“Hann er bara skotinn í þér”

Í dag var ég eins og svo oft áður að skrolla niður facebookið mitt. Sé ég þar status þar sem ein móðir var að kvarta undan því að það væri strákur alltaf að stríða dóttur sinni í skólanum og var að biðja um ráð. 5 comment voru á þessum status, 3 af þeim voru á þá leið að þetta myndi líða hjá – strákurinn væri bara skotinn í henni! Ég veit að þetta var líklega ekki meint illa, það var örugglega bara verið að reyna að láta móðurinni líða betur og minna hana á það hvað hún ætti fallega dóttur sem allir væru skotnir í.

unspecified-2

Þetta er það sem er að, þetta er eitrandi setning “hann er bara að stríða henni því hann er skotinn í henni!” Þann 12 október 2015 kom ég fram með mína sögu eftir að hafa deilt henni með hóp sem ég er í á facebook, ég kom fram með mína sögu af því hvernig þessi setning mótaði mig, hafði áhrif á mig og brenglaði minn hugsunarhátt í að halda að þetta væri allt í lagi. Það væri merki um væntumþykkju að vera svona vondur við einhvern. Eftir allt saman, þá er þetta það sem okkur er sagt. Þegar ég birti þessa grein fyrst fékk bleikt.is og dv.is að endurbirta hana. Ég ætla að deila henni með ykkur aftur í von um að þessi setning verði grafin einhversstaðar langt langt ofan í jörðinni og það sé einhver sem les þetta sem noti hana aldrei aftur.

Þegar ég var 5 ára var mér sagt að ef að strákar toguðu í hárið á mér eða hrintu mér væru þeir bara skotnir í mér og ég ætti bara að hundsa þá. Ég skildi ekki hvernig það að valda sársauka gat verið merki um væntumþyggju. Ég skildi ekki hvernig þeim gat liðið vel að vita að ég fann til.

Þegar ég var 9 ára man ég að þeir eltu mig tveir heim úr skólanum. Þeir hrintu mér og „þeir eru bara skotnir í þér“ hljómaði eins og bergmál í hausnum á mér meðan einn þeirra hélt mér í snjóskaflinum og hinn tróð af öllu afli lúkufylli af snjó inná úlpuna mína. Ég grét og ég skildi ennþá ekki, afhverju vildu þeir meiða mig ef þeir voru bara skotnir í mér? Þeir hlutu að vera það. Fullorðnir myndu ekki ljúga.

Þegar ég var 12 ára varð ég fyrst skotin í strák. Mig langaði ekki til þess að meiða hann, mig langaði ekki til að valda honum sársauka. Mig langaði að brosa framan í hann og segja honum hvað hann var með falleg blá augu og hvað mig langaði mikið að strjúka honum um hárið og halda í höndina á honum. Afhverju voru strákar svona öðruvísi? Afhverju vildu þeir alltaf bara meiða? Og afhverju sagði fullorðna fólkið alltaf að þetta væri allt í lagi, þetta væru bara strákar ? Við ættum bara að hundsa þá. Ég vildi ekki hundsa þetta.

Þegar ég var 14 ára fékk ég að heyra „Kommon, það gera þetta allir“ í fyrsta skipti meðan ég fann allann líkamsþungann hans hvíla á mér og mér fannst eins og ég væri á sjávarbotni og þrýstingurinn væri að merja öll bein í líkamanum mínum og kremja mig. „Þetta verður ekki vont, ég ætla að vera góður“ „ég ætla að vera góður“ „ég ætla að vera góður“. Þessi 5 orð óma ennþá í hausnum á mér, ég finn ennþá andardráttinn hans á eyranu á mér, reykingarlyktina útúr honum, hvað hann hélt fast. Strákar voru ekki góðir, en hann meiddi mig – hann hlaut að vera skotinn í mér. Fullorðnir myndu ekki ljúga.

Þegar ég var 19 ára fékk ég fyrsta höggið. Ég ímynda mér að svona sé það að verða fyrir eldingu. Ég sá það ekki koma og ég gat ekki sagt neitt. Öll orðin mín hurfu í einhvern djúpann pytt af sjálfsfyrirlitningu. Hann meiddi mig – hann hlaut að vera skotinn í mér svo ég fyrirgaf, ég gerði hvort sem er örugglega eitthvað rangt. Var það ekki annars ? Fullorðnir. Myndu. Ekki. Ljúga.

Þegar ég var 19 ára fór ég með alla mína sjálfseyðingarhvöt heim til einhvers. Ég segi einhvers því nafnið hans er falið í móðu og reyk. Ég kom, ég reykti og eftir það verður þetta eins og fjarlæg saga sem einhver er búinn að segja mér það oft að ég kann hana utan að. Það er ekki eins og þetta hafi gerst við mig. Rúmið hans var hart og óumbúið og ég man að ég hugsaði að strákar væru í alvörunni sóðar. Hjartað í mér sló svo fast að ég var hrædd um að það myndi yfirgefa mig, hræðslan gerði mig stjarfa. Hann bauð mér meira og þó að herbergið hafi snúist á ógurhraða og ég hélt ekki í við sjálfan mig lengur þorði ég ekki að segja nei þar sem hann var búinn að kveikja í. Allt varð svart og ég vakna, daginn eftir, ein.

Ég er 24. Ég finn ennþá marblettina. Ég sé þá ekki en ég finn þá, ég finn fyrir þeim undir húðinni. Stundum þegar ég ligg uppí rúmi byrja ég að klóra þar sem þeir voru, en þeir fara aldrei. Ég finn ennþá skömmina. Ég finn ennþá hverja einustu tilfinningu sem ég fann þegar ég skreið uppí leigubílinn og vonaði að leigubílstjórinn myndi ekki spurja um skurðinn á vörinni eða það að ég var bara í einum skó því ég flýtti mér svo mikið í einhverri geðshræringu að ég fann ekki hinn.

Í öll þessi ár bar ég þetta á öxlunum, ein af hræðslu við það sem samfélagið hafði kennt mér. Ég kom mér í þessar aðstæður, ég bauð uppá þetta. Ekki segja neitt, ekki finna neitt. Fela þetta.

Mér var sagt þegar ég var lítil að ef strákar stríddu þér, eða meiddu – þá væru þeir bara skotnir í þér. Því það sem okkur er talið trú um þegar við erum litlar er að strákar eru bara strákar, þeir sýna væntumþyggju svona.

Mér var nauðgað, hann meiddi mig, hann braut mig á vegu sem enginn getur lagað nokkurntímann aftur. Og það er engin væntumþyggja í því.

Ég á 7 mánaða gamla stelpu og tæplega 5 ára gamlann strák. Og ég mun aldrei kenna þeim að ef einhver stríðir þeim eða meiðir þau að þá sé það merki um væntumþykkju, alveg eins og ég mun kenna þeim að ef þau eru skotin í einhverjum eða líkar vel við einhvern að þá er þetta ekki leiðin til að ná til þeirra.

Ég vona að þið gerið það sama.

ingibjorg

E.s Daginn eftir að ég birti þessa grein inná hópnum sem ég er í fékk ég sendann þennan link en þetta er grein af bleikt.is um nákvæmlega þetta – ég læt hann fylgja með.

Author Profile

Ingibjörg Eyfjörð

Ingibjörg Eyfjörð er búsett í Mývatnssveit ásamt fjölskyldu sinni. Hún hefur óbilandi áhuga á heimilinu (nema þrifum, hún er með bráðaofnæmi fyrir þeim), förðun og öllu sem er aðeins út fyrir kassann. Skrif hennar einkennast af hreinskilni, kímnigáfu og harkalegum staðreyndum um hið daglega líf.


Facebook Comments

Share:

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *