Lestu ekki bækur barn!?

Lestu ekki bækur barn!?

Nú er ég að slaga í þrítugt, ég er með adhd greiningu og buin með grunnskóla-, menntaskóla- og nú síðast háskólapróf. Í gegnum þetta fór ég allt með því að lesa eins lítið og ég mögulega gat. 

Ekki því mig langaði það ekki, jú ég var kannski ekki húrrandi spennt fyrir lestri á fræðilegum greinum eða heimalestri í ensku (enska er ekki mín sérgrein). En mér hefur alla tíð þótt leiðinlegt að geta ekki lesið bækur, ég var ekki fermd þegar ég afþakkaði pent að fá bækur í jólagjöf og mamma gafst upp á að reyna að fá mig til að lesa. 

Það er bókasafn heima hjá mér (eða þú veist heima hjá mömmu á ég við) og mamma mín vinnur á skólabókasafni. Litla systir mín hjólar þvert í gegn um bæinn til þess að sækja sér eitthvað nýtt að lesa og pabbi (stjúp) er yfirleitt með 2-3 bækur í gangi í einu. Pabbi minn hinn aftur á móti á eitthvað af bókum en flestar eru ólesnar og sumar enn í plastinu. Við adhd feðginin virðumst ekki festast almennilega við lesturinn. 

Með tilkomu Storytel ákvað ég nú að gera lokatilraun í því að verða “lestrarhestur” (hlustunarhestur eða hvað það kallast) og BINGÓ! Ég er allt í einu farin að hringja í mömmu í óðagoti til þess að ræða við hana um bækur eða til þess að mæla með bókum fyrir hana til að lesa! Á dauða mínum átti ég von en ekki þessu. Þó er sá galli á að Storytel eins frábært og það app er, og ég mæli hiklaust með því að allir kaupi sér aðgang og njóti, þá hefur það ekki nema takmarkað magn bóka. 

Ég sótti því um aðgang að Hljóðbókasafninu en ég get það vegna greiningar minnar og allt í einu er ég að brillera og taka þátt í samræðum af mikilli ástríðu í bókmenntakúrs í Háskólanum þar sem lesnar eru tvær bækur á viku að meðaltali! Eitthvað sem ég hefði bara skráð mig úr á stundinni fyrir ekki svo löngu síðan því ég hefði bara aldrei náð að lesa heila bók fyrir hvern tíma. 

 

Þarna hefur opnast ný veröld fyrir mér, þökk sé Storytel og Hljóðbókasafni þá varð þetta möguleiki og þetta er að opna nýja vídd fyrir mér í námi til dæmis. Ég held að það sé fullt fullt af fólki þarna úti sem er eins og ég sem myndi glatt vilja getað hlustað á námsefnið sitt. Ef við getum ekki veitt þjóðinni aðgang að Hljóðbókasafni Íslands, sem mér finnst fáránlegt (því allir Íslendingar mega fá aðgang að venjulegum bókum á bókasafni) þá verðum við að treysta á að Storytel verði einn daginn með sambærilegt framboð af bókum.

Ef þig langar að lesa en ert ekki “bókaormur” þá mæli ég með að kíkja á Storytel appið og það sem er svo brilljant við lesturinn hjá þeim er að það eru leikarar og virkilega mikið fagfólk sem les sögurnar með leikrænum tilburðum, sem gerir söguna lifandi og skemmtilega. Það er ekki eins og þú sért að hlusta á talgervil á google að lesa upp texta eins og oft vill verða í lestri hljóðbóka. Lélegur lesari getur alveg eyðilagt góða bók. Ég er orðin svo háð þessu að þetta er algerlega orðið mín heilaga stund; Taka til og hlusta á góða bók. Já ég er níræð og sit heima á kvöldin með góða skáldsögu og brýt saman þvott.

 

Author Profile

Selma

Selma er 27 ára móðir frá Húsavík. Búsett í Reykjavík ásamt syni sínum Val Frey (2017). Hún er með Ba. próf í almennum málvísindum og leggur nú frekari stund á nám í íslensku við Háskóla Íslands. Áhuginn liggur í flestu tengdu Íslandi og íslensku en einnig öllu sem viðkemur móðurhlutverkinu, heimilinu, lífsstíl, þrifum, skipulagi og svo mörgu öðru.


Facebook Comments