Keisari var auðvelda leiðin.

… Fyrir mig.

Áður en þú brjálast inní þér yfir því að ég hafi sagt þetta, leyfðu mér að úskýra.
Keisari var ekki alltaf auðvelda leiðin fyrir mig. Ég á tvo keisara að baki. Tvo mjög ólíka keisara.

Þann 21 júní 2012 var ég komin 37 vikur með son minn hann Hólmgeir Loga. Ég var búin að vera í auknu eftirliti á Akureyri í nokkrar vikur því að legbotninn hækkaði ekki eins og hann átti að gera. Ég var rúmlega tvítug, ekkert búin að ímynda mér eða hugsa útí fæðingu eða það að eftir nokkrar vikur ætti ég að ýta barni útum mitt allra heilagasta. Ég skal sko segja ykkur það að ég vissi ekki hvað það þýddi að legbotninn hækkaði, ég hefði getað sagt ykkur nákvæmlega hversu marga bjóra þú getur drukkið á hvolfi án þess að æla en legbotn? Ekki hugmynd.

Þann 21 júní 2012 var ég send með flugi suður en í sónar sást að Hólmgeir var mikið vaxtarskertur (49%) og þau á Akureyri bjuggu ekki yfir þeim tækjum sem þurfti mögulega að nota þegar hann myndi fæðast. Ég átti bara að fara suður og vera sett af stað þar daginn eftir.

22 júní rann upp, ég setti á mig augabrúnir um morguninn og ætlaði að vera sæt og fín í fæðingunni. Gjörsamlega oblivious yfir því sem koma skyldi. Við fengum úthlutað fæðingarstofu sem var ofboðslega notarleg og þær hjúkkur sem sáu um okkur voru yndislegar. Fyrsti stíllinn var settur upp klukkan 6 og ég var ekki enn búin að átta mig alminnilega á því hvað þetta þýddi eða hvað væri að fara að gerast, ég vissi að ég var ólétt – en ég bara áttaði mig ekki á því að ég væri að fara að eiga BARN sem ég færi með heim, og þyrfti að hugsa um. Eins og venjan er þegar konur eru settar af stað á maður að liggja fyrir í klukkutíma eftir að stíllinn er settur upp. Ég var tengd við mónitor sem sýndi hjartsláttinn hjá Hólmgeir og ég horfði mjög reglulega yfir þennann klukkutíma á skjáinn því mér fannst eitthvað róandi við það að sjá töluna “147” á skjánum.

554691_10150987989629885_649096609_n

Klukkutíminn leið og ég þurfti að fara á klósettið, skjárinn sýndi ennþá flottann hjartslátt svo ég reisti mig við. Talan fór niður í 53. Ég vissi ekki hvað það þýddi en það gat ekki verið neitt gott svo ég hringdi eftir hjúkku. Þetta er líklega það eina sem ég man 100% úr því sem gerist næst en hjúkkan kemur inn og ég spyr “Á þetta að vera svona lágt? Ég reisti mig bara við” Hjúkkan varð frekar óróleg á svipinn þegar hún fór útúr herberginu og þá byrjaði ég að fá kvíðahnút í magann. 5 mínútum seinna var búið að segja okkur það að það yrði að taka hann með keisara, allt í einu fór allt á fullt – en samt var ég ein inní herberginu, allir á þönum, hlaupandi fram og til baka og enginn sagði mér neitt meira eins og í bíómyndunum þegar allt í kringum þig hreyfist á ljóshraða en þú situr kyrr. Áður en ég vissi af var ég komin á sjúkrarúm og á leiðinni í bráðakeisara. Hólmgeir hefði ekki lifað af venjulega fæðingu. Næstu mínútúr eru allar í móðu, eins og þetta sé saga sem einhver sé búinn að segja mér það oft að ég kann hana utan að. Ég grét, kallaði eftir barnsföður mínum og læknirinn sem var að reyna að koma deyfingunni í endurtók í sífellu “gerðu kryppu eins og köttur”. Ég grét í gegnum alla aðgerðina, ég man ekki þegar Hólmgeir var settur upp að andlitinu á mér – en ég veit að það var gert. Svo var hann farinn í hitakassa og útúr herberginu og barnsfaðir minn með uppá vökudeild. Ég var ein og hrædd og ekki með barnið mitt hjá mér.

