Gróa á leiti og allt sem henni fylgir

Gróa á leiti og allt sem henni fylgir

Hver er þessi Gróa?
Flestir kannast við hana, þegar saumaklúbbar, vinahópar, kvenfélög eða meiraðsegja kallarnir á kaffistofunni í vinnunni hittast, þá er hún fyrst á staðinn. Hún er fyrst á staðinn með allt heitasta slúðrið, hver sagði þetta eða gerði hitt, þetta virðist oftast snúast uppí keppni – hver er með mest krassandi sögurnar.

Við höfum öll tekið þátt í að fóðra Gróu á leiti á einn eða annann hátt og ég líklega oftar en margir. Oft án þess að taka eftir því, þetta er bara einhvernveginn svona, maður hittir einhvern og maður talar um fólk – eftir allt saman þá eyðum við megninu af okkar lífi virðist vera í að pæla í öðru fólki, ekkert alltaf illa meint. En oft – of oft er það eingöngu til að setja svartan blett á einstaklinginn af einhverri ástæðu. Gróa sér líka til þess að eitthvað sem byrjar sem örsmá óspennandi saga – breytist yfir í krassandi spennusögu frá manni til manns. Flestir enda þó yfirleitt sögurnar á “án þess að ég viti nokkuð um það” eða “eða svo heyrði ég bara” – og þá kemur aðal spurningin, ef þú veist ekkert um það, afhverju ertu þá að tala um það? Afhverju ertu að setja þetta út í umheiminn ef þú hefur enga staðfestingu? Bara til að hafa eitthvað til að tala um? Ef þú vilt svona mikið vita um hagi næsta manns, afhverju ekki að spurja þá manneskju beint? Er það því við erum hrædd við það? Hrædd við að sýna manneskjunni nákvæmlega hversu hnýsin við erum um líf annarra? Gróa nefnilega sér til þess að það er miklu meira spennandi að tala um fólk bakvið það, það er miklu meira spennandi að velta fyrir sér, fylla uppí eyðurnar og giska. Hversu rangt sem það er.

Ég las í dag svipaðan pistil frá honum Einari hjá Alpha Gym og í honum stóð;

Eftir að ég fór að umkringja mig einstaklingum sem njóta almennt meiri velgengni tók ég eftir að ég heyri minna og minna slúður. Ég heyri meira um hugmyndir, spennandi verkefni, framtíðina, áhugaverðar kenningar, hvernig á að ná meiri árangri eða afköstum o.s.frv.. Þegar ég er svo í kringum fólk sem leggur sig ekki eins mikið fram við að ná árangri í lífinu eða verða besta útgáfan af sjálfum sér fer ég aftur að heyra meira slúður. Líklega er þetta óöryggi. Fólki líður betur með sjálfan sig á meðan það segir frá óförum annara.

Og ég held að það sé akkúrat málið. Ég veit allavegana fyrir mitt leiti, að þá ætla ég að leggja mig fram við að verða betri manneskja, sýna börnunum mínum betra fordæmi en það að velta fyrir mér hvað einhver annar gerði eða gerði ekki án þess að vita nokkurn skapaðan hlut um það. Gróa er ekki velkomin hingað lengur – Gróa er smásál sem á ekkert erindi í mitt líf og smásálir tala um fólk, aðrir tala um málefni.

Ég mæli með að aðrir geri það sama.

Author Profile

Ingibjörg Eyfjörð

Ingibjörg Eyfjörð er búsett í Mývatnssveit ásamt fjölskyldu sinni. Hún hefur óbilandi áhuga á heimilinu (nema þrifum, hún er með bráðaofnæmi fyrir þeim), förðun og öllu sem er aðeins út fyrir kassann. Skrif hennar einkennast af hreinskilni, kímnigáfu og harkalegum staðreyndum um hið daglega líf.


Facebook Comments

Share: