Mamma febrúar mánaðar

Mamma febrúar mánaðar

Segðu okkur aðeins frá þér og fjölskyldunni.

Hulda Hrund Sigmundsdóttir heiti ég. Ég er uppalin í Hafnarfirði og er því gallharður FH ingur auk þess að vera feministi út í gegn. Ég er fædd 20. mars árið 1987 svo það gerir mig 31 árs eftir nokkra daga!
Ég er gift Þórhalli Inga Jónsyni mývetningi og bóndasyni og saman eigum við tvær dætur. Sú yngri heitir Sunna Dís og er 4 ára, fædd 2013 og sú eldri heitir Annalísa Rún, fædd 2008. Hún er hlutafélags eign okkar Eiríks Sigurðarsonar og Þórhalls. Við fóstrum einnig mjúkann og loðinn fjórfætling sem hefur stolið hjörtum okkar allra. Hún heitir Frigg og er eins árs gömul ensk cocker spaniel tík sem stjórnar heimilinu með hers hendi. Ég er menntuð leik- og söngkona og starfaði við það um stund við ágætar viðtökur en skipti um vettvang árið 2013 svo ég gæti haldið betur utan um fjölskylduna. Ég fór þá að starfa á leikskóla í Hafnarfirði og varð strax heilluð af menntasviði yngri barna. Ég hóf svo nám við Leikskólakennarafræði árið 2015.

H+Þ-97

Við Þórhallur höfum verið saman í rúm sex ár og þar af gift í eitt. Við fjölskyldan fluttum til Mývatnssveitar í Skútustaðahrepp fyrir hálfu ári og búum nú í yndislegu samfélagi Reykjahlíðar. Þórhallur starfar í Jarðböðunum og einmitt vegna þeirra gátum við flutt hingað í paradís þar sem Jarðbörðin voru að byggja raðhús. Við fluttum ekki aðeins inn í nýtt og stærra húsnæði en það sem við eigum fyrir í Hafnarfirði, heldur fluttum við inn í samfélag þar sem íbúar taka fólki opnum örmum. Hér náðum við fjölkyldan fljótlega að rækta dýrmæt vinabönd. Vináttu sem maður sér í bíómyndum þar sem allir nágrannarnir eru vinir og ganga inn hjá hvor öðrum. Börnin í götunni okkar eru sannir vinir og er heimili okkar oftast eins og félagsmiðstöð barna og foreldra.

H+Þ-47

Við ákváðum það hjónin fyrir um ári síðan að okkur langaði að losa okkur út úr þægindarammanum og upplifa ný ævintýri. Við vildum ala okkar börn upp upp börnin á svæði þar sem hætturnar væru minni, frelsið meira og umhverfið hreinna. Hér í þorpinu erum við mun afslappaðri vitandi af börnum okkar ferðist um sitt nærumhverfi. Það skemmir heldur ekki fyrir að hér í sveit er bæði öflugt og faglegt skólastarf sem haldið er utan um með miklum metnaði, þó ég segi sjálf frá. Við settum okkur það markmið að endurskoða heildarstöðu fjölskyldunnar eftir eins árs búsetu en eftir aðeins fjóra mánuði vorum við ákveðin í að hér vildu við vera. Hvað framtíðin ber í skauti sér getum við auðvitað ekkert sagt til um, en eins og staðan er hjá okkur í dag er líf okkar mun hamingjuríkara og rólegra en það var í Hafnarfirði.

Við hvað vinnurðu eða ertu í skóla/fæðingarorlofi?

Ég starfa sem umsjónar- og sérkennsluleiðbeinandi við Leikskólann Yl í Mývatnssveit. Kennaratitilin fæ ég þegar ég klára kennaranámið mitt. Ég hef stundað nám við Leikskólakennarafræði við Háskóla Íslands síðustu tvö ár. Ég tók mér hins vegar árs frí vegna veikinda en eins og heilsan er í dag mun ég að öllum líkindum ljúka því námið frá Háskólanum á Akureyri fyrr en síðar. Ég hef umsjón yfir Blásteini sem er heiti skólastofu og skólahóps leikskólans. Þar er ég með fimm dásamlega og áhugaverða nemendur sem gera starfið einstaklega áhugavert og spennandi. Enginn dagur er eins. Við erum svo heppin að vera í sama samofna húsnæði Grunnskóla Reykjahlíðar svo að nándin við nemendur sveitarinnar er mikil. Hún gefur mér sem ný aðfluttri nokkra innsýn inn í líf sveitarinnar og gildi hennar sem eru ,,jafnræði – jákvæðni – traust og virðing‘‘. Þessi gildi eru einmitt þau sem ég hef sem veganesti í mínu starfi.

hulli3

Hvað kom þér mest á óvart við móður hlutverkið?

Hversu langt ég mun ganga fyrir börnin mín. Það hljómar eflaust klisjukennt en ég hefði aldrei trúað því fyrir 11 árum að ég myndi vera sú móðir sem myndi hafa slíkan baráttuhug fyrir börnunum mínum. Vissulega hefur það skilað sér í andlegu þroti af og til, en enginn er fullkominn.

Hvað hefurðu lært um sjálfan þig síðan þú varðst mamma?

Ég hef lært að segja sama hlutinn þrisvar við börnin mín án þess að springa. Ég hef lært það að börnin mín endurspegla umhverfið sitt svo ef mér finnst þau hafa verið erfið síðustu daga þá er komin tími til að skoða mína eigin hegðum. Foreldrahlutverkið hefur kennt mér að stolt og uppeldi á ekki saman. Það verður að setja allt stolt og allan hroka á hilluna ef að þú ætlar að ala upp barn sem á að verða veglegur og réttsýnn samfélagsþegi. Og ég hef lært það að fela sælgæti líkt og ég væri að sjá um peningaþvott á heimilinu þar sem ég bý með manni sem fellur í black out fyrir framan sælgætisskápinn.

Uppáhalds mömmu móment (sem er ekki fæðing barnsins/barnanna)?

Min uppáhalds móment eru nokkur. en þau sem standa upp úr í dag eru sigrar eldri dóttur minnar sem hefur þurft að berjast fyrir sínu í lífinu. Hún hefur greiningar sem ég ætla ekkert að fara nánar út í en þær gera hana ósigrandi. Hún er í dag allt það stæðsta og meira til en við foreldrar hennar þorðum að dreyma um fyrir fimm árum síðan, vinamörg stelpa sem er með hjartað fullt af samúð og samkennd fyrir öðrum, ung stúlka sem vill bæta heiminn með einni Rauða kross tombólu í einu. Það atvik sem stendur upp úr frá henni er þegar hún stoppaði einelti í afmæli fyrir ári síðan. Það kom stelpa inn í rímið sem afmælisgestirnir voru í og ein stúlka fór að setja út á klæðaburð þeirra sem var nýkomin. Þetta fór fyrir brjóstið á Önnulísu sem ákvað að koma með stutta tilkynningu þess efnis að allir ættu að vera nákvæmiega eins og þeir vilja. Það væri bara ,,miklu flottara‘‘. Eftir þessu lifir hún þar sem hún fær t.d að ráða hárinu sínu sjálf. Í dag er það fjólublátt eftir litasjampó sem hún mótaði litinn sjálf og rakað á annari hlið. Hún fær frelsi innan skynsamlegra marka til þess að efla og styrkja sitt eigið sjálf á sjálfstæðan hátt.

börn2

Vissulega á Sunna Dís skemmtileg móment. Það sem stendur uppúr í dag er þegar hún fór upp á svið á Þorrablóti Reykjahlíðarskóla og söng þar fjöldasöng með nemendum skólans. Allt gekk eins og í sögu þar til hún ætlaði sér að dansa en kúveltist niður tröppur sviðsins. Í stað þess að fara að gráta dustaði hún af fötunum sínum og fór aftur upp á svið og kláraði lagið eins og sannur fagmaður. Það lýsir Sunnu vel. Hún er svo staðföst og sjálfsörugg að hún lætur sko ekki fall skemma fyrir sýningunni. Síðasliðin tvö ár hefur hún farið úr því að vera feimin og óörugg innan um fólk í það að vera það barn sem stekkur upp á svið, dansar fyrir fjöldann, dettur á rassinn og klára svo sýninguna með stæl. Hún er hörku kvenmaður!

Hvað finnst þér mikilvægt að huga að eftir barneignir þegar viðkemur sjálfri þér?