Ég fékk ekki að hitta hann fyrir nokkrum klukkutímum seinna. Það voru flestir búnir að fara og sjá hann – og ég var búin að sjá hann á mynd. Ég sá barnið mitt í fyrsta skipti á myndinni sem þið sjáið hér að ofan. Ég held að fólk átti sig ekki á hversu erfitt það var. Ég á engar fleiri myndir nema eina mjög óskýra af sjúkrarúminu þegar það fer á fullri ferð áfram með mig inná skurðstofu. Hólmgeir var gullfallegur og fullkominn að öllu leiti. 1870gr og 47cm af hreinni fullkomnun. Ég svaf ekkert næstu daga, ég mátti ekki vera hjá honum á nóttunni svo þeim eyddi ég í að telja niður mínúturnar þangað til ég komst aftur til hans. Við vorum í viku á vökudeild en þar sem hann var alveg heilbrigður og engin vandamál þurftum við bara að vera þangað til að hann næði að halda hita og þá fengi hann að fara.

Þessi reynsla breytti mér.

Spólum áfram þangað til 2016. Ég varð í lok 2015 ólétt af Huldu Maríu. Ég sagði strax við ljósuna mína að ég vildi fara í keisara, allt benti til þess að Hulda María yrði líka lítil, þó ekki alveg jafn lítil og bróðir sinn. Það var einhvern veginn alltaf hundsað samt að ég vildi fara í keisara – ég gæti nú alveg reynt að fæða hana venjulega. Já, ég hefði alveg getað það. En hræðslan og kvíðinn um að það myndi eitthvað fara úrskeiðis var til staðar. Ég kunni keisara, tilhugsunin um að vita hvert skref var róandi. Við sækjum jú í það sem við þekkjum.

Samt þrjóskaðist ég, ég myndi prófa að fæða. Þar til einn daginn í kringum 35 viku sagði ég við Tryggva að ég ætlaði í keisara. Það kæmi ekki annað til greina. Hann studdi mig í því og sem betur fer var ekkert mál að tala við fæðingarlækninn.

2016-06-16_22.27.32

2016-06-16_22.26.50

Þetta skipti var allt svo öðruvísi. Það var ákveðinn dagur þegar var gengin 39 vikur rúmlega og enginn nema okkar allra nánustu vissu að við vorum að fara. Við Tryggvi gerðum allt í rólegheitunum, skiptum um föt, hlógum og vorum ekkert stressuð (svona eins lítið og maður getur orðið þegar maður er að fara að eiga barn allavegana). Keisarinn sjálfur var yndislegur, það voru allir svo glaðir og brosandi og Tryggvi kom mér til að hlægja þegar ég varð stressuð eins og hann gerir alltaf, hann er kletturinn minn. Hjúkkurnar sem voru viðstaddar tóku við símanum mínum og tóku fyrir okkur myndir og þegar daman var fædd og búið að ganga frá öllum lausum endum var okkur rúllað saman inná vöknun þar sem við fengum að vera í rólegheitum.

2016-06-16_14.51.56

Fyrir mig var keisari auðvelda valið í seinna skiptið. Þetta var vissulega mikil aðgerð og batinn alveg sársaukafullur. En þetta var fullkomnasta fæðing sem ég hefði getað ímyndað mér.

Ég skarta núna dýrindis öri eftir tvo keisara og er ofboðslega stolt af því. Hólmgeir bendir reglulega á það eða strýkur yfir það og segir að þarna hafi þau systkinin komið út því það hafi þurft að skera mömmu upp. Fyrir 3 árum síðan horfði ég á örið með hrylling, mér fannst það ljótt og ég fékk alltaf ákveðinn kvíða og upplifði mikla depurð við að horfa á það. Ekki lengur. Mér þykir svo ólýsanlega vænt um það.

2017-03-06_15.24.01

Þangað til næst.

Ingibjörg.jpg

Author Profile

Ingibjörg Eyfjörð

Ingibjörg Eyfjörð er búsett í Mývatnssveit ásamt fjölskyldu sinni. Hún hefur óbilandi áhuga á heimilinu (nema þrifum, hún er með bráðaofnæmi fyrir þeim), förðun og öllu sem er aðeins út fyrir kassann. Skrif hennar einkennast af hreinskilni, kímnigáfu og harkalegum staðreyndum um hið daglega líf.


Facebook Comments

Share:

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *