Mamma marsmánaðar

Við hjá Öskubusku.is vildum endurvekja liðinn “mamma mánaðarins” en í þeim lið fáum við eina mömmu í hverjum mánuði til að svara nokkrum spurningum um móðurhlutverkið og gefa okkur innsýn í sitt líf.

Fyrsta mamman að þessu sinni er hún Katrín María en hún er 25 ára gamall snillingur og ofurtöffari með meiru!

DSC01383

Segðu okkur aðeins frá þér og fjölskyldunni.
Ég heiti Katrín María og ég er 25 ára (ef ég man rétt) vestfirðingur. Árið 2016 eignaðist ég mitt fyrsta barn, Míu Salóme, með kærastanum mínum til næstum 10 ára. Í vikunni eftir að Mía fæddist keyptum við okkur hús á Flateyri í Önundarfirði og við búum hér þrjú saman í rónni og sveitaloftinu.
Ég hef undanfarin 6 ár rekið bloggið katrinmaria.com og svo seinna út frá því snappið katrinmariaa.

Við hvað vinnurðu eða ertu í skóla/fæðingarorlofi?
Ég hef undanfarin misseri verið í fæðingarorlofi samhliða námi, en útskrifaðist úr meistaranámi í forystu og stjórnun í lok febrúar og því er framtíðin óráðin eins og er. Planið er að þefa uppi einhverja spennandi vinnu þegar fæðingarorlofinu lýkur.

Hvað kom þér mest á óvart við móður hlutverkið?
Það kom mér mest á óvart hvað það er lítið mál að vera mamma. Ég hef reyndar alltaf verið mjög kvíðin og á allt of auðvelt með að mikla hluti fyrir mér- þegar það bættust svo inn viðvaranir og ábendingar um erfiðleika móðurhlutverksins héðan og þaðan þá var ég alveg búin að mála ansi svarta mynd af þessu öllu saman í huganum. Svo var þetta bara miklu minna mál en ég hélt. Ég myndi þó aldrei segja að það sé ekki krefjandi að vera mamma, það getur verið gríðarlega krefjandi, en mér finnst það ekki erfitt. Þetta er þó vissulega misjafnt eftir börnum, ég er mjög heppin með rólegt barn sem hefur alltaf sofið alla nóttina án þess að rumska og þó hún hafi verið mjög verkjuð fyrstu mánuðina sökum ofnæmis, þar sem hún grét allan daginn, þá gerir nætursvefn svo mikið fyrir geðheilsuna að maður nær einhvernveginn að fyrirgefa/leiða hjá sér allt erfiðið sem gengur á í vökutíma.

14138103_10210347687989812_5864009258331196205_o

Hvað hefurðu lært um sjálfan þig síðan þú varðst mamma?
Ég hef fyrst og fremst lært hvað ég er ótrúlega óþolinmóð, sem er glatað. Eða kannski finnst mér það bara? Ég man bara hvað ég sá fyrir mér að ég ætlaði að vera umburðarlynd og skilningsrík öllum stundum, en svo koma t.d. dagar þar sem barnið neitar að taka lúr allan daginn og vakir í 12 klukkustundir, gjörsamlega að tapa sér úr þreytu. Þegar kærastinn minn kemur heim úr vinnunni eftir svoleiðis dag langar mig oft að rétta honum bara stelpuna og segja honum að ég vilji helst ekki sjá hana fyrr en næsta dag í fyrsta lagi. Allskonar svona raskanir á rútínu ræna mig auðveldlega þolinmæðinni, en það er eitthvað sem ég þarf klárlega að vinna í.

Uppáhalds mömmu móment (sem er ekki fæðing barnsins/barnanna)?
Það er kannski erfitt að benda á eitthvað eitt ákveðið móment, en ef ég þyrfti að nefna eitt atvik sem stendur augljóslega upp úr væri það þegar Mía losnaði úr spelkunni sem hún var í fyrstu 6 vikur lífs síns. Það var yndislegt að fá að baða hana í fyrsta skipti og knúsa hana almennilega án þess að það væri einhver risavaxin hlíf vafin um hana alla.

Verslaru mikið á börnin þín hér eða erlendis og hvar þá?
Nei ég hef eiginlega ekki verslað neitt á hana. Eina flík hér og þar og svo aðeins í Name It af því við fengum gjafabréf þar í jólagjöf. Annars hafa ömmur og frænkur og vinkonur verið svo ótrúlega duglegar að versla að ég hef engu við að bæta!

Hverju finnst þér mikilvægt að huga að eftir barneignir þegar kemur að sjálfri þér?
Ef það er einhver möguleiki, þá finnst mér mikilvægast af öllu að halda í við áhugamálin sín, reyna að átta sig á því hver þau eru og hvernig maður getur búið til tíma til að sinna þeim. Áhugamálin gera mann að þeirri manneskju sem maður er og ef maður gefur sér aldrei tíma til að sinna þeim getur maður auðveldlega týnt sjálfum sér. Slíkt er hvorki gott fyrir mann sjálfan né fjölskylduna manns. Þetta er auðvitað ekki alltaf auðvelt- en ég myndi setja það í eins mikinn forgang og möguleiki er á miðað við aðstæður. 

Finnst þér næg fræðsla um alla þætti foreldrahlutverksins fyrir barneignir?
Ég sóttist svosem ekki neitt sérstaklega í slíka fræðslu, hvorki í bókum, bæklingum námskeiðum né öðru. Mér finnst flott að það sé aðgangur að slíku fyrir þá sem finnst það þurfa en ég verð að segja fyrir mitt leiti að það að verða foreldri kenndi mér mest og ég er ekki viss um að ég hefði getað undirbúið mig neitt sérstaklega fyrir það sem koma skyldi öðruvísi.

Finnst þér erfitt að skipuleggja tímann þinn með börnunum í kringum vinnu/skóla ?
Ég hef sennilega aldrei verið skipulagðari eins og eftir að ég eignaðist Míu. Ég var alltaf á réttu róli í náminu, oft langt á undan í verkefnaskilum og almennt með mikið betri einkunnir. Mér fannst það auðvitað miklu meira krefjandi, að reyna að skipuleggja tímann minn þannig að ég næði að gera allt, en þegar maður veit ekki hvernig dagurinn eða vikan kemur til með að verða nýtir maður bara allan þann frítíma sem gefst þegar hann gefst og þannig var ég alltaf með allt á góðri keyrslu.

Processed with VSCO with x1 preset

Finnst þér þú fá nægann tíma með barninu/börnunum þínum?
Eins og er erum við Mía bara tvær saman í fæðingarorlofi svo við höfum bókstaflega allan tímann í heiminum. Stundum of mikinn ef ég á að segja eins og er og ég er farin að hlakka til að komast út á vinnumarkaðinn og hafa samskipti við fullorðið fólk daglega. En ég er viss um að mér eigi ekki eftir að finnast ég fá nægan tíma með henni þegar ég er komin í vinnu og hún á leikskóla.

Ertu með einhver ráð fyrir aðra foreldra þarna úti?
Bara hjálpist að, gefið hvort öðru tíma til að sinna áhugamálum ykkar og treystið sjálfum ykkur í uppeldinu.

blaaaaa

Author Profile

Ingibjörg Eyfjörð

Ingibjörg Eyfjörð er búsett í Mývatnssveit ásamt fjölskyldu sinni. Hún hefur óbilandi áhuga á heimilinu (nema þrifum, hún er með bráðaofnæmi fyrir þeim), förðun og öllu sem er aðeins út fyrir kassann. Skrif hennar einkennast af hreinskilni, kímnigáfu og harkalegum staðreyndum um hið daglega líf.


Facebook Comments

Share:

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *