Kveðjustund

Kveðjustund

Ég byrjaði að blogga hjá Öskubusku í júlí 2016. Síðan þá eru liðin næstum því 4 ár. Tíminn er svo skuggalega fljótur að hverfa og ég á alveg smá erfitt með að trúa hversu langt er liðið.

Síðustu 4 ár af lífi mínu hef ég fengið þann heiður að skrifa pistla og deila broti af lífinu mínu með ykkur en þið hafið fylgt mér í gegnum nokkur af stærstu, skemmtilegustu og jafnframt erfiðustu augnablikum lífs míns. Það hefur verið ómetanlegur partur af tilverunni og ég hlakkaði oftast (en í allri hreinskilni alls ekki alltaf) til þess að setjast niður og koma hugsunum mínum á framfæri. Í gegnum bloggið fékk ég svo að kynnast konunum sem hafa skrifað mér við hlið en þær eiga þakkir og hrós skilið fyrir alla hjálpina og samveruna í gegnum árin og ég vona að þær verði partur af lífinu mínu um ókomin ár. Það að vera partur af einhverju jafn frábæru og skemmtilegu og Öskubusku.is mun alltaf vera ógleymanleg lífsreynsla og bloggið opnaði svo margar dyr fyrir mér sem hefðu annars ekki opnast og ég lærði svo mikið um sjálfan mig og hvers ég er fær um.

Nú er hinsvegar komið að því að ég kveðji Öskubusku og hefji nýjann kafla, þó svo ég viti ekki alveg hver þessi nýji kafli er í augnablikinu. Þessi ákvörðun var ekki auðveld, en hún var nauðsynleg. Ég mun kannski halda áfram að skrifa einhverntímann en núna í bili ætla ég að njóta þess að draga mig aðeins til baka og einbeita mér að minni andlegu heilsu.

Ég mun halda áfram að deila bútum úr lífinu okkar á Instagram fyrir þá sem vilja fylgjast með mér þar.
Takk fyrir allt Öskubuska.

Author Profile

Ingibjörg Eyfjörð

Ingibjörg Eyfjörð er búsett í Mývatnssveit ásamt fjölskyldu sinni. Hún hefur óbilandi áhuga á heimilinu (nema þrifum, hún er með bráðaofnæmi fyrir þeim), förðun og öllu sem er aðeins út fyrir kassann. Skrif hennar einkennast af hreinskilni, kímnigáfu og harkalegum staðreyndum um hið daglega líf.


Facebook Comments

Share: