Jól í skókassa

 

Núna er haustið komið í allri sinni dýrð, kvöldin orðin dimm og kalt er í veðri. Á þessum tíma byrja margir að hugsa til jólana og undirbúa þau. Ég byrja snemma hvert ár í mínum undirbúning, en mér finnst gott að dreifa kostnaðinum á nokkra mánuði og eiga desember frían frá nánast öllu stressi. Í fyrra voru fyrstu jólin mín með barn þannig að Fannar minn er að fara að halda sín önnur jól núna og langaði mig að finna einhverja góða hefð til að halda í, eitthvað sem við myndum alltaf gera í aðdraganda jólana. Ég er með margar hugmyndir og á eftir að framkvæma einhverjar þeirra, ef ekki allar, en ein hugmyndin finnst mér sérstaklega áhugaverð og falleg. Sú hugmynd kallast Jól í skókassa og er verkefni sem haldið er út af KFUM og KFUK.

Verkefnið Jól í skókassa er alþjóðlegt en það gengur út að að fá börn jafnt sem fullorðna til þess að gleðja börn sem lifa við fátækt, sjúkdóma og erfiðleika með því að gefa þeim jólagjafir. Gjafirnar eru settar í skókassa og til þess að tryggja að öll börnin fái svipaða jólagjöf er mælst til þess að ákveðnir hlutir séu í hverjum kassa, en upplýsingar um það er hægt að finna í þessum bækling hér 

Verkefnið hefur verið unnið hér á landi frá árinu 2004 og hafa safnast rúmlega 50.000 gjafir, sem þýðir að 50.000 lítil hjörtu hafa verið glödd á þessum tíma <3 Gjafirnar sem fara héðan fara til Úkraínu og er þeim dreift á munaðarleysingjaheimili, á barnaspítala og til barna einstæðra mæðra sem búa við sára fátækt.

Við Fannar erum búin að vera að dunda okkur undanfarið í að kaupa hluti og setja í kassann okkar og núna er hann tilbúinn til þess að fara. Ég ákvað að reyna að miða við aldur og kyn hans og er kassinn okkar fyrir strák 3-6 ára (en það er yngsti hópurinn). Mig langaði að setja endalaust í kassann en varð að hætta þegar hann var orðinn yfirfullur. Það er ýmislegt sem leynist í kassanum en í honum eru t.d stílabækur, blýantar, litir, litabók, hreinlætisvörur (þvottapoki, sápa, tannbursti, tannkrem), dót, bangsi, prjónuð húfa og smá nammi.

 

Ég hvet alla til þess að taka þátt og senda pakka en tekið er á móti skókössum í húsi KFUM & KFUK við Holtaveg 28 alla virka daga milli kl. 9 og 17. Síðasti móttökudagur verkefnisins er laugardaginn 12. nóvember milli kl 11 og 16. Þeim sem búsettir eru utan höfuðborgarsvæðisins er bent á að skókassar þurfa að berast til Reykjavíkur fyrir 5. Nóvember

Færslan er ekki á neinn hátt kostuð né unnin í samstarfi við KFUM og KFUK, höfundi finnst þetta bara svo fallegt verkefni 🙂

Author Profile

Hildur Hlín

Hildur Hlín er 35 ára móðir í Reykjanesbæ. Hún er margmiðlunarhönnuður og naglafræðingur og hefur brennandi áhuga á hönnun, handverki, nöglum, tísku og lífsstíl sem og móðurhlutverkinu og öllu sem því tengist. Hún á einn dekurmola, hann Fannar Mána sem er fæddur í október 2015.


Facebook Comments