Kraftakonur, og svo ég?

Ég var alin upp af kraftakonum.

Mamma mín, ömmur, ömmusystur, langömmur, langömmusystur og frænkur. Allt ólýsanlega magnaðar konur sem mér fannst geta allt og alltaf vera að gera allt, vera einhverskonar ofurhetjur, þær voru (og eru) svo duglegar og alltaf þegar ég spurði mömmu afhverju þær gerðu allt sem þær gerðu fékk ég “sumt þarf bara að gera”.

Það var alltaf bakað bakkelsi fyrir kaffitímann, allur þvottur straujaður og brotin fínt saman – kvöldmaturinn alltaf klukkan 7 og ég sver, oftast var kvöldmaturinn eins og veisla. Allt gert frá grunni, allt gert rétt og vel. Svo ótrúlega mikill metnaður lagður í heimilisverkin og hússtörfin.

Það eru þær, og svo kem ég.

Það sem varð kveikjan að þessari færslu er það að í gær bað ég Tryggva um að kaupa bollur þegar hann fór í búðina, því það er nú bolludagur í dag og mig langaði að taka smá forskot á sæluna og borða bollur. Þegar hann kom heim heyrðist sagt í áttina að mér, “bíddu, ætlarðu ekki að baka?” “þetta eru ekkert heimatilbúnar!

Nei. Ég ætla ekki að baka bollurnar. Ég þoli ekki eldhús, mér finnst afspyrnu leiðinlegt að elda eða baka og geri það bara ef ég nauðsynlega þarf þess. Ef ég get keypt bollurnar útí búð þá geturðu veðjað hattinum þínum uppá það að ég mun gera það. Ég þarf ekki að strauja rúmfötin mín, ég sef alveg jafn vel þó að það séu nokkrar krumpur á þeim, betur jafnvel. Það eru bara 3 vikur síðan ég áttaði mig á hvernig ég brýt saman straubrettið hennar mömmu sjáiði til (og það var ekki því ég ætlaði að strauja, ég rak mig í það og það hálf datt á mig og ég kallaði í einhverju hálfgerðu histeríu kasti á mömmu hvernig maður bryti þetta drasl saman aftur). Ég kann heldur ekki að baka upp sósur, pakkasósurnar frá Toro bragðast svona líka afspyrnuvel. Eða – það sem mér finnst virka best er að Tryggvi eldi bara því ég er skaðræðis klaufi í eldhúsinu og ef það er hægt að brenna það við þá lofa ég þér því að ég hef brennt það við (þarf mögulega að endurskoða þetta eitthvað fyrst Tryggvi er útá sjó alltaf núna samt, hakk og spakk í öll mál og fajitas á föstudögum, ég kann að elda það!)

Minn metnaður liggur í öðru. Mér finnst gaman að mála mig, skrifa og föndra. Ég elska meiraðsegja að taka til heima hjá mér. En minn metnaður liggur ekki í eldhúsinu. Þess vegna finnst mér stundum ótrúlega leiðinlegt hvað í minni fjölskyldu er ennþá svo greinileg kynjaskipting. Mamman gerir bara ákveðna hluti og pabbinn vinnur úti og ef ég mótmæli því, þetta sé ekki svona á mínu heimili fæ ég “það kemur”. Nei, ég er þó nokkuð viss á þessum tímapunkti að þetta “kemur ekki” sama hvað þú segir mér oft að fylgjast með í eldhúsinu.

Ég er alin upp af þvílíku kraftakonunum. Konum sem voru og eru sáttar við það að þær sjái um heimilið og börnin meðan mennirnir vinna úti.

Ég er alin upp af konunum sem kunna öll heimsins heimilisráð við að ná smurblettum og fitublettum úr öllu mögulegu því þær eiga að vita það.
Ég er alin upp við það að við eigum að elda, þrífa og sjá um börnin.

Ein uppáhalds myndin mín af Tryggva, uppá eldhúsinnréttingu að þurrka af í þessum gullfallegu gulu uppþvottahönskum!

Ég er alin upp við allt þetta – en samt er ég ekki svona, ég hef óbeit á svona kynjaskiptingu. Þá er ég ekki að meina að það megi ekki vera þannig – ef heimilið þitt fúnkerar þannig þá er það grínlaust frábært og ég dáist að því, því það að sjá um heimili, börn og samt einhvernveginn hafa tíma fyrir þig er erfitt. En ef það er svoleiðis því það “á að vera þannig og konur eiga bara að gera hitt og þetta” þá nei. Við Tryggvi skiptum þessu jafnt. Það virkar fyrir okkur. Hann eldar og ég baka og þvæ þvott. Hann svæfir oft og ég baða – það er jafnvægi í okkar sambandi því við viljum hafa það þannig. Svoleiðis virkar þetta fyrir okkur og við myndum ekki vilja hafa þetta á neinn annann hátt.

Ég á ekki að gera eitt né neitt. Ég á ekki heima í eldhúsinu, ég á ekki samkvæmt einhverjum óskrifuðum lögum að vera með svuntu eða eyða 7 klukkutímum við það að elda eitthvað sem allir hakka svo í sig á 3 mínútum og tóku ekki einu sinni eftir svitadropunum á enninu á mér eftir allt baksið, eða brunablöðrunni á puttanum á mér eftir að hafa gripið um ofnpottinn (sem ég á ekki) ekki í ofnhönskum (á ekki heldur svoleiðis hvort sem er). Það sem ég á að gera er að finna það sem ég elska að gera, það sem ég er góð í og rækta það. Það sem ég á að gera er að passa að börnin mín fái næringarríkann mat, séu hrein og hamingjusöm. Hvernig svo sem ég geri það.

Það er búið að segja þetta svo oft áður, en ég ætla að segja það aftur fyrir fólkið þarna aftast sem virðist ekki átta sig á því.

Börnin muna ekki eftir því að þú hafir straujað rúmfötin þeirra daglega þegar þau voru hvítvoðungar. Nei því bara án gríns, það gerði mamma mín samviskusamlega – á hverjum degi. Þegar við bróðir minn vorum lítil – því það var það sem henni var sagt að hún ætti að gera.

Svo, núna ætla ég að fara aftur útí búð, kaupa fleiri bollur sem að ég bakaði ekki – og njóta þess að horfa á hamingjusama andlitið á börnunum mínum þegar þau hakka þær í sig og taka ekkert eftir því að ég eyddi ekki mörgum klukkutímum í það að baka þessar bévítans bollur.

Gleðilegan bolludag!

Author Profile

Ingibjörg Eyfjörð

Ingibjörg Eyfjörð er búsett í Mývatnssveit ásamt fjölskyldu sinni. Hún hefur óbilandi áhuga á heimilinu (nema þrifum, hún er með bráðaofnæmi fyrir þeim), förðun og öllu sem er aðeins út fyrir kassann. Skrif hennar einkennast af hreinskilni, kímnigáfu og harkalegum staðreyndum um hið daglega líf.


Facebook Comments

Share:

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *