Fyrstu jólin HEIMA

Jæja. Það er komið að því. Fyrstu jólunum, heima. Og þá meina ég ekki heima hjá mömmu og pabba eða tengdó, heldur heima hjá okkur. Við Tryggvi ætlum að halda fyrstu jólin okkar í ár og jiminn eini þegar ég var yngri hélt ég að ég myndi fá kvíðakast, heilablóðfall og fara í hjartastopp þegar ég hugsaði um að vera ekki hjá mömmu um jólin. Það er bara eitthvað við mömmujól þið vitið.

20171205_HKB_IngibjorgEyfjord00022

20171205_HKB_IngibjorgEyfjord00019

En, það er komið að þessu og ég verð að segja að þetta hefur ekki verið svo hræðilegt hingað til. Fyrir utan það að Hólmgeir braut toppinn á jólatrénu, Hulda reyndi svo að murrka úr því lífið og hrinti því á hliðina og ég mögulega klúðraði einu smákökuuppskriftinni sem ég bakaði – bara útlitslega samt, piparlakkrískurltoppar og þeir bragðast guðdómlega.

Heima hjá mömmu minni á jólunum hefur alltaf verið humar í forrétt, beinlausir fuglar (I know right) í aðalrétt og svo After Eight mús í eftirrétt. Beinlausu fuglarnir hafa alltaf verið ómissandi partur af jólunum mínum enda er þetta matur sem maður fær bara einu sinni á ári. Tryggvi er hinsvegar ekki vanur því og ég er ekki alveg nógu flink í eldhúsinu til að vippa í nokkra fugla (nei svona grínlaust, möndlugrauturinn í hádeginu á morgun verður úr dollu og ég skammast mín ekki einu sinni, takk MS fyrir bestu vöru í heimi) svo við ætlum að borða Hamborgarhrygg og með því, svo kemur bara í ljós á morgun hvort þessi blessaði hryggur verði efni í skilnað en við erum vön 2 mismunandi útfærslum af gljáa og færðist hiti í leikinn í Bónus þegar við vorum að versla inn, og við áttuðum okkur á að við vildum sitthvoran gljáann.

20171205_HKB_IngibjorgEyfjord00004

Ég hélt alltaf að jólin yrðu að vera svona og svona og var þar af leiðandi alltaf svo stressuð yfir því að fara að halda mín eigin jól, ég er ekkert jafn áhugasöm í eldhúsinu og elskuleg móðir mín eða góð að elda og græja veislur bara svona yfir höfuð. En, ég þarf heldur ekkert að vera það. Jólin snúast ekki um það – heldur samveru og gleði. Á aðfangadag þegar klukkan verður 6 verðum við fjölskyldan í Helluhrauni í náttfötum, vonandi brosandi og kát að græja matinn saman við ljúfa tóna kirkjuklukkunnar, því það er það eina sem ég vill um jólin, vera umkringd þeim sem ég elska (og fá góðan mat en hey ef allt fer í klessu er nánast öll fjölskyldan mín í þar næstu götu og þau munu eiga nóg af mat!).

Takk elsku lesendur fyrir allt sem þið gáfuð mér árið 2017. Ég er svo þakklát fyrir að hafa stað til að láta rödd mína heyrast. Takk fyrir allar vinátturnar, öll tækifærin og skilaboðin sem ég hef fengið frá ykkur en einnig er ég svo ólýsanlega þakklát fyrir að þið hafið gefið ykkur tíma í að lesa færslurnar mínar og deila þeim áfram.

26037073_10156075152004885_1361816917_o

2018 verður stærra, betra og skemmtilegra.
Ég er viss um það.

Gleðileg Jól!

Ingibjörg.jpg

PS. eins og vanalega eru allar myndirnar af okkur teknar af henni Halldóru en þið finnið hana hér.

Author Profile

Ingibjörg Eyfjörð

Ingibjörg Eyfjörð er búsett í Mývatnssveit ásamt fjölskyldu sinni. Hún hefur óbilandi áhuga á heimilinu (nema þrifum, hún er með bráðaofnæmi fyrir þeim), förðun og öllu sem er aðeins út fyrir kassann. Skrif hennar einkennast af hreinskilni, kímnigáfu og harkalegum staðreyndum um hið daglega líf.


Facebook Comments

Share:

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *