Lulla doll by RoRo

 

2016-12-04_14-02-19

Lulla dúkkan fræga, búin til af 3 Íslenskum mæðrum hefur svo sannarlega slegið í gegn. Það mikið að vinkona mín frá Hollandi sendi mér skilaboð á facebook fyrir svolitlu síðan og spurði hvort að ég væri búin að skoða þessa dúkku, hún gerði kraftaverk!

Fyrir þá sem hafa fylgt mér á snapchat (iingibjorg) eða séð mig á Öskubusku snappinu (oskubuska.is) vita kannski að Hulda María mín sefur ekkert svakalega vel. Eða í rauninni .. sefur nánast ekki neitt og hefur ekki gert síðan hún fæddist. Þú veist, það er ekkert eðlilegt við það að daginn sem hún fæddist vakti hún meira en hún svaf – og þannig hefur hún verið alla daga síðan. Hún tekur ekki snuð og vill helst ekki sofa nema hafa mig hjá sér, sem ég skil, mér finnst ég æði og mér persónulega finnst ekki gaman að sofa ein, svo afhverju ætti ungabarn að vilja það? En, þó það sé þægilegt að hafa hana hjá mér og allt það – þá er bakið á mér í klessu og bólgið af því að vera í sömu stellingu alla nóttina og mig langar að fá að teygja úr mér í svefni.

Svo, ég ákvað að prófa. Ég meina það gæti ekki sakast og í versta tilfelli þá bara myndi hún ekki virka og allt í góðu með það (hugsaði samt með mér að ef hún myndi ekki virka myndi ég senda Huldu Maríu reiking fyrir dúkkunni þegar hún yrði 18!). Ég keypti dúkkuna hjá Petit.is (hérer slóðin fyrir áhugasama) og beið svo í alveg heila 2 sólarhringa minnir mig. Ég reif dúkkuna úr þessum fína poka sem hún kemur í um leið og hún mætti á svæðið, brasaði við það að kveikja á henni (í staðin fyrir að lesa bara á miðann hvernig ætti að gera það .. flott Ingibjörg) og hún hefur verið límd upp við barnið síðan (ég er grínlaust að spá í að teipa dúkkuna við krakkann bara). Það sem dúkkan á s.s að gera er að líkja eftir nærveru fullorðinna. Hún spilar andardrátt og hjartslátt sem tekinn var upp sérstaklega fyrir þessa dúkku og þetta hefur bara þvílíkt róandi áhrif – þó þetta sé pínu óþægilegt að hlusta á fyrst. Þetta kemur náttúrulega ekki í veg fyrir okkar nærveru en á að líkja eins mikið eftir henni og hægt er og er hugsað fyrir eins og t.d fyrirbura sem eru á sjúkrahúsum ímynda ég mér þar sem ekki er hægt að veita stöðuga nærveru.

instasquare_201612414418512instasquare_201612414356539

 

Einnig er dúkkan hönnuð í hlutlausum litum svo hún hentar öllum börnum burt séð frá kyni, aldri eða öðru sem mér finnst vera risa stór plús.

Nú erum við búin að nota dúkkuna í næstum 2 vikur. Ég hef passað að hafa hana alltaf með þegar ég er að svæfa og að hún liggi þétt uppvið hana og mig þegar ég er með uppá að lyktin af mér smitist í dúkkuna. Ég hélt að hún væri ekki að virka og bölvaði dúkkunni í sand og ösku þangað til hún varð batteríslaus í næstum sólarhring, þennann sólarhring svaf Hulda María verr og meira slitrótt. Strax daginn eftir – voila. Barnið svaf betur. Svefninn hennar er ekkert fullkominn en ég er 99% viss um að þessi dúkka hjálpar og gerir ýmislegt fyrir hana.

Krúttlegast er að sjá að Hulda María virðist hafa tekið ástfóstri við þessari dúkku og hefur hún fengið nafnið Lúlla. Hún knúsar Lúllu sína og “kyssir” og vill greinilega hafa hana hjá sér.

Ég er nokkuð viss um að við mælum bara með henni!
Hér er svo síðan hjá Lulla dúkkunni fyrir þá sem vilja kynna sér hana nánar.

Þangað til næst

ingibjc3b6rg.jpg

 

Author Profile

Ingibjörg Eyfjörð

Ingibjörg Eyfjörð er búsett í Mývatnssveit ásamt fjölskyldu sinni. Hún hefur óbilandi áhuga á heimilinu (nema þrifum, hún er með bráðaofnæmi fyrir þeim), förðun og öllu sem er aðeins út fyrir kassann. Skrif hennar einkennast af hreinskilni, kímnigáfu og harkalegum staðreyndum um hið daglega líf.


Facebook Comments

Share:

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *