Innblástur að ruslminni lífsstíl

Innblástur að ruslminni lífsstíl

Myndin er í eigu A considered life

Ég hef mjög gaman af því að fylgja instagram aðgöngum þar sem einblýnt er á ruslminni lífsstíl með ráðum og fallegum myndum. Þetta veitir mér gífurlegan innblástur og heldur mér “peppaðri” í að halda áfram að gera mitt besta auk þess að gefa mér oft hugmyndir sem mér datt ekki í hug. Eins og með allt annað þá getur verið vinna að halda þessu við svo það hjálpar mikið að fylgjast með fleirum í svipuðum hugleiðingum og ræða jafnvel saman. Ég hef aðeins verið að setja slíkar myndir af og til á mitt instagram og hef verið að hugsa að gera meira af því en úrvalið og aðgengið að ruslminni matvöru sem dæmi er töluvert misjafnt eftir löndum. Það getur því verið afskaplega hjálplegt að fylgjast með hvar er hægt að nálgast slíka þjónustu og hvernig.

Ég fer reglulega að versla í Matarbúri Kaju (sirka annan hvern mánuð) þar sem ég fylli á birgðir mínar af þurrvöru svo sem baunum, hnetum, fræjum og kornvöru. Ég átti enn nóg til af kjúklingabaunum, hrísgrjónum, quinoa og nýrnabaunum en mig bráðvantaði linsubaunir (er með smá æði fyrir linsubauna dahl þessa dagana). Ég skrapp því seinustu helgi og verslaði inn bæði grænar og rauðar linsubaunir, hamp fræ, valhnetur (mjög góð uppspretta af omega-3) og fyllti á uppáhalds kryddið mitt, ítalska kryddblöndu.

Brauð og co hófu nýlega að selja dásamlega grænkeravæna kanil snúða. Þeir eru SVO góðir, ég mæli innilega með að smakka þá ef þið eruð ekki búin að því. Ég mætti með bómullarpoka sem ég fékk að setja snúðana í án minnsta vandamála, en einnig hef ég mætt með poka í fleiri bakarí og er almennt tekið vel í það.

Ég viðurkenni að það er ekki mikil löngun í ís þessa dagana í frostinu en ég hef þó verið reglulegur viðskiptavinur hjá Brynju ís eftir að þau hófu að selja æðislegan grænkeravænan kókos ís. Hann minnir á rjómaís og hentar mjög vel í bragðarref sem ég fæ mér með grænkeravænu kökudegi, hnetusmjöri og lakkrískurli. Um daginn ákvað ég að prófa að mæta með bambus kaffimálið mitt og var mjög vel tekið í það. Bambusmálið hentaði fullkomlega í lítinn bragðarref og hafa nokkrir vinir mínir mætt með eigin mál til Brynju eftir þetta.

Eitt af mínum uppáhalds leiðum til þess að skapa minna rusl er að taka alltaf nesti með í vinnuna. Einnig gerði ég það sama þegar ég stundaði nám. Auðvitað koma dagar þar sem eitthvað kemur upp á, ég náði ekki að undirbúa nesti eða er á hraðferð. Slíkt gerist. Ég hef þó gert þetta nógu lengi til þess að koma þessu í vana og langflesta daga gengur þetta upp. Með því að taka með mér nesti dreg ég úr þeim líkum að þurfa að hoppa út í búð eða á skyndibitastað og kaupa eitthvað tilbúið sem er langt oftast í umbúðum. Veskið verður einnig mjög þakklátt.

Ég er ekki með fleiri nýlegar myndir eins og er svo ég ætla að setja inn myndir frá nokkrum aðgöngum sem ég hef gaman af.

Ég vona að þið hafið gaman af, þessir aðgangar veita mér töluverðan innblástur! Þið getið fylgst með mér á instagram: amandasophy

Author Profile

Amanda

Amanda er vegan stelpa sem starfar sem lyfjafræðingur og elskar að borða góðan mat. Áhugamál eru eldamennska, hreyfing, heimilið, sanngjörn tíska (fyrir dýr og menn), umhverfisvernd og ýmislegt tengt lífsstíl.


Facebook Comments