þykir mér það hvetjandi að reyna að versla minna af því. Stigangurinn minn er með bláa tunnu sem bæði plast má fara í og mæli ég eindregið með því að benda á slíkt á húsfundi ef þú býrð í fjölbýli sem skortir slíkt.
Auðvelt er að endurvinna gler með því að láta bræða það, en ef því er hent í ruslið þar sem það endar mögulega á haugum, brotnar það enn hægar niður en plastið. Því væri sterkur leikur að geyma allt gler og fara með í endurvinnsluna á sama tíma og t.d. flöskurnar (þú getur bara fengið pening fyrir drykkjarílát en það má samt sem áður endurvinna allt gler). Ég endurnýti glerkrukkur undir fræ, hnetur, baunir og fleira sem ég geymi í hjólaborði í eldhúsinu. Þá sé ég alltaf hvað ég á til og þarf að muna að nota.

 

Ég vona að þið hafið haft gaman af að lesa þennan pistil og þessi ráð gagnist vel, við höfum jú bara eina jörð sem ber að hugsa vel um. Eins og ég nefndi þarf enginn að vera fullkominn og versla bara notað eða kaupa ekkert sem er í plasti. Litlu skrefin skipta miklu máli því margt lítið gerir eitt stórt. Þið getið byrjað á einu skrefi í einu og þegar það skref er orðið að vana er hægt að bæta öðru við.

 

Þar til næst!

Author Profile

Amanda

Amanda er vegan stelpa sem starfar sem lyfjafræðingur og elskar að borða góðan mat. Áhugamál eru eldamennska, hreyfing, heimilið, sanngjörn tíska (fyrir dýr og menn), umhverfisvernd og ýmislegt tengt lífsstíl.


Facebook Comments