Heimagert “Snickers”

Heimagert “Snickers”

 

Ég fann þessa uppskrift hjá stelpu sem ég fylgist með á instagram. Notandanafnið hennar er @frommybowl en hún setur mikið inn þar af girnilegum og fallegum mat. Það sem mér finnst einnig mjög heillandi við matarmyndirnar hennar er að maturinn er oftast nær frekar einfaldur og það er ekkert verið að flækja hlutina. Ég er virkilega hrifin af þessum framsetningarstíl, þar sem það sést í flest öll hráefni og því getur fólk auðveldlega fengið hugmyndir og útbúið sýnar eigin útgáfur án þess að þurfa endilega að leita uppskriftina uppi.

Eftir að ég skrifaði færsluna nokkur lítil skref fyrir umhverfið þá hef ég mikið hugsað til þess að venja mig á að útbúa meira af mat frá grunni til að sleppa enn frekar við umbúðir, t.d. hummus og sósur.

Þegar ég sá þessar hnetustangir hjá henni vissi ég að ég yrði að prófa að búa þær til, enda mikill fyrrum aðdáandi Snickers.

Það er mjög einfalt að útbúa þessar stangir en þær þurfa góðan tíma í frystinum áður en hægt er að hjúpa þær með súkkulaði. Ég beið í ca. hálfan sólarhring, hjúpaði þær og beið í 1-2 klukkutíma til viðbótar með að skera stangirnar og mynda. Eftir á að hyggja hefði verið sniðugt að bíða lengur með að skera þær þar sem fyllingin var enn nokkuð mjúk, en stangirnar voru samt sem áður ljúffengar.

Ég notaði ílangt, mjótt nestisbox undir botninn og fyllinguna en það er þó auðvelt að móta hvoru tveggja saman í annað ílát eða jafnvel á disk (ef þið notið box er sniðugt að hafa bökunarpappír undir svo auðveldara sé að losa deigið).

Hráefni

karamellu fylling

– 1 kúffullur bolli af ferskum döðlum (munið að taka steininn úr)

– 2 mtsk hnetusmjör

– 1 tsk vanillu extrakt

– 1 tsk maca duft (gefur aukna sætu)

– ¼ tsk salt

botninn

2/3 bolli hafrar, malaðir í blandara

– ¼ af karamellu fyllingunni

annað

1/3 bolli ristaðar salthnetur (ég notaði kasjúhnetur), grófsaxaðar

– 3 plötur af suðusúkkulaði

Hellið sjóðandi vatni yfir döðlurnar í skál og leyfið þeim að mýkjast upp í um 10mín.

Malið rúmlega 2/3 bolla af höfrum í blandara þar til þeir verða að mjöli.

Sigtið vatnið frá döðlunum og setjið þær í matvinnsluvél ásamt hnetusmjöri, vanillu, maca dufti og salti. Blandið þar til fyllingin verður silkimjúk, notið sleif til að ýta hráefnunum niður með fram veggjum skálarinnar ef þess þarf.

Fjarlægið karamellu fyllinguna og leggið til hliðar.

Útbúið botninn með því að blanda saman haframjöli og ¼ af karamellufyllingunni í matvinnsluvél þar til klístrað deig myndast sem helst vel saman.

Þjappið því saman í mjótt og langt ílát eða mótið á disk. Bæti karamellufyllingunni við og mótið. Þrýstið salthnetunum í fyllinguna. Geymið í frysti í hálfan til einn sólarhring.

Skerið deigið í stangir eftir þann tíma og geymið áfram í frysti með súkkulaðið er undirbúið. Bræðið saman 2-3 suðusúkkulaði plötur í vatnsbaði.

Ég notaði tvo gaffla til að velta stöngunum upp úr súkkulaðinu, setti þær á bökunarfilmu og beint inn í frysti. Þær voru svolítið mjúkar og viðkvæmar hjá mér á þessu stigi svo veltið þeim varlega upp úr súkkulaðinu.

Ég beið í 1-2 klst í viðbót með að bera stangirnar fram en þær urðu enn þéttari og girnilegri á degi 2.

Þessar hnetustangir innihalda engar dýraafurðir, engan unninn sykur og eru bara svo dásamlega góðar. Það er virkilega gott að eiga svona nart inn í frysti en ég skar mér yfirleitt hálfa stöng í einu sem var nóg til að seðja nart- og sykurlöngun minni. Þær slógu einnig í gegn hjá kærasta mínum og hlakka ég til að prófa þær á yngri kynslóðinni.

Bitarnir urðu enn þéttari eftir 2 daga í frysti

Þar til næst!

Author Profile

Amanda

Amanda er vegan stelpa sem starfar sem lyfjafræðingur og elskar að borða góðan mat. Áhugamál eru eldamennska, hreyfing, heimilið, sanngjörn tíska (fyrir dýr og menn), umhverfisvernd og ýmislegt tengt lífsstíl.


Facebook Comments