Heimagerð tómatsósa

Heimagerð tómatsósa

Ég var vön að kaupa pastasósur eða jafnvel bara hreina maukaða tómata (tómat passata) í krukkum eða dósum og get notað töluvert af þeim. Ég ákvað því að prófa að búa til mína eigin tómatsósu þar sem ég er í þeirri vegferð að minnka einnota umbúðir og umbúðir almennt. Glerkrukkur þurfa vissulega ekki að vera einnota en ég á nú þegar nokkuð gott safn af krukkum svo ég vil ekki vera að sanka þeim að mér að óþörfu. Tómatana versla ég án umbúða í eigin grænmetispoka. Ítölsku kryddjurtirnar keypti ég í Matarbúri Kaju í eigin krukku en slík blanda ætti að vera til í flestum matvöruverslunum.

Ég hef sýnt frá gerð  tómatsósunnar minnar í instagram story en þetta er grunn uppskrift af tómatsósu sem ég nota í pasta og pottrétti og krydda svo aukalega eftir því hvað ég er að elda.

Ég er einnig viss um að þessi sósa yrði góð á pítsu! Mér finnst gott að búa til svolítið magn af sósunni í einu og skipta henni upp í krukkur sem ég geymi í frysti (passið bara að sósan sé orðin köld áður en krukkan fer í frystinn og ekki fylla krukkuna alveg upp í topp). Þá get ég tekið sósukrukku úr frystinum að morgni og eldað eitthvað gómsætt með henni seinna um daginn.

Þessi uppskrift býr til ca 10-11 dl af sósu sem ég skipti yfirleitt í 3 krukkur.

Hráefnin:

  • Í kringum 18 meðal stórir tómatar (verðið hefur yfirleitt verið í kringum 600kr. fyrir þetta magn).
  • 4-6 hvítlauksgeirar
  • Salt
  • Pipar
  • Ítalskar kryddjurtir
  • Ólífuolía

Aðferð:

Stillið ofninn ykkar á 200°C. Penslið stóra ofnplötu með ólífuolíu. Dreifið salti, pipar og ítölskum kryddjurtum yfir ofnplötuna ásamt grófsöxuðum hvítlauksgeirum.

 

Skerið stylkinn af tómötunum en leyfið kjarnanum að vera eftir. Skerið tómatana í tvennt og raðið á ofnplötuna þannig að kjarninn snúi að plötunni.

 

Bakið tómatana í ofninum í ca 35 mínútur og leyfið þeim svo að kólna.

 

Fjarlægið húðina af tómötunum, hún hætti að vera mjög laus.

 

Setjið allt innihald ofnplötunnar í blandara og blandið vel.

 

Sósan er tilbúin! Geymið í krukkum eða boxum. Ég hef geymt sósuna í ísskáp í nokkra daga (4-5 dagar) en geymi hana yfirleitt í frysti.

Njótið!

 

 

Facebook Comments