Fyrstu 20.vikurnar

Fyrstu 20.vikurnar

Nú er ég komin 24 vikur á leið með fyrsta barn og hafa bloggfærslurnar svo sannarlega ekki verið eins margar og ég ætlaði mér síðan að við verðandi foreldrar fengum fréttirnar. Ég er ótrúlega þakklát og spennt fyrir komandi kríli, en viðurkenni fúslega að það er klárlega vinna að baka eitt stykki barn, því fylgir minni orka, verkir og ýmislegt fleira skemmtilegt. Á sama tíma þá hlýnar mér þó alltaf um hjartað þegar ég finn spark (mögulega fer það að vera minna krúttlegt þegar spörkin eru orðin sterkari og plássið minna..) og er ég ótrúlega glöð með meðgönguna mína.

Mig langaði að setja upp smávegis lista yfir það sem hjálpaði mér að líða betur fyrstu vikurnar, fyrst átti listinn bara að vera fyrstu 3 mánuðirnir en já..betra seint en aldrei. Listinn breyttist í raun lítið frá 12-20.viku fyrir utan að ógleðin minnkaði, en á 20-24.viku hefur bæst við snúningslak og bumbu/mjóbaksbelti auk þess sem ég byrjaði í sjúkraþjálfun.

Ég tel mig hafa verið mjög heppna með góðan fyrri part meðgöngu, en ógleði byrjaði að láta skræla á sér á 7.undu viku, var mest í viku 8-10 og orðin minni aftur í viku 11. Mér verður þó enn smá óglatt ef ég verð of svöng, en ég var nú svo sem ekki þekkt fyrir að höndla hungur vel fyrir hvort sem er..ég passa bara að vera alltaf með nóg nesti á mér.

Ég byrjaði að finna fyrir seyðing og þreytu óþægindum í bakinu á ca 12.viku og hefur það ágerst hægt og rólega en í dag má segja að ég sé með einhverja mjaðma- og mjóbaksverki alla daga, þó mis mikla eftir álagsdögum og reyni ég því að hvíla mig vel í frítímanum mínum, mér líður vel þrátt fyrir það og held þreytt en glöð áfram. Hér kemur þó listinn, við erum auðvitað öll misjöfn, ekki er hægt að yfirfæra svona lagað á allar meðgöngur en vonandi hafið þið gaman af og að þetta nýtist mögulega einhverjum.

 

1. Hap+ molar

Ég er er gjörn á að finna fyrir ferðaveiki, hvort sem það er flug-, sjó- eða bílveiki. Stundum dugar að ég sé föst í umferðarteppu á hlýjum degi til þess að mig fari að sundla svo ég hef lengi tamið mér að vera alltaf með kassa af Hap+ í veskinu fyrir slík tilefni. Molarnir voru upphaflega hannaðir með einstaklinga með munnþurrk í huga en þeir eru sykurlausir og skaðlausir fyrir tennurnar. Þegar fór að myndast reynsla á molana kom í ljós að þeir aðstoði einnig við vægri ógleði, og svipar því til preggy drops molana og sleikjóana að því leiti.  Þar sem Hap+ molarnir eru ódýrari og ég vön að nota þá fyrir þá hélt ég mér við þá, en uppáhalds brögðin eru jarðarberja og rabbara og engifer og lime. Molarnir hjálpuðu mér gífurlega mikið á ógleði tímabilinu, sérstaklega í vinnunni og í bílferðum. Einnig var mikilvægt að passa að vera dugleg að narta í eitthvað, en ég var mikið að vinna með ferska ávexti og ritz kex. Bæði preggy drops og Hap+ fæst í flestum apótekum en Hap+ fæst einnig í Krónunni og eflaust í fleiri verslunum.

2. Góð vatnsflaska

Fyrstu vikurnar var ég mjög þyrst alltaf, og varð að hafa vatnsflösku hjá mér öllum stundum. Meðfram ógleðinni fékk ég reglulega svima og fannst mér þá hjálpa að drekka nóg af vatni. Núna seinustu vikurnar er ég aftur farin að finna þörf fyrir að drekka nóg vatn og finn ég klárlega mun á líðan þegar ég passa upp á það.

3. Líkamsolía/krem

 

Ég er að eðlisfari með frekar þurra húð og er dugleg að bera á mig krem daglega, en strax á fyrstu vikunum fór ég að finna fyrir auknum húðþurrk. Ég keypti mér hreina möndluolíu frá NOW (Krónan, Nettó) sem ég bar samviskusamlega á mig einu sinni á dag (og svo húðkrem á móti ef mér fannst ég þurfa oftar yfir daginn). Í dag er ég búin að færa mig yfir í þessa olíu sem mér finnst alveg frábær, en möndluolían er samt sem áður mjög góður kostur.

4. Meðgöngupúði

Ég byrjaði að skoða aðeins úrvalið af meðgöngupúðum í byrjun meðgöngu og fannst mér Boppy meðgöngupúðinn lýta út fyrir að vera sá sem gæti hentað mér best. Hann er þó í dýrari kanntinum þannig að þegar ég sá auglýsingu á sama púða lítinn notaðan til sölu á Facebook var ég ekki lengi að hafa samband. Ég held ég hafi ekki verið komin nema 10 vikur á leið, en taldi að það myndi ekki skaða að venja mig strax á að sofa með hann. Ég get alveg sagt það að sú ákvörðun var algjörlega þess virði!

5. Mjúkir og þægilegir toppar

Það leið ekki á löngu þar til ég sagði spangar brjóstarhaldaranum formlega upp og fór einungis að nota mjúka toppa. Það breytti helling fyrir almenna líðan og eymsli að vera ekki í þröngum eða stífum brjóstarhöldurum og fannst mér mjúk bómull henta best. Þessir toppar frá Organic basics eru í miklu uppáhaldi og hafa verið í algjörri róteringu hjá mér síðan í byrjun meðgöngu. Ég átti toppana fyrir en var svo heppin að fá samstarf við fyrirtækið og fékk ég gefins sitthvorn toppinn í stærri stærð þegar þörf var á. Þau gáfu mér einnig afsláttarkóða til að deila með lesendum, en með kóðanum AMANDAOB10 færðu 10% afslátt.

6. Grjónapúði

Síðast en ekki síst hefur grjónapúði sem hitaður er í örbylgju algjörlega verið málið fyrir mig, en ég hef notað hann nánast upp á dag síðan á 12.viku. Ég keypti hann hjá Lyf og heilsu en það er eflaust hægt að finna grjónapúða í ýmsum apótekum og jafnvel heimasaumaða á Facebook. Þessi nýttist í fyrstu við hinum ýmsu togverkjum en núna nota ég hann mest við verkjum í mjóbaki og mjöðmum. Ég tek hann alltaf með mér  í vinnuna og finnst mér hjálpa töluvert að vera í háum leggings (er að elska þessar frá MTK, þær halda líka vel við bak og bumbu) svo ég geti smellt heitum púðanum inn á mig án þess að hann fari á flakk. Undanfarið er ég farin að eiga aðeins erfiðara með að sofna og vakna gjarnan með verki í mjöðmunum, svo að annað trikk sem ég hef nýtt mér er að fara með heitan púðann upp í rúm og leggja á þá mjöðm sem snýr upp (þar sem sofið er á hlið) og við mjóbakið. Þannig næ ég að slaka töluvert betur á og sef yfirleitt lengur í einu. Ef ég vakna svo með verki um nóttina þá trítla ég bara fram og hita hann aftur en það er fínt að nýta pissuferðirnar til þess, við vitum alveg að þær eru tíðar..

 

Ég vona að þið hafið gaman af, en þið getið fylgst með mér og bumbubúanum á instagram. Þar til næst!

Author Profile

Amanda

Amanda er vegan stelpa sem starfar sem lyfjafræðingur og elskar að borða góðan mat. Áhugamál eru eldamennska, hreyfing, heimilið, sanngjörn tíska (fyrir dýr og menn), umhverfisvernd og ýmislegt tengt lífsstíl.


Facebook Comments