Lífið undanfarið

Lífið undanfarið

Undanfarið er búið að vera mjög mikið að gera hjá mér og toppaði seinasta vika sig alveg. Ég get því sagt að núna er ég mjög ÞREYTT og hef reynt að taka því frekar rólega (svona milli þess sem ég mæti í vinnuna, sinni hundunum, heimilinu og allt þetta venjulega..þið vitið). Ég held ég hafi fengið smávegis spennufall eftir seinustu helgi og mér líður svolítið eins og hluti af heilanum hafi farið í frí. Ég get því ekki boðið upp á langt blogg eins og er enda gaf ég mig alla í færslu fyrir Vísi um daginn sem heitir “Hvalir gegn loftslagsbreytingum“.

Hins vegar ætla ég að deila með ykkur nokkrum myndum frá seinustu dögum til gamans.

Ég er búin að eiga þessa æðislegu hör- og bómullar skyrtu frá Tradlands síðan í haust en svo óheppilega vildi til að einn hnappurinn losnaði af eftir fyrstu notkun. Það fylgja sem betur fer alltaf auka hnappar með skyrtunum þeirra svo að ég ætlaði einfaldlega að fara með hana á saumastofu og laga þetta. En ég fékk einhverja frestunaráráttu hvað þetta varðar, og vikurnar sem liðu urðu að mánuðum. Um daginn skellti ég mér loksins í föndurbúð, verslaði bláan tvinna og nálar, og saumaði hnappinn hreinlega sjálf á! Ég var vitaskuld afar stolt af mér eins og sést á myndinni, enda hafði ég ekki handleikið saumfæri síðan í 10.bekk í grunnskóla. Svo ánægð varð ég nú með mig að ég lagfærði einnig uppáhalds svörtu sokkabuxurnar mínar í leiðinni, sem gat varið komið á í tánna (já, einnig með bláum tvinna).

Seinustu helgi gerði ég mér ferð með nokkrum vinum til Akranesar í Matarbúr Kaju en mikill skortur var á heimilinu af baunum. Þar verslaði ég mér rauðar linsubaunur, kjúklingabaunir, brún hýðisgrjón, nýrnabaunir og ristaðar tamari möndlur í eigin ílát eftir vigt. Mæli virkilega með því að kíkja í þessa verslun en ég fer þangað ca. annan hvern mánuð að fylla á birgðir mínar af baunum og annarri þurrvöru.

Fyrst við vorum á Akranesi á annað borð þá urðum við að prófa nýja vegan matsölubílinn sem heitir Junkyard. Þar hægt að fá borgara, vefjur, pítur, pylsur, franskar, laukhringi, acaí skálar og avocado rist í morgunmat, hristinga og fleira girnilegt. Ég var a.m.k. gífurlega spennt að smakka matinn hjá þeim!

Ég fékk mér vefju sem heitir Junk in a trunk og inniheldur hún snitzel, kartöflu röstí, grænmeti og piparmayo. Vefjan minnir á boxmaster vefjurnar hjá KFC nema miklu betri! Glöggir taka mögulega eftir því að í horninu glittir í franskar sem að daman fékk að sjálfsögðu í eigið ílát. Ég mæli gífurlega með því að gera sér ferð og smakka matinn frá Junkyard, hann er algjörlega þess virði. Þetta er ekki auglýsing, ég er bara afskaplega ánægð með þessa máltíð.

Efsta myndin er tekin á friðsamlegum mótmælum gegn hvalveiðum síðan á sunnudaginn, en ég er ein af skipuleggjendum viðburðarins. Það er mögnuð tilfinning að standa og tala fyrir hvalina, ásamt hópi af frábæru fólki í svipuðum hugleiðingum. Ég er gífurlega þakklátt öllum sem mættu, hjálpuðu við að deila viðburðinum á samfélagsmiðlum og aðstoðuðu okkur við að gera þetta að veruleika.

Meira var það ekki að sinni. Þar til næst!

 

Author Profile

Amanda

Amanda er vegan stelpa sem starfar sem lyfjafræðingur og elskar að borða góðan mat. Áhugamál eru eldamennska, hreyfing, heimilið, sanngjörn tíska (fyrir dýr og menn), umhverfisvernd og ýmislegt tengt lífsstíl.


Facebook Comments