Að meta sig ekki út frá náunganum. Ekki hugsa um hvað aðrir eru að gera. Leifða sér að líða illa suma daga og hafa húsið á haus. Reyna svo bara að koma sér aftur á lappir og ef það tekst ekki að biðja þá um hjálp. Það er svo mikilvægt að viðurkenna máttleysi sitt og sækjast eftir hjálpinni. Við þurfm ekki að vera fullkomin. Fullkomnun er boring! Hvert ferðu eftir fullkomnun? Í stöðnun og þangað viltu aldrei fara. Líkaminn þarf ekki að vera fullkominn þú ert ekki dúkka. Þú ert einstakt eintak sem aðeins var gefið þér.

Ég upplifi núna eftir að hafa barist við kvíða og þunglyndi sl. ár að lífið er svo miklu meira en ég. Ég er aðeins hamingjusöm þegar ég er sátt. Sátt með sjálfið. Það að meta sig út frá vitsmunum og hvað þú ert að gefa samfélaginu gefur mér mun meiri lífsfyllingu en eltingaleikur við það sem samfélagið ætlast til kvenna og útlits þeirra.

Finnst þér næg fræðsla um alla þætti foreldrahlutverksins fyrir barneignir?

Ég myndi bara ekki þekkja það. Þegar ég var ólétt af Önnulísu var ég með andlegan vitsmunaþroska á við vatnskönnu og hafði ekki getu til að leitast eftir fræðslu. Ég fór vissulega á fæðingarnámskeið en mig minnir að það hafi verið vegna þess að faðir Önnulísu bað um það. Eftir að frávik hennar fóru að vera sýnileg fór ég að sækjast eftir fræðslu. Þegar Sunna kom til sögunnar vorum við faðir hennar á kafi í foreldranámskeiði (PMT). Það námskeið  sóttum við vegna systur hennar og hefur sú þekking reynst okkur gríðarlega vel. Ég mæli með PMT námskeiði við alla þá vini og foreldra nemenda sem spyrjast fyrir um fræðslu. Fræðslan er þarna, foreldrar geta leitað til félagsþjónustu síns sveitafélags og sóst eftir aðstoðinni. Í því felst engin skömm, hvernig getur þekking verið skammarleg?

Finnst þér þú fá nægan tíma með barninu/börnunum þínum?

Já, hérna í sveitinni hef ég það. Það eitt af því frábæra starfi sem unnið er hérna í Skútustaðahreppi er að öll tómstundariðja er á skólatíma. Þannig að þegar að klukkan slær hálf fimm og daginn fer að leysa að þá eru allir búnir í sinni ,,vinnu‘‘ og við höfum afganginn af deginum til að eyða saman. Ég valdi líka síðari starfsferil minn út frá því að ég gæti verið mikið til staðar fyrir börnin mín. Eftir að við fluttum í sveitina fékk ég tækifæri til að byrja aftur að leika og syngja sem er það sem gefur mér mína útrás. Ég er viss um að ég hefði ekki haft tíma til þess þegar við bjuggum í Hafnarfirði og ég starfaði sem nemi og einkabílstjóri barnanna minna. Allt skutl á æfingar og í tómstundir heyrir hér sögunni til sökum frábærs skipulags Reykjahlíðarskóla og Skútustaðahrepps.

OKEY 5 hraðaspurningar – skrifaðu það fyrsta sem þú hugsar!

Pepsi max eða vín? Pepsi max.
Harry Potter eða einhyrningar? Harry Potter. House Gryffindor hér!
Onsie eða víðar buxur og bolur? Heilgalli, alltaf! Hver vill fara í nærföt að óþörfu?
Grænmetisbuff eða mexikönsk kjúklingasúpa? Grænmetisbuff, gæti lifað á þeim.
Fierce eða sassy? Ákveðin!

oskubuska.jpg

 

Author Profile

Ingibjörg Eyfjörð

Ingibjörg Eyfjörð er búsett í Mývatnssveit ásamt fjölskyldu sinni. Hún hefur óbilandi áhuga á heimilinu (nema þrifum, hún er með bráðaofnæmi fyrir þeim), förðun og öllu sem er aðeins út fyrir kassann. Skrif hennar einkennast af hreinskilni, kímnigáfu og harkalegum staðreyndum um hið daglega líf.


Facebook Comments

Share: