Mamma nóvembermánaðar

Mamma nóvembermánaðar

Við þekkjum hana öll og elskum hana öll, gefum Gveigu okkar orðið:

Þú heitir? Guðrún Veiga

Hvað ertu gömul? 30ish

Hvaðan ertu? Eskifirði

Hvar býrðu? Laugardalnum

Hver er hjúskaparstaða þín? Sérstaklega vel gift

Hvenær varðst þú mamma? 9.júní 2007

Hvað áttu mörg börn? Alveg nógu mörg, ég á strák og stelpu – Val Elí 10 ára og Sigrúnu Þórdísi að verða 6 mánaða.

 

Hvernig finnst þér að vera mamma?
Stórmerkilegt og stórkostlegt. Og svolítið skelfilegt á köflum. Konur sem segjast elska móðurhlutverkið hverja sekúndu sólarhringsins eru að ljúga. Ég elska börnin mín meira en sælgæti, snyrtidót og jólaskraut – ég hef samt farið ótal sinnum að grenja yfir þeim verkefnum sem móðurhlutverkið hefur fært mér og íhugað að flytja búferlum í tjald úti í garð (ég gæti auðvitað aldrei farið of langt frá þeim). Eða fara á hótel í viku. Eða fjórar. (Grand Hótel er í næstu götu við mig).

Hvað er mesti plúsinn við mömmuhlutverkið?
Að eitt bros geti eytt minningunni um síðustu andvökunótt á núll einni. Æ, að kyssa litlar feitar kinnar eða spjalla við 10 ára spéfugl – mér finnst börnin mín auðvitað þau fallegustu og fyndnustu undir sólinni.
Það er líka stórgott að eiga börn þegar þú nennir ekki að mæta í afmæli, boð eða hvers kyns samkvæmi. ,,Æ, stelpan er lasin” – það er ekki nokkur maður að fara að véfengja það. Já, mér leiðast mannamót.

En mesti mínusinn?
Þegar fólk fer að sjá í gegnum það að þú notir börnin þín sífellt sem afsökun fyrir fjarveru þinni.

 

3

 

Hvað kom þér mest á óvart við að eiga barn/börn?
Hvað þú getur í raun vakað mikið án þess að deyja, dóttir mín var kveisubarn sem grét í sirka fjóra mánuði. Maðurinn minn er sjómaður. Ég var ein og alveg rosalega mikið vakandi (og skælandi og bölvandi) í yfir 100 daga. Oooog á jákvæðari nótunum þá hefði ég aldrei trúað hversu mikið það er hægt að elska tvo litla einstaklinga – það er í alvöru hægt að finna til úr ást. Ég vildi að ég gæti stungið þeim báðum í vasann og geymt þau þar, alltaf og gætt þeirra þannig. (Ég segi reyndar í daglegu tali að mér langi að skríða inn í blóðið á þeim svo ég sé alltaf hjá þeim – en það er sæmilega ógeðfellt þannig að ég læt það eiga sig núna).

Eitthvað sem þér finnst að mætti bæta fyrir verðandi mæður?
Fræðslu um eitthvað annað en brjóstagjöf, þó hún sé vissulega bráðnauðsynleg líka. Það er bara svo margt sem nýbökuð móðir gæti þurft að takast á við fyrstu mánuðina annað en brjóstabras. Kveisa, bakflæði, óþol, ofnæmi – já ég er búin að fara með dóttur mína í sirka 72 læknaheimsóknir síðustu mánuði og það er svo ótrúlega margt sem ég vissi ekki að gæti mögulega hrjáð glænýjan einstakling.
Það mætti vera miklu meiri fræðsla um þær krefjandi aðstæður sem þú gætir þurft að takast á við. Ertu til dæmis óeðlileg og jafnvel orðin snaróð þegar þig langar ekki lengur til þess að kyssa litla barnið þitt af því það er búið að gráta í marga daga og það eina sem kemst að í höfðinu á þér er bænin um að barnið þegi og þú getir aaaaaaðeins lokað augunum? Það er ofsalega skrýtið að upplifa þessar tilfinningar og ég man að þegar þetta var að hellast yfir mig hugsaði ég ,,nei, þetta er búið – ég er orðin svo þreytt að ég hlýt að vera komin í einhverskonar geðrof, hverjum langar ekki að kyssa agnarsmáa barnið sitt?”
Það eru ofsalega margar tilfinningar sem þú tekst á við í svona aðstæðum sem þú hreinlega skilur ekki upp né niður í eða áttar þig á hvort séu eðlilegar eður ei – af því að það er skammarlega lítið rætt eða frætt um svona hluti.

 

2

 

5 mikilvægustu hlutir til að eiga þegar barn er væntanlegt?
Snúningslak (álíka nauðsynlegt og pepperoni á pizzu), áskrift af öllum mögulegum sjónvarpsþjónustum, NETABRÆKUR og nóg af þeim, heilgallar og samfellur (ekki blekkja þig og halda að þú sért að fara að klæða hvítvoðung í kjóla og krúttlegar skyrtur), baðkar og lavander baðolía var mín mesta blessun á meðgöngunni – mæli með þvi.

5 óþörfustu hlutir fyrir væntanlegt barn?
Kjólar og krúttlegar skyrtur (nei sko, það er í alvöru fokk leiðinlegt að klæða þau í eitthvað annað en samfellur og heilgalla, ég íhuga reglulega að fara bara út með dóttur mína á samfellunni), skór (aðrir en fyrstu skórnir) – það er ekki hægt að klæða litlar feitar fætur í krúttlega Converse sko, tók mig yfir klukkutíma að troða dóttur minni í slíkt par … ókei, hún er reyndar 6 mánaða að nálgast 11 kíló þannig að ég var kannski að vinna með óvenju vænar lappir. Að eiga 170 hárbönd er óþarfi (já ég var rosalega spennt að eignast stelpu), þú ert aldrei að fara að nota þau nema mögulega í mínútu þegar þú reynir að ná krúttlegri mynd af krakkanum, það er ágætt að eiga bara eitt, tvö stykki. Ókei, þetta er erfiðasta spurning sem ég hef fengið í lífinu að mér sýnist, ég er búin að sitja yfir henni í heilan dag og dettur ekkert í hug. Það er ofsalega einstaklingsbundið hvað fólk telur nauðsyn og hvað ekki. Þrátt fyrir að hafa sögulega lítið peningavit og að vera heimsins besti bruðlari hef ég ekki upplifað neitt sem ég hef keypt sem algjöran óþarfa.

Hvaðan er/u nafn/nöfn barnanna komin?
Sonurinn heitir í höfuðið á föðurafa sínum og dóttirin í höfuðið á móðurömmu sinni og móðursystur.

 

7

 

Eitthvað mikilvægt sem þú vilt koma á framfæri til verðandi foreldra?
Þú veist best. Láttu ekki einhvern annan segja þér hvað er barninu þínu fyrir bestu, sérstaklega ekki háaldraða brjóstagjafaHitlera (já, það er orð). Já ég er augljóslega enn með með svolítið sár á sálinni, ég var 22 ára þegar ég átti son minn og hann var á brjósti í einhverjar þrjár vikur. Viðbrögð sumra voru eins og ég hefði ákveðið að húðflúra krakkann frá toppi til táar. Og setja sjö göt í eyrun á honum. Það kemur engum við hvaða ákvarðanir þú tekur í þessu hlutverki. MIND YOUR OWN MOTHERING.

Hver er mesta mýtan sem þú hefur heyrt sem varðar móðurhlutverkið?
….ef þú vilt fá þetta inn á síðuna fyrir áramót þá sleppum við þessari. Sjitt hvað ég er blank.

 

6

 

Brjóst eða peli?
Ég er pelakona fram í fingurgóma og skammast mín ekkert fyrir það. Brjóstagjöfin gekk afar brösuglega með bæði börnin og það var annað hvort að missa geðheilsu eða að pína sig áfram með brjóstið. Ég taldi mig gera lítið gagn án geðheilsu þannig að ég gekk frá brjóstinu og var töluvert hamingjusamari mamma fyrir vikið.

Bestu bleyjur?
Ég pakka öllum utan um rassinn á nýjasta afkvæminu, sama hvað það heitir. Sonurinn þoldi hins vegar eingöngu Libero.

Uppáhalds barnafataverslun?
Petit, Iglo og Indi, Name it, Next – erfið spurning, ég versla allt of mikið af barnafötum alls staðar.

Saknarðu óléttunnar?
Ég elska rauðvín og graflax. Og kann ágætlega við að vera í nokkuð andlegu jafnvægi. Nei, ég sakna ekki óléttunnar.

5

Fékkstu einhver craving á meðgöngunni?
Kartöflusalat. Ég át mjög mörg kíló af kartöflusalati á síðustu meðgöngu. Fyrir 10 árum voru það súkkulaðirúsínur, elskan hann eiginmaður minn tók það einu sinni gróflega saman hversu mikið magn af þeim ég át – tæplega 38 kíló.

Keisari, deyfing eða náttúruleg fæðing?
Ég hef aldrei upplifað neitt annað en keisara. Einn bráðakeisara og annan skipulagðan. En djöfull sem ég myndi láta deyfa hverja einustu taug væri ég að fara að fæða náttúrulega. Ég verð stundum svolítið svekkt þegar ég hugsa um að fá aldrei að prófa það – en svo minni ég mig á yfir 20 tíma af hríðum með son minn og verð sæl og sátt með mína keisara á nýjan leik.
Untitled

 

Ef þú ert ekki með þessa dásamlegu ófullkomnu glansmyndarlausu (já það er orð) konu á snapp, sem hefur húmor fyrir sjálfri sér og er hraðlygin þá mælum við með því að þú bætir henni við –> Snapchat: gveiga85

 

oskubuska.jpg

 

 

Author Profile

Selma

Selma er 27 ára móðir frá Húsavík. Búsett í Reykjavík ásamt syni sínum Val Frey (2017). Hún er með Ba. próf í almennum málvísindum og leggur nú frekari stund á nám í íslensku við Háskóla Íslands. Áhuginn liggur í flestu tengdu Íslandi og íslensku en einnig öllu sem viðkemur móðurhlutverkinu, heimilinu, lífsstíl, þrifum, skipulagi og svo mörgu öðru.


Facebook Comments