Hvað þarf að eiga fyrir komu barns?

Hvað þarf að eiga fyrir komu barns?

 

Ég var í meðgönguhóp á vegum Heilsugæslunnar á Seltjarnarnesi. Þessi hópur var hluti af doktorsritgerð hjá einni sem var að skrifa um svona meðgönguhópa og í rauninni tilraunastarfsemi. Við hittumst reglulega og farið var í gegnum ýmislegt tengt meðgöngunni og fyrstu vikur barnsins. Þetta voru litlir hópar, 4-5 barnshafandi konur sem áttu það sameiginleg að ganga með sitt fyrsta barn og voru að eiga á svipuðum tíma ásamt 2-3 ljósmæðrum.

Það sem mér fannst róa mig rosalega mikið var eitt sem ljósmóðirin benti á. Við þurfum ekki að eiga allt sem er á öllum þessum listum sem eru vítt og dreift á netinu. Á Íslandi eru Apótek sem eru opin nánast 24/7 og ef það er eitthvað sem vantar þá ætti maki, vinur eða ættingi að geta keypt þennan tiltekna hlut sama dag eða daginn eftir. Við þurfum ekkert að eiga heilt apótek heima hjá okkur af allskonar hlutum sem við munum ekkert endilega hafa þörf á.

Ég fór yfir ýmsa lista og þessir listar voru með svo mikið magn af hlutum, margt sem ég hafði aldrei heyrt um. Ég mæli alveg með því að skoða svona lista, athuga hvort maður geti fengið lánað hjá vin eða ættingja. Ég fékk margt lánað frá minni bestu vinkonu og ættingjum –  og ég er svo þakklát fyrir það!

Ég ætla að fara yfir nokkra hluti sem eru algengir á þessum listum, sem er þörf fyrir suma en alls ekki alla.

Pelastandur
Dóttir mín kann ekki einu sinni að drekka úr pela. Ég hef nokkru sinnum reynt að gefa henni pela og þau skipti sem ég þríf pelann þá leyfi ég honum bara að þorna og set svo á sinn stað.

Pelahitari
Eins og ég sagði, barnið mitt drekkur ekki pela. Þegar ég hef prófað að hita upp mjólk sem ég hef pumpað þá hef ég leyft mjólkinni að liggja í heitu vatnsbaði.

Brjóstagjafapúði
Ég hef aldrei komist upp á lagið með að nota brjóstagjafapúða. Mér fannst nánast betra að nota bara venjulegan kodda, en í 99% tilvika nota ég engan stuðning. En þetta er mjög persónubundið!

Mexíkóhattar
Engin þörf á því að eiga mexíkóhatta nema ef að brjóstagjöfin gengur ekki vel eða ef maður er kominn með sár/blöðrur á geirvörturnar. Eða jú, sumum gengur vel að gefa og finnst betra að nota mexíkóhatta. Þetta er auðvitað bara val hvers og eins. Ég þurfti mexíkóhatt til þess að byrja með vegna þess að dóttir mín átti erfitt með að taka brjóstið, kærasti minn skellti sér í Apótekið og var kominn korteri seinna heim með það sem þurfti.

Skiptiborð
Ég nota ekki skiptiborð. Ég bý í lítilli íbúð og við kusum það að skipta bara á barninu okkar á skiptidýnu, hvort sem það er í rúminu, gólfinu eða bara í sófanum. Ef þið viljið skiptiborð, þá auðvitað fáið ykkur það, það er kannski þægilegt – en það er ekki nauðsyn.

Barnaolía
Ég hef enn þann dag í dag aldrei notað barnaolíu á barnið mitt. Eitt sinn kúkaði dóttir mín svakalega og ég notaði ólífuolíu í grisju og náði gula litnum af bossanum hennar, einnig hægt að nota kókosolíu.

Barnapúður
Hef aldrei notað svoleiðis. Svo hef ég heyrt að kartöflumjöl virkar betur en barnapúður.

Húðvörur og sápur
Maður er ekkert að fara að bera krem eða olíur á nýfætt barn nema þess sé ráðlagt/þörf. Ég fór á kynningu þegar ég var ólétt og fékk þá í gjafapoka með ýmsum litlum prufum af húðvörum, sjampó og fleira en það eina sem ég hef notað á barnið mitt er mild sápa. Ég nota milda sápu undir hálsinn og af og til til þess að þrífa hárið hennar. En ég nota ekkert annað. Nema jú, af og til bossakrem. Það er gott að eiga bossakrem og milda sápu.

Bleyjuruslatunna
Ég hendi mínum bleyjum bara í venjulegt heimilisrusl. Stundum, bara stundum, set ég kúkableyjuna í bleyjupoka áður en hún fer svo í heimilisruslið.

Horsuga
Hef aldrei notað né átt. Við notum alltaf saltvatnslausn til þess að losa horið úr barninu okkar. Einnig er talað um það að horsuga örvi slímmyndun.

Barnabað
Ég tek dóttur mína bara með mér í bað þegar það er þörf á að þrífa hana. Mjög yndisleg stund 🙂

Angel care eða snuzza
Ég myndi hugsanlega fá mér svoleiðis ef barnið mitt væri fyrirburi eða fæðast með fæðingargalla (hjartagalla eða slíkt).

Ungbarnahreiður
Sumir nota það til þess að sofa með barnið uppí en við notuðum Next2me frá Chicco. Ungbarnahreiðrið hefði tekið alltof mikið pláss í litla rúminu okkar.

Eins og ég hef tekið fram, þá er það mjög mismunandi eftir aðstæðum hvað þarf og hvað er óþarfi, mismunandi eftir því hvort barnið sé á brjósti eða ef barnið drekkur úr pela o.s.frv. Í stað þess að hoppa á svona lista af netinu og kaupa allt af þeim lista, afhverju ekki að leyfa barninu að koma í heiminn og vinna út frá því?

Það sem mér fannst virkilega virkilega þurfa fyrir komu barns er..

 

 • Ást
 • Athygli
 • Þak yfir höfuðið (heimili)
 • Næring (brjóstamjólk eða þurrmjólk)
 • Föt
 • Bleyjur
 • Blautþurrkur
 • Bílstóll
 • Barnavagn
 • Kerrupoki
 • Barnarúm og/eða vöggu
 • Sæng og sængurver
 • Skiptitaska
 • Hitamælir
 • Brjóstapumpa (ekki nauðsyn, en þægilegt)

…Aðrir hlutir koma svo með tímanum.

Instagram: eydisaegis|| email: eydisaegis@gmail.com

Author Profile

Eydís Sunna

Eydís Sunna er 25 ára búsett í Vesturbænum ásamt maka, dóttur og kisu. Hún er að klára byggingartæknifræði og hefur áhuga á hreyfingu, móðurhlutverkinu, heimilinu, förðun, ljósmyndun, kökuskreytingum og ýmislegu tengt lífstíl.


Facebook Comments

Share: