Mamma september mánaðar

image11
Mamma september mánaðar að þessu sinni er hún Sigríður Ása.
Segðu okkur aðeins frá þér og fjölskyldunni.
Ég er móðir þriggja yndislegra drengja sem eru Frosti Blær 1 og hálfs árs, Jökull Sigurður 3 ára og Elías Bjarnar 12 ára. Elías flutti til föður síns og fjölskyldu fyrir norðan þar seinustu áramót en kemur mjög reglulega suður til mín en ég og yngri drengirnir mínir búum saman á stúdentagörðunum í Reykjavík. Ég er 30 ára og ólst upp í Borgarnesi og síðar í litlum bæ í Noregi, Molde áður en ég hóf menntaskólagöngu og flutti þá aftur til Íslands.
image7
Við hvað vinnurðu eða ertu í skóla/fæðingarorlofi?
Ég byrjaði að læra félagsráðgjöf við Háskóla Íslands haustið 2014 þá komin 38 vikur á leið af miðju stráknum mínum. Kláraði þá fulla önn þrátt fyrir allskyns óvæntar uppákomur eins og t.d að skaðast á rófubeini í fæðingu sonar míns og þess má til gamans geta að ég tók fyrsta prófið mitt á háskólastigi standandi þar sem ég gat ekki setið sökum verkja. Eftir það hef ég tekið námið í pörtum samhliða meðgöngu og fæðingarorlofi yngsta sonar míns sem fæddist heima á stúdentagörðunum í mars 2016. Í sumar bauðst mér svo það skemmtilega tækifæri að taka sjóréttindi sem var ótrúlega skemmtilegt, sérstaklega fyrir adrenalín fíkil eins og mig þar sem ég var hýfð upp í þyrlu úr sjónum á seinasta deginum mínum þar. Framtíðin mín gæti því tekið misjafnar stefnur, félagsráðgjafi eða sjómaður. Hugsa að ég haldi mig nú samt við félagsráðgjöfina eins og er enda hef ég brennandi áhuga á félagslegum málefnum hvað þá í landi þar sem úrbætur eru þurfi á mörgum stöðum í samfélaginu okkar og vil ég vera partur af breytingum til hins betra. Sérstaklega þegar kemur að geðheilbrigði, aðstoð og stuðning við foreldra og í rauninni flest öll málefni er varða þá sem hallar að í samfélaginu.
image1
Hvað kom þér mest á óvart við móður hlutverkið?
Það sem kom mér mest á óvart er hversu auðvelt það er að hafa ákveðnar og fyrirfram mótaðar skoðanir um foreldrahlutverkið og það hvernig það er að vera uppalandi þar til maður verður sjálfur foreldri. Þá fjúka oft allskyns hugmyndir og viðhorf út um gluggann. Eins og t.d það að ætla aldrei að gefa barninu sínu unnar matvörur, sykur eða ekkert sjónvarpsgláp fyrstu árin er eitthvað sem er erfitt að standa við þegar maður er svo staddur í raunverulegum aðstæðum. Sérstaklega þar sem aðstæður hjá manni geta breyst og sem einstætt foreldri er stundum nauðsynlegt að nýta sér hluti eins og sjónvarp til þess að geta haft ofan af fyrir börnunum þegar maður eldar matinn þar sem enginn annar fullorðinn er til þess að taka við af manni eða veita aðstoð. Aðstæður okkar sem foreldrar geta alltaf breyst og finnst mér því mikilvægt að láta af skömm og sjálfsásökunum þegar kemur að uppeldi barna. Það að vita að aðstæður okkar eru allar misjafnar og við treystum því að við erum að gera okkar besta miðað við getu hverju sinni er nóg. Þetta þarf ég sérstaklega að minna mig á sem einstætt foreldri þriggja barna og taka mið af dagsforminu hverju sinni. Ég reyni að tileinka mér að allt sé gott í hófi og að eiga jákvæð og falleg samskipti við börnin mín, þó ég geti sko alveg orðið pirruð og misst kúlið líka eins og ég held að flestir foreldrar upplifa inná milli. Aðalatriðið er að ég sé til staðar fyrir börnin mín í gegnum alla erfiða tíma jafns við þá góðu.
image5
Hvað hefurðu lært um sjálfan þig síðan þú varðst mamma?
Það sem ég hef lært um sjálfan mig síðan ég varð móðir er svo ótrúlega margt. Ég hef lært að sýna meiri þolinmæði, ég hef lært að líta innávið, bera ábyrgð á sjálfri mér og mínum tilfinningum og að það er allt í lagi að vera ekki alltaf 100%. Það er allt í lagi að mistakast á meðan maður lærir af því, það koma stundum tímabil sem eru fáránlega erfið og krefjandi en í stað þess að líta á það neikvæðum augum reyni ég að líta á það sem tækifæri til að gera betur og vinna mig út úr aðstæðunum með þeim verkfærum sem mér hafa áskotnast í gegnum lífið.

Uppáhalds mömmu móment (sem er ekki fæðing barnsins/barnanna)?
Uppáhalds mömmumómentin mín eru svo mörg en ég held að það sem sitji alltaf svoldið fast í minningunni er þegar elsti sonur minn og miðjustrákurinn minn sögðu við mig í fyrsta skipti af eigin frumkvæði, ég elska þig mamma, mjög mikið. Tilfinningin sem maður fær á slíku augnabliki er ómetanleg, svoldið eins og að uppskera því sem maður sáði, að öll vinnan, andvökunætur, veikindi og aðrir krefjandi tímar sem maður hefur gengið í gegnum  með börnunum sínum eru allt í einu svo innilega þess virði og maður er tilbúin að takast á við meira.

image13

Hvað finnst þér mikilvægt að huga að eftir barneignir þegar viðkemur sjálfri þér?

Mér finnst mikilvægt að hlúa vel að sjálfum sér og finna alltaf tíma fyrir sig. Með því móti nær maður að fylla á orku tankinn sinn og verða betri útgáfa af manni sjálfum sem gerir okkur kleift að vera betri foreldrar fyrir vikið. Svo geta komið upp allskyns erfiðleikar sem maður gerði sèr ekki grein fyrir áður en maður eignast barn. Það að hugsa um lítinn einstakling, þetta litla líf sem maður skapaði og bjó til er ótrúlega mikil vinna og krefjandi en það er einnig svo innilega gefandi. Maður verður að leyfa sèr að gera mistök og læra af þeim til þess að finna sína leið að jafnvægi milli umhyggju til sjálfs síns og umönnun barns.

Finnst þér næg fræðsla um alla þætti foreldrahlutverksins fyrir barneignir?
Mér finnst ekki vera næginlega mikil fræðsla til verðandi foreldra því miður og umræðan oft ekki alveg í takt við það sem koma skal þegar maður verður foreldri. Það er alltof algengur misskilningur að barneignir eigi að veita manni endalausa hamingju og gleði. Ekki misskilja, börnin okkar veita okkur auðvitað heilmikla gleði en það eru líka margir álagstengdir þættir sem fylgja barneignum sem gerir það að verkum að maður þarf að læra að lifa lífinu með nýjum einstakling sem maður á alveg eftir að kynnast og venjast auk þess að aðlaga lífinu sínu að þörfum barnsins. Einnig finnst mér að forvarnir og umræða um td. fæðingarþunglyndi og kvíða mætti vera miklu meiri og opnari sérstaklega um þá staðreynd að feður geta líka upplifað fæðingarþunglyndi. Það er ýmislegt sem mætti betrumbæta í þessum efnum og oft virðist það stoppa þegar kemur að því litla fjármagni sem þessum hópi er veittur innan heilbrigðiskerfisins okkar. Vonandi sjáum við fljótt jákvæðar breytingar þar á og fjölskyldur geta farið að sækja sér stuðning og aðstoð á erfiðasta en jafnframt mikilvægasta tíma í lífi hverrar fjölskyldu, sem er gjarnan í kringum barneignir.
image6
Finnst þér þú fá nægan tíma með barninu/börnunum þínum?
Litlu drengirnir mínir Frosti Blær og Jökull Sigurður fara og dvelja hjá föður sínum aðra hverja viku og það er sá tími sem mér finnst hvað erfiðastur. Sérstaklega í ljósi þess að ég ákvað ekki að eignast börnin mín til þess eins að hitta þau bara aðra hverja viku en hlutirnir fóru því miður þá leið þar sem það slitnaði upp úr sambandi mínu við barnsföður yngri drengjanna minna eftir langt álagstímabil. Ég þarf því bara að reyna að finna leið til þess að vera jákvæð og njóta enn frekar allra þeirra samverustunda sem ég fæ með öllum drengjunum mínum í staðinn. Þess á milli hleð ég batteríin til að takast á við þá hörku skemmtilegu vinnu sem það er að vera móðir þeirra.
Verslaru mikið á börnin þín hér eða erlendis og hvar þá?
Þar sem ég vil eftir bestu getu sýna umhverfi mínu virðingu þá reyni ég alltaf að nýta öll föt sem ég fæ gefins á strákana mína. Auðvitað er líka gaman að versla fötin sjálf en þá er það yfirleitt erlendis eða Lindex sem ég reyni að gera góð og hagstæð kaup. Ég er ekki mikil merkjatýpa en kann þó að meta fallega íslenska hönnun sem ég veit að er unnin af ást eins og t.d vinkona mín sem hannar og saumar undir merkinu Brák.
image10.jpg
Er eitthvað annað sem þú vilt deila með okkur?
Í kringum alþjóðlega geðheilbrigðisdaginn þann 10. október verður haldin vitundarvakning á málefnum sem varða fjölskyldur og stuðning við þær. Ber hún yfirskriftina fyrstu 1001 dagur í lífi hvers barns og er það tilvísun í tímabilið frá getnaði til 2 ára aldur barns og er byggð á stefnu frá Bretlandi. Er henni ætlað að veita þessum málaflokki meiri athygli og að þrýsta á að veitt sé aukið fjármagn frá hinu opinbera. Að mínu mati gefur það auga leið að aukinn stuðningur í þessum málaflokki stuðlar að bættri og öruggri tengslamyndun innan fjölskyldna sem leiðir af sèr sterkari og heilbrigðari einstaklinga sem skila sèr svo í samfèlagið okkar. Það er því augljóslega ávinningur fyrir samfèlagið í heild sinni að þessu sè sinnt og veitt meiri athygli en verið hefur. Þetta málefni er mèr mjög svo kært enda er èg svo heppin að vera partur af þessari vitundarvakningu sem talsmaður foreldra innan hópsins sem samanstendur af frábærum og metnaðurfullum fagaðilum sem vilja gera betur í þessum efnum. 1001 hópurinn er hópur fagfólks og foreldra sem er ótengdur stofnunum og fyrirtækjum. Hópurinn vinnur að því að vekja athygli á velferð barna frá getnaði til tveggja ára aldurs eða fyrsta 1001 daginn í lífi þeirra. Rannsóknir hafa sýnt að ef hægt er að vinna með og jafnvel koma í veg fyrir tilfinningaleg áföll á þessu tímabili aukast líkur á farsælum þroska og dregur það úr líkum á vandamálum síðar á lífsleiðinni. Hugmyndir 1001 hópsins ná þvert á alla innviði samfélagsins. Með því að huga vel að börnum og barnafjölskyldum í upphafi má koma í veg fyrir margskonar vandamál síðar á lífsleiðinni. Þessum vandamálum fylgir óhjákvæmilega mikill kostnaður fyrir samfélagið. Þessi kostnaður leggst á félagslega kerfið, menntakerfið og heilbrigðiskerfið. Nýjustu rannsóknir sýna jafnvel að tilfinningaleg áföll í bernsku auki líkur á hjartasúkdómum, offitu og sykursýki á fullorðinsárum. Má þar nefna ACE rannsóknina og það er einmitt verið að leggja grunn að því að gera þá rannsókn hér á landi. Með því að grípa inn strax í upphafi má koma í veg fyrir þennan kostnað. Þetta er því gríðarlega mikilvægt málefni sem snertir okkur öll og öll vinna við þennan málaflokk skilar sér margfalt tilbaka í samfélagið. Fyrir þá sem vilja kynna sér vitundarvakninguna frekar þá verður sett upp facebook síða fyrir málefnið en í millitíðinni bendi ég fólki á vefsíðuna www.1001criticaldays.co.uk þar sem má finna yfirlýsingu stefnunnar eins og hún er í Bretlandi.
cropped_logo

Author Profile

Ingibjörg Eyfjörð

Ingibjörg Eyfjörð er búsett í Mývatnssveit ásamt fjölskyldu sinni. Hún hefur óbilandi áhuga á heimilinu (nema þrifum, hún er með bráðaofnæmi fyrir þeim), förðun og öllu sem er aðeins út fyrir kassann. Skrif hennar einkennast af hreinskilni, kímnigáfu og harkalegum staðreyndum um hið daglega líf.


Facebook Comments

Share:

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *