Metingur milli mæðra

Flestar konur nú til dags sem verða óléttar, ganga í svokallaða “mömmuhópa”. Þar leita þær eftir stuðningi og að deila reynslu og tilfinningum með konum sem eru á sama stað og þær. Ég var í svona mánaðar hóp (sem sagt bara með konum sem voru settar í sama mánuði og ég) með Hólmgeir Loga, og Huldu Maríu og mér fannst voðalega notalegt að geta leitað til hópsins ef eitthvað bjátaði á, mig vantaði ráðleggingar eða til að deila gleði og tárum meðgöngunnar.

Svo eru öðruvísi mömmuhópar, stærri hópar og þeir saman standa af allskonar mæðrum á öllum aldri. Þeir hópar eru yfirleitt stærri og meiri, sem veldur því að það eru fleiri hundruðir kvenna til að hjálpa þér ef þú veist ekki hvernig þú nærð mjólkurkúk úr samfellu eða jafnvel bara hvað þú átt að gefa makanum þínum í afmælisgjöf. Trúið mér, ég hef séð flestar spurningarnar poppa upp í þessum hópum. Og mér finnst frábært hvað flestar af þessum konum eru yndislegar og allar af vilja gerðar til að hjálpa.

En með komu allra þessara hópa, blogga og snapchatta er eitt sem hefur gleymst. Eitt sem hefur týnst í allri þessari þvögu og er ástæða fyrir því að ég ákvað að hætta í flestum af þessum hópum. Og það er metingur á milli mæðra, hann er falinn – inn á milli “ráða” og ábendinga um hitt og þetta en hann er þarna, lúmskur og hann skríður aftan í hausinn á þér og segir þér að þú eigir að gera þetta, þú þurfir að kaupa þetta. Og þetta byrjar á meðgöngu, þetta byrjar með hver fær fyrst bumbu, hver finnur fyrsta sparkið eða hver kaupir allt glænýtt og þróast yfir í fyrsta brosið, fyrstu veltuna og ég gæti endalaust haldið áfram að telja. Það eru ekki allar mæður svona – ég er ekki að alhæfa. En þetta er yfirgnæfandi. Þetta setur óraunhæfar kröfur fyrir nýjar mæður sem finnst þær þurfa að gera allt rétt, þurfa að vera fullkomnar, að börnin þeirra þurfi að vera fullkomin og helst byrjuð að labba 7 mánaða í nýju fínu merkjaskónum sínum (þó það sé efni í annað blogg, skófatnaður á börn). Fyrir mömmur til dæmis sem eru að eiga sitt fyrsta barn að finnast þær þurfa að uppfylla einhvern “standard” er útí hött þegar þær og við allar erum bara að gera okkar besta með það sem við höfum að vinna. Og þetta er ekki bara metingur með börnin okkar, heldur maka, heimilið og okkur sjálfar.

at-the-end-of-the-day-you-control-your-own-happiness-quote-1

Staðreyndin er sú að við erum á öllum aldri, og öllum stigum þjóðfélagsins. Það er óraunhæft að láta ungum konum sem eru að læra inná þetta nýja hlutverk, og kannski í skóla eða vinnu með, líða eins og þær þurfi að gera meira, vera meira. Það hefur til langs tíma mjög vondar afleiðingar. Auðvitað er drauma staða að hafa allt hreint, þvottakörfuna tóma – börnin alltaf í hreinum fínum fötum og þú alltaf með fínt greitt hár í buxum sem eru ekki öll útí ælu eða slefi, en það er ekki alltaf raunhæft. Svona hlutir gerast, alveg eins og dagurinn endar og nóttin kemur. Og það er allt í lagi, það er allt í lagi þó að þú eigir ekki allt úr nýjustu línunni hjá Ígló og Indí eða að það sé ennþá uppvask í vaskinum. Það gerir þig ekki að minni eða verri mömmu en þessi í næsta húsi sem á Michael Kors veski og barn sem horfir ekki einu sinni á drullupollana, meðan þú horfir útum gluggann með kaffibollann í hendinni og 2 daga gamalt mombun, á barnið þitt velta sér uppúr drullupollinum ekki í pollagalla – þó þú hafir sagt því 7 sinnum að fara í pollagalla eða jafn vel slegist við barnið að reyna að koma því í, en hreinlega tapað.

Það er alltaf talað um að börn séu mismunandi, þau gera hlutina á sínum hraða og þau eru jafn misjöfn og þau eru mörg. Við foreldrarnir erum ekkert öðruvísi. Þó það sé oftast hreint og fínt heima hjá mér (það er ekki erfitt að halda 35fm hreinum þegar þú ert í fæðingarorlofi og maðurinn þinn vinnur í burtu 5 daga vikunnar) þá vaknaði ég í morgun og fór í náttfötin mín, 2 daginn í röð – því ég er ekki að fara neitt og mér líður vel í náttfötunum mínum. Það myndi ekki virka fyrir suma, það myndi ekki gera suma hamingjusama. En ég þarf ekki að hafa áhyggjur af þeim. Ég þarf að hafa áhyggjur af mér og hvað gerir mig hamingjusama. Hamingjan er ekki Ittala vasinn sem þú kaupir í Líf og List, heldur eitthvað sem þú finnur innra með þér. Ef þú ert fyllilega hamingjusöm og kaupir Ittala vasa til að hafa á eldhúsborðinu þá er það geggjað og ég mæli með því, sumir vasarnir eru gullfallegir.

Hugsum um okkur og okkar hamingju, hvað gerir okkur hamingjusamar – ekki vera að velta okkur endalaust upp úr öðrum. Við erum allar nógu góðar, við erum allar nógu duglegar og sterkar.

Við erum allar nóg.
Þangað til næst.

ingibjorg

Author Profile

Ingibjörg Eyfjörð

Ingibjörg Eyfjörð er búsett í Mývatnssveit ásamt fjölskyldu sinni. Hún hefur óbilandi áhuga á heimilinu (nema þrifum, hún er með bráðaofnæmi fyrir þeim), förðun og öllu sem er aðeins út fyrir kassann. Skrif hennar einkennast af hreinskilni, kímnigáfu og harkalegum staðreyndum um hið daglega líf.


Facebook Comments

Share:

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